Home / Fréttir / Greining: Rússar kynna nýjan skriðdreka

Greining: Rússar kynna nýjan skriðdreka

Armata T-14 skriðdrekinn (Source: Wikimedia / Vitaly V. Kuzmin)
Armata T-14 skriðdrekinn (Source: Wikimedia / Vitaly V. Kuzmin)

Rússar efndu til mikillar hátíðar laugardaginn 9. maí til að minnast þess að 70 ár voru liðin frá sigri þeirra í síðari heimsstyrjöldinni. Að þessu sinni fór hin árlega sigurhátíð  fram í skugga vaxandi spennu milli Rússa og þjóða Vesturlanda vegna ástandsins í Úkraínu og innlimunar Rússa á Krímskaga fyrir rúmu ári.

Vegna 70 ára afmælisins var hersýningin í Moskvu meiri en jafnan áður og ein hin stærsta í heimi á síðustu áratugum. Meðal þess sem þar mátti sjá og vakti hvað mesta athygli er nýr rússneskur skriðdreki, fyrsta nýsmíði Rússa í 25 ár. Eins og sjá má á myndunum sem birtast hér var öllu til tjaldað.

Skriðdrekinn nefnist T-14 Armata. Hann markar þáttaskil í gerð þungavopna og verður helsti vígdreki rússneska landhersins. Armata er ætlað að sinna fjölþættum verkefnum. Skriðdrekann má til dæmis nýta til liðsflutninga, til loftvarna og í þágu stórskotaliðs. Armata er með þriggja manna áhöfn með sjálfvirkum skotturni sem býður upp á aukna hreyfigetu á aðal byssu ásamt því að veita aukið öryggi fyrir áhöfn. Meginbyssan er 125 mm og getur hún skotið hefðbundnum kúlum ásamt stýriflaugum með 8 km. drægi. Rússneskur skriðdreki hefur aldrei fyrr verið búinn svo fullkomnu vopnakerfi. Ein mesta byltingin við Armata er hinn mikli sveigjanleiki sem felst í hönnun hans, gerir hún drekann í raun að fjölnota farartæki til hernaðar.

Meðal þeirra hergagna sem sýnd voru hinn 9. maí var brynvarinn liðsflutningavagn, T-15, sem hvílir á sama undirvagni og Armata-skriðdrekinn.

Greining:

Eftir að rússneski herinn réðst inn í Georgríu árið 2008 blasti við að hann var bæði stirður og óskilvirkur. Síðan hafa rússnesk stjórnvöld lagt höfuðkapp á að auka sveigjanleika heraflans og skjót viðbrögð. Smíði Armata-skriðdrekans er liður í þessu átaki. Óljóst er hvenær herstjórnin getur treyst á hann vegna þess hve herinn er stór og landsvæðið sem fellur undir hana. Þá bætir efnahagsvandi Rússa ekki úr skák. Er því spáð að langur tími líði þar til Armata-skriðdrekar verði komnir í útbreidda notkun.

Rússar búa hinsvegar að vopnaiðnaði sem var byggður upp með áratugum af háum fjárframlögum undir Sovétríkjunum og eru enn í þeirri stöðu að ríki eins og Kína og Indland leita fremur til Rússlands fyrir vopnakaup en að leggja í allan stofnkostnaðinn við að koma sér upp alhliða hátækni vopnaiðnaði. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur lagt áherslu á að vopnaiðnaður sé og verði einn af hornsteinum rússneska þjóðarbúskaparins. Í því ljósi kann hann að forgangsraða í þágu framleiðslu á Armata T-14 þótt annað sé látið sitja á hakanum. Sérfræðingar segja að við smíði skriðdrekans hafi verið nýtt hátækni sem slagi upp í hið besta á Vesturlöndum. Minnt er á að eitt sé að hanna, teikna og smíða vopnakerfi annað að það nýtist sem skyldi þegar á reynir. Verður fylgst náið með því hvort Armata T-15 muni sjást á Krímskaga eða í nágrenni landamæra Úkraínu.

 

Frekari upplýsingar

Þyngd: 45-55 tonn.

Áhöfn: 2-3.

Brynvörn: 44S-sv-Sh, sem er ný tegund af brynvörn sem t.a.m. á ekki að tapa eiginleikum sínum í miklum kulda

Vopnakerfi 1(mismunandi eftir útfærslum): 125mm 2A82 skriðdreka fallbyssa, 2S35: 152mm byssa.

Vopnakerfi 2 (mismunandi eftir útfærslum):30 mm fallbyssa and 12.7 vélbyssa.

Vél: A-85-3A dísel vél, 1.200-1.500 hestöfl, 8 gíra sjálfskipting.

Hámarkshraði: 65-75 km/klst (eftir búnaði).

Radar og felubúnaður: stefnt er að því að Armata nýti sambærilega tækni og er að finna í fimmtu kynslóðar orrustuvélinni Sukhoi T-50. Turninn á T-14 er síðan með kerfi sem skjóta fjölda reyksprengja sem trufla stýriflaugar.

 

T-15 Armata að ofan (Source: Andrey Kryuchenko)
T-15 Armata að ofan (Source: Andrey Kryuchenko)

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …