Home / Fréttir / Grænlenski utanríkisráðherrann hallmælir Dönum en fagnar sigri Trumps

Grænlenski utanríkisráðherrann hallmælir Dönum en fagnar sigri Trumps

Frá Quebec-fundi Hringborðs norðursins, Ólafur Ragnar Grímsson, Philippe Couillard, forsætisráðherra Quebec-fylkis, og Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands.
Frá Quebec-fundi Hringborðs norðursins, Ólafur Ragnar Grímsson, Philippe Couillard, forsætisráðherra Quebec-fylkis, og Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands.

Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, var óvenjulega harðorður í garð dönsku ríkisstjórnarinnar í danska blaðinu Politiken þriðjudaginnn 13. desember. Hann sagði hroka Dana í garð Grænlendinga svo mikinn að þeir ættu ekki annan kost en að segja sig úr lögum við danska konungsríkið.

Gagnrýni sína reisir utanríkisráðherrann meðal annars á hvernig Danir haldi á málum gagnvart Bandaríkjamönnum vegna hernaðarlegrar aðstöðu í Grænlandi. Upphaflegur samningur um þessa aðstöðu fyrir 75 árum án aðildar Grænlendinga sé undirrtót spennu og höfnunar.

Grænlendingar hafi verið sviptir heimild til að innheimta leigutekjur vegna herstöðva Bandaríkjanna og sviptir réttinum til bóta vegna mengunar og óþæginda. Í krafti herstöðvanna og samningsins við Bandaríkjamenn hafi danska stjórnin fengið of mikil áhrif innan NATO og afslátt á framlagi sínu til bandalagsins.

Þá sé málum einnig þannig háttað að Grænlendingar fái ekki að hafa áhrif á þeim vettvangi þar sem teknar séu ákvarðanir um mikilvægustu atvinnugrein landmanna, fiskveiðar.

Danir neiti Grænlendingum aðild að alþjóðastofnunum eins og Nafo og NEAFC þar sem teknar séu ákvarðanir um veiðar á Norður-Atlantshafi.

Grænlendingar stofnuðu ráðuneyti um sjálfstæðismál í október 2016. Í nóvember 2016 samþykkti grænlenska þingið einum rómi að taka beri varnarsamninginn milli Bandaríkjanna og Danmerkur til endurskoðunar svo að Grænlendingar hafi meiri hag af því að láta land undir Thule-herstöð Bandaríkjanna.

Ekki hefur tekist að sætta sjónarmið danskra og grænlenskra stjórnvalda í varnarmálum og 1. desember 2016 hitti Vittus Qujaukitsoq einn Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og gerði honum grein fyrir kröfunni um nýjan varnarsamning.

Politiken spurði Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, álits á orðum grænlenska ráðherrans. Hann svaraði: „Gagnrýnin er hvorki sanngjörn né rökstudd. Ég sætti mig ekki við ásakanir Vittus Qujaukitsoq um hroka. Í stjórnarsáttmála [dönsku] ríkisstjórnarinnar segir að höfuðmál í samstarfi við [grænlensku] landstjórnina sé að fjalla um mikilvæg mál eins og Thule-stöðina og Camp Century. Um þetta verði náið og uppbyggilegt samstarf þar sem lögð verði áhersla á lausnir.“

Vegna ummæla utanríkisráðherrans, flokksbróður síns, sagði Kim Kielsen, forsætisráðherra grænlensku landstjórnarinnar, naalakkersuisut, í yfirlýsingu að þau hefðu ekki verið rædd í landstjórninni né væri þau í nafni hennar. Hann teldi Grænlendinga ekki á leið til sjálfstæðis. Forsætisráðherrann sagði: „Almennt séð er ég þeirrar skoðunar að við eigum að leggja okkur fram um að efla samstarfstengslin milli naalakkersusiut og dönsku ríkisstjórnarinnar báðum til hagsbóta og Grænlendingum til framdráttar.“ Þá sagði hann ekki vilja til þess í naalakkersusiut að segja upp samstarfinu um bandarísku herstöðvarnar.

Dagana 11. til 13. desember var svonefnt Arctic Circle Quebec Forum, það er Quebec-fundur Hringborðs norðursins. Vittus Qujaukitsoq, flutti þar ræðu og sagði að landstjórn Grænlands fagnaði sigri Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum vegna stefnu hans í olíu- og gasmálum. Þá væri valið á Rex Tillerson, forstjóra Exxon, í embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna Grænlendingum einnig fagnaðarefni.

Frétt um þetta birtist á vefsíðu Nunatsiaq News en þar segir að Qujaukitsoq, fyrrverandi þýðandi, hafi flutt ræðu sína á vandaðri ensku og sagt að Grænlendingar gætu ekki stofnað til sjálfstæðis frá Dönum nema þeir stunduðu olíu- og gasvinnslu.

“Grænland er nýmarkaðsland. Við erum hálfnaðir við að koma á fót eigin þjóðfélagi,“ sagði utanríkisráðherrann.

Samsteypustjórnin á Grænlandi var mynduð í október 2016 en í henni sitja ráðherrar frá gömlu erkifjandmönnunum í grænlenskum stjórnmálum: Siumut og Inuit Ataqatigiit auk ráðherra frá Partii Naleraq. Stjórnin nýtur stuðnings 24 af 31 þingmanni á grænlenska þinginu.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar hefst á þessum orðum: „Grænlandi verður ekki snúið af leið til sjálfstæðis og sú leið krefst ekki aðeins stöðugleika heldur þjóðareiningar.“

Í samtali við Nunatsiaq News sagði grænlenski utanríkisráðherrann að samtök Inúita í löndunum við norðurpól The Inuit Circumpolar Council hefðu „gamaldags“ viðhorf til olíu- og gasvinnslu og þau hefðu ekki gagnast grænlenskum hagsmunum.

Ráðherrann sagði að Hringborð norðursins, Arctic Circle, stofnað af Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrv. forseta Íslands, gagnaðist Grænlendingum meira en Norðurskautsráðið.

Þegar rætt var um nánari tengsl við Bandaríkin minntist Qujaukitsoq með vinsemd tímans milli 1941 til 1945 þegar Grænland féll undir vernd Bandaríkjanna á meðan Þjóðverjar hernámu Danmörku.

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …