Home / Fréttir / Grænlenska stjórnin vill enga olíu- eða gasleit

Grænlenska stjórnin vill enga olíu- eða gasleit

Grænlendingar ætla að stöðva alla olíuleit á landgrunni Grænlands og þess í stað bregðast við loftslagsbreytingum og alvarlegum afleiðingum þeirra „af alvöru“. Landstjórnin undir forystu flokksins Inuit Ataqatigiit (IA) tók ákvörðun um þetta 24. júní en skýrði frá henni fimmtudaginn 15. júlí 2021.

Til þessa hefur engin olía fundist við Grænland en minnkandi hafís hefur aukið líkur á að olía og gas fyndist á grænlensku landgrunni. Jarðfræðirannsóknir á vegum stofnunar Bandaríkjastjórnar (U.S. Geological Survey) benda til þess að finna megi 17,5 milljarða tunna af olíu og 148 þúsund milljarða af jarðgasi við Grænland.

Risaolíu- og gasvinnsla af þessu tagi hefði gífurleg áhrif á hag þeirra 57.000 manna sem búa á Grænlandi en í yfirlýsingu landstjórnarinnar segir: „Framtíðin ræðst ekki af olíu. Framtíðin ræðst af endurnýjanlegri orku og á því sviði er meiri ávinningur fyrir okkur.“

Þá lýsti ríkisstjórnin yfir vilja sínum til að axla ábyrgð með öðrum í því skyni að takast á við hnattræna loftslagsvandann.

Greenpeace, samtök umhverfisverndarsinnar, fögnuðu ákvörðun grænlensku stjórnarinnar föstudaginn 16. júlí og sögðu fréttina um hana „stórkostlega“.

 

Heimild: Euronews

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …