
Grænlenska þingið, Inatsisartut, samþykkti fjárlög ársins 2018 á fundi sínum mánudaginn 20. nóvember. Eitt ákvæði nýju laganna hefur vakið harðar pólitískar deilur, það er um að heimilt sé að verja hálfri milljón danskra króna, um átta milljónum íslenskra króna, til að standa straum af kostnaði við nefnd sem skipuð hefur verið til að semja stjórnarskrá fyrir sjálfstætt Grænland.
Fjármunina á að nýta til að greiða embættisbústað fyrir nefndarformanninn, Vivian Motzfeldt, í Nuuk, höfuðstað Grænlands, en heimili hennar er í Quaqortoq syðst á Grænlandi. Þá er einnig ráðgert að greiða nefndarmönnum laun fyrir störf þeirra.
Að ætlunin sé að stjórnarskrárnefndarmenn fái laun fyrir störf sín vekur miklar deilur og vísa gagnrýnendur til þess að ákveðið hafi verið á þinginu við skipan nefndarinnar að seta í henni yrði ólaunuð.
Skýrt var tekið fram við töku ákvörðunar um nefndina að nefndarmenn fengju ekki greitt sérstaklega fyrir störf í henni ættu þeir sæti á grænlenska þinginu. Þetta ætti einnig við um nefndarmenn sem ekki væru þingmenn. Í nefndinni sitja aðeins þingmenn.
Frá þessu er greint í grænlenska blaðinu Sermitsiaq.AG. Þar segir einnig að undarlegt sé ef grænlenska heimastjórnin, Naalakkersuisut, telji sig hafa heimild til að setja ákvæði um laun í erindisbréf nefndarinnar án þess að fá til þess umboð frá þinginu, Inatsisartut.
Eftir að fréttin birtist sprakk athugasemdakerfi Sermitsiaq.AG. Vivian Motzfeldt neitar að svara spurningum vegna málsins og vísar á Naalakkersuisut þar sem ákvarðanir um umgjörð og kjör stjórnarskrárnefndarinnar séu teknar.
Í athugasemdunum eru þingmennirnir sakaðir um að skara eld að eigin köku á kostnað skattgreiðenda, valdníðslu og annað í þeim dúr.