Home / Fréttir / Grænlensk stjórnarskrárnefnd hittir forseta Íslands

Grænlensk stjórnarskrárnefnd hittir forseta Íslands

 

Forseti Íslands með grænlensku stjórnarskrárnefndinni á Bessastöðum fimmtudaginn 3. ágúst 2017.
Forseti Íslands með grænlensku stjórnarskrárnefndinni á Bessastöðum fimmtudaginn 3. ágúst 2017.

Stjórnarskrárnefnd Grænlendinga er um þessar mundir í heimsókn á Íslandi segir í frétt grænlenska útvarpsins, KNR, mánudaginn 7. ágúst. Tilgangurinn er að fræðast um vinnu við stjórnarskrármál hér á landi. Frá Íslandi heldur nefndin miðvikudaginn 9. ágúst.

Grænlenska stjórnarskrárnefndin var skipuð í apríl 2017. Í henni sitja sjö nefndarmenn og eiga flokkar á þingi Grænlands þar fulltrúa í samræmi við þingstyrk sinn, leitað var eftir tilnefningum frá þingflokkunum. Vivian Motzfeldt úr Siumut-flokknum (jafnaðarmannaflokknum) er formaður.  Hún er menntaakólakennari og situr á grænlenska þinginu .

Litið var á skipun nefndarinnar sem mikilvægt skref á leið Grænlendinga til sjálfstæðis frá Dönum. Án stjórnarskrár yrði ekkert sjálfstætt ríki.

Umboð nefndarinnar lýtur að því að hún vinni starf sitt í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga á að leggja fram tillögu að stjórnarskrá sem taki mið af því að Grænland lúti eigin stjórn en innan ríkasambands við Danmörku. Þessi skrá yrði til fyllingar við hlið dönsku stjórnarskrárinnar. Í síðari áfanga er stefnt að gerð stjórnarskrár sem taki gildi þegar Grænlendingar ákveða að segja skilið við danska ríkjasambandið og mynda eigið, sjálfstætt ríki.

Í fréttatilkynningu vegna heimsóknarinnar til Íslands minnir Vivian Motzfeldt að Ísland hafi á sínum tíma verið hluti Danmerkur og þess vegna telji nefndin gagnlegt að kynna sér hvernig Íslendingar hafi staðið að sjálfstæðisbaráttu sinni og hver reynsla þeirra hafi verið.

Formaðurinn segir að heimsóknin til Íslands hafi skilað góðum árangri. Það hafi verið mjög gagnlegt að hitta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands. Ánægjulegt hafi verið að heyra að forsetinn fylgdist með þeim skrefum sem Grænlendingar hafi nú stigið. Augljóst sé að margt sé sameiginlegt með reynslu þjóðanna.

Í fréttatilkynningunni segir að forseti Íslands hafi minnt á nauðsyn þess að menntun og rannsóknir á Grænlandi yrðu liður í sjálfstæðisþróuninni eins og verið hefði á Íslandi. Auk þess hafi hann hvatt til samstarfs Grænlendinga og Íslendinga í atvinnumálum.

Þá segir Vivian Motzfeldt að forseti Íslands hafi ekki útilokað að islenskir sérfræðingar gætu veitt nefndinni aðstoð í störfum hennar og fagnar nefndarformaðurinn því.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …