Home / Fréttir / Grænlensk sendinefnd í Kína með ósamhljóða yfiirlýsinga um olíu- og gasvinnslu

Grænlensk sendinefnd í Kína með ósamhljóða yfiirlýsinga um olíu- og gasvinnslu

Grænlenska sendinefndin með kínverskum gestgjöfum sínum.
Grænlenska sendinefndin með kínverskum gestgjöfum sínum.

 

Kim Kielsen, formaður grænlensku heimastjórnarinnar, Naalakkersuisut, og þrír ráðherrar eru um þessar mundir í tveggja vikna ferð til Kína. Með þeim eru meðal annars fulltrúar Visit Greenland, Air Greenland og tveggja sjávarútvegsfyrirtækja Royal Greenland og Polar Seafood. Grænlenska útvarpsstöðin KRN segir að að sendinefndin hafi gefið ósamhljóða yfirlýsingar um olíu- og gasvinnslu í hafinu fyrir vestan Grænland.

Efnt var til Grænlandsdags í danska sendiráðinu í Peking þriðjudaginn 31. október. Reuters-fréttastofan ræddi í tengslum við kynninguna í sendiráðinu við Múte B. Egede, hrávöruráðherra Grænlands, sem sagði að Grænlendingar mundu bjóða út olíu- og gasvinnslusvæði á hafsbotni fyrir vestan Grænland á árinu 2018. Egede sagði að allir gætu gert tilboð og Naalakkersuisut mundi fara yfir þau og úthluta svæðum.

Í samtalinu við Reuters sagði Egede að talið væri að fyrir vestan Grænland mætti vinna allt að 17 milljörðum tunna af olíu.

Grænlenska útvarpið KNR segir föstudaginn 3. nóvember að fyrr þriðjudaginn 31. október hefði annar grænlenskur ráðherra, Hans Enoksen, atvinnu-, viðskipta- og orkumálaráðherra, hins vegar boðað aðra stefnu varðandi útboð á olíu- og gasleitarsvæðum.

Hans Enoksen sagði á blaðamannafundi að engin áform væru á Grænlandi um að bjóða út fleiri olíu- og gasvinnslusvæði, vilji Grænlendinga stæði til þess að nota sjálfbæra orku.

Í frétt Reuters segir að ekki hafi tekist að upplýsa hvers vegna ráðherrarnir tveir séu ósammála í yfirlýsingum sínum. Blaðafulltrúi danska sendiráðsins gat ekki skýrt málið. KNR segir að ekki hafi tekist fá skýringar á ósamhljóða orðum ráðherranna.

Fjölgun kínverskra ferðamanna

Í för með grænlensku ráðherrunum í Kína er Tanny Por sem er alþjóðafulltrúi verkefnisins Visit Greenland. Hún telur unnt að laða marga kínverska ferðamenn til Grænlands en þar sé nauðsynlegt að nálgast viðskiptavini á annan hátt en almennt annars staðar.

Hún segir að kínversk stjórnvöld hafi forræði á netsamskiptum í Kína og þau hafi reist mikinn eldvegg um landið í netheimum. Kínverjar hafi eigin samfélagsmiðla og aðrar heimasíður en nota megi gagnvart öðrum þjóðum. Á bakvið þennan nýja kínverska múr séu 1,4 milljarðar manna og vilji menn virkja þá sem ferðamenn verði að finna sérhannaðar leiðir til þess. Það sé til dæmis ekki unnt að nota Facebook í samskiptum við stóran hluta Kínverja.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …