
Grænlenska utanríkisráðuneytið tilnefndi mánudaginn 27. ágúst Jacob Isbosethsen, reyndan ráðgjafa um utanríkismál, til að verða fyrsta fulltrúa sinn á Íslandi.
Vivian Motzfeldt utanríkisráðherra sagði að Isbosethsen hefði verið valinn til embættisins vegna „traustrar og víðtækrar“ reynslu sinnar í utanríkismálum.
Grænlenska þingið samþykkti einróma í fyrra að opna sendiskrifstofu í Reykjavík. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 gerir Naalakkersuisut, grænlenska ríkisstjórnin, ráð fyrir að varið verði 3 milljónum danskra króna, (50 m. ísl. króna) til að standa undir kostnaði við skrifstofuna og svo verði áfram til loka árs 2021.
Hlutverk Isbosethsens verður, fyrir utan að koma skrifstofunni á legg, að stuðla að nánara viðskipta- og efnahagssamstarfi milli Grænlendinga og Íslendinga.
Íslenska utanríkisráðuneytið opnaði aðalræðismannsskrifstofu í Nuuk á Grænlandi árið 2013.
Grænlendingar halda nú þegar úti sendiskrifstofum í Kaupmannahöfn, Brussel og Washington.
Í frétt eftir Kevin McGwin á vefsíðunni Arctic Today um grænlensku skrifstofuna í Reykjavík segir að um tíma hafi litið þannig út að fyrst yrði opnuð grænlensk sendiskrifstofa í Peking en síðan á Íslandi. Forgangsröðin hafi breyst í fyrra þegar skipverji grænlensks togara var handtekinn sakaður um morð á íslenskri konu.
Þetta komi fram í greinargerð frá Vittus Qujaukitsoq, þáv. utanríkisráðherra, með tillögunni til grænlenska þingsins. Hann sagði þar að hvorki danska utanríkisráðuneytið né danska sendiráðið í Reykjavík gætu veitt grænlenskum borgurum nægilega aðstoð á Íslandi hvort heldur litið væri til túlkaþjónustu eða samskipta við fjölskyldur viðkomandi einstaklinga á Grænlandi. Þess vegna væri nauðsynlegt að eiga fulltrúa grænlenskra stjórnvalda í nágrannalöndunum.