Home / Fréttir / Grænlendingar marka sér stefnu í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum til 2033

Grænlendingar marka sér stefnu í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum til 2033

Vivian Motzfeldt, sjálfstæðis- og utanríkisráðherra, kynnir stefnuna 21. febrúar 2024.

Eftir margra ára bið kynnti grænlenska landstjórnin, Naalakkersuisut, loks stefnu sína í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum 2024 til 2033 miðvikudaginn 21. febrúar. Þar er lögð áhersla á að rödd Grænlendinga sjálfra heyrist betur en nú er þar sem rætt sé um norðurslóðir á alþjóðavettvangi.

Ekkert um okkur, án okkar er leiðarstef nýju grænlensku stefnunnar í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum fyrir árin 2024 – 2033. Stefnuskýrslan er 25 bls. og skiptist í 12 efniskafla.

Aukið samstarf við Norður-Ameríku og Ísland

Grænland eigi nánara samstarf við ríkisstjórnir og þjóðþing í Norður-Ameríku, þar á meðal Alaska-ríki í Bandaríkjunum.

Þá er lagt til að samstarf verði aukið við byggðir í norðurhluta Kanada, Yukon, Norðvestursvæðin, Nunavut og Nunavik.

Nánar tiltekið leggur naalakkersuisut til að stofnaður verði nýr pólitískur vettvangur undir heitinu Arctic North American Forum.

Naalakkersuisut telur að svigrúm sé fyrir vettvang þar sem framkvæmdavaldshafar og þingmenn í Alaska, á norðurskautssvæðum Kanada og á Grænlandi geti hist, borið saman bækur sínar og ákveðið samstarfsverkefni.

Mælt er með auknum samskiptum Íslendinga t. d. í ferðaþjónustu, samgöngum og við nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Auk þess segir að Grænlendingar eigi að auka viðskipti sín við löndin í norðvestri.  Með því megi draga úr losun koltvísýrings í vöruflutningum og tryggja stöðugra vöruframboð til Grænlands. Í þessu skyni verði að afnema ýmsar viðskiptahindranir.

Friðarmiðstöð og eigin almannavarnir

Því er slegið föstu að norðurskautið verði að vera lágspennusvæði – með öðrum orðum, friðsælt svæði.

„Við höfum aldrei átt í stríði hér á landi, og í hjarta okkar býr engin þrá eftir að fara í stríð,“ sagði Vivian Motzfeldt, ráðherra sjálfstæðis- og utanríkismála, á blaðamannafundinum þegar stefnan var kynnt.

Þetta er hefðbundð viðhorf grænlenskra stjórnmálamanna en naalakkersuisut telur að efla beri frið með friðarmiðstöð á Grænlandi.

Samvinna er forsenda friðar. Friður er forsenda sjálfbærrar þróunar. Því verður að efla stuðning okkar við rannsóknir á friði og koma á fót miðstöð í því skyni á Grænlandi, segir í stefnuskýrslunni.

Stjórnvöld Grænlands verða í framtíðinni að eiga náið samstarf við Dani og NATO. Hins vegar er nauðsynlegt að Grænlendingar eigi meiri aðild að ákvörðunum og miðlun þekkingar um norðurslóðir innan NATO.

Þá sé óhjákvæmilegt að huga betur að almannavörnum á Grænlandi, þróa borgaralegan viðbúnað og gera viðbragðsáætlanir. Í því efni skuli Grænlendingar sérstaklega líta til Íslands og Kanada. Minnt er á að stofnuð hafi verið þjálfunarmiðstöð í þágu norðurslóða í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði).

Lögð er áhersla á að naalakkersuisut vilji ekki meiri viðveru herafla á Grænlandi. Þar sé hins vegar nauðsynlegt að hafa hernaðarleg mannvirki svo framarlega sem þau séu fjarri mannabyggð.

Aukin þátttaka í SÞ og á fjölþjóðlegum vettvangi

Talið er að Grænlendingar verði að vera sýnilegri og hafa hærri rödd innan Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og sama gildi um ýmsar mikilvægustu fjölþjóðastofnanir heims.

Efla beri samstarf Grænlendinga við ESB í krafti fjölda samstarfssamninga sem eru fyrir hendi. Stefnt sé að því að á næstu árum opni ESB sendiskrifstofu í Nuuk.

Boðað er að Grænland verði einnig að auka samstarf við svæðisráð og samtök sem stjórna fiskveiðum eins og NEAFC, NAFO, NASCO.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …