Home / Fréttir / Grænland: Óvarleg orð kostuðu forræði utanríkismálanna

Grænland: Óvarleg orð kostuðu forræði utanríkismálanna

Fundur í Kaupmannahöfn í maí, frá vinstri: Jeppe Kofoed, utanríkisráðherra Dana, Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, og Pele Broberg.

Óvarleg orð sem Pele Broberg lét falla í viðtali við danska blaðið Berlingske fyrir rúmri viku urðu til þess að hann var sviptur forræði utanríkismála í grænlensku landstjórninni.

Broberg fer nú aðeins með atvinnu- og viðskiptamál í landstjórn Grænlands. Múte B. Egede, formaður landstjórnarinnar, hefur tekið forræði í utanríkis- og loftslagsmálum í sínar hendur.

Múte B. Egede skýrði frá þessari breytingu á landstjórninni mánudaginn 27. september á grænlenska þinginu, Inatsisartut.

Í landstjórninni sitja fulltrúar frá vinstrisinnuðum flokki Egedes, IA, og aðskilnaðarflokknum Naleraq en Pele Broberg kemur úr þeim flokki.

Stjórnin situr áfram en sem uppbót fyrir að þrengt er að Pele Broberg fær Naleraq nýjan landstjórnarmann. Paneeraq Olsen úr Naleraq tekur við málefnum barna, ungra og fjölskyldna af Eqaluk Høegh í IA.

Uppnámið vegna Peles Brobergs hófst með viðtali í Berlingske sunnudaginn 19. september. Þar viðraði Broberg þá hugmynd að aðeins inuitar ættu að greiða atkvæði um sjálfstæði Grænlands yrði ákvörðun um það einhvern tíma borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu á Grænlandi.

Strax sama dag tók Múte B. Egede af skarið um að þetta væri ekki stefna landstjórnarinnar. Mánudaginn 20. september tilynnti Atassut, stuðningsflokkur stjórnarinnar, að hann bæri ekki lengur traust til Peles Brobergs.

Undanfarna daga hefur Múte B. Egede meðal annars rætt við formann Naleraqs Hans Enoksen og Pele Broberg sjálfan auk formanns Atassuts, Aqqalu Jerimiassen, um skipan mála í landstjórninni til að hún gæti setið áfram. Niðurstaðan var síðan kynnt mánudaginn 27. september með hrókeringunum.

Formaður grænlensku landstjórnarinnar hefur áður haft forræði utanríkismála landsins.

Lokaábyrgð á utanríkismálum danska ríkjasambandsins hvílir á dönsku ríkisstjórninni í Kaupmannahöfn. Grænlendingar hafa hins vegar svigrúm til gæslu eigin hagsmuna innan ramma utanríkismálanna. Grænlenska stjórnin sendir til dæmis fulltrúa til funda í Norðurskautsráðinu og er hann þar við hlið fulltrúa Færeyja og Danmerkur.

Þá hafa forráðamenn utanríkismála í Færeyjum og á Grænlandi oft tekið þátt í fundum danska utanríkisráðherrans með utanríkisráðherrum annarra landa. Nú síðast í maí 2021 þegar Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Kaupmannahöfn og Kangerlussuaq.

Grænlenska landstjórnin heldur úti sendiskrifstofum í Kaupmannahöfn. Brussel, Reykjavík og Washington. Þá verður brátt opnuð slík skrifstofa í Peking.

 

Heimild: Altinget.dk

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …