
Grænlenska landstjórnin, Naalakkersuisut , hefur ákveðið að Grænland gerist aðili að Parsísarsamkomulaginu frá 2015 um loftslagsmál. Múte B. Egede, formaður landstjórnarinnar og utanríkisráðherra, tilkynnti þetta á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow mánudaginn 1. nóvember.
Á grænlenska þinginu, Inatsisartut, hafa stjórnarandstöðuflokkarnir, Siumut og Demokraatit, lýst efasemdum um að ákvörðun landstjórnarinnar. Talsmenn flokkanna hafa áhyggjur af neikvæðum efnahagslegum áhrifum aðildarinnar.
Í samtali við grænlenska útvarpið, KNR, telur Jens-Frederik Nielsen, formaður Demokraatit, aðildina geta þrengt efnahagsleg umsvif á Grænlandi og þar með tilraunir til að skapa þjóðinni efnahagslegt sjálfstæði. Hún reiði sig mjög á hrávöruvinnslu. Til dæmis muni Dundas Titanium þurfa mikla orku við vinnslu sína sem auki útblástur á gróðurhúsalofttegunda. Mörgum spurningum sé enn ósvarað varðandi kosti og galla aðildarinnar.
Jess Svane, fulltúi Siumut-flokksins, segir við KNR að flokkurinn hafi fyrst fengið að vita um ákvörðun landstjórnarinnar við að horfa á sjónvarpsfréttir. Innan Siumut gætir einnig ótta við að aðild að Parísarsamkomulaginu kunni að standa í vegi fyrir viðgangi grænlensks samfélags þar sem segja megi að iðnaðarþróun sé rétt að hefjast. Þetta sé samkomulag fyrir auðug lönd sem hafi efni á því en nú sé hætta á að aðrir „lokist inni“. Þá hefði landstjórnin átt að leita eftir breiðari samstöðu áður en hún steig þetta skref og skrifaði undir samkomulagið.
Stjórnarflokkurinn, Inuit Ataqatigiit, hafi hvað eftir annað sagt að efla ætti lýðræði á Grænlandi en Jess Svane telur þessa ákvörðun ekki til marks um að flokkurinn vilji það í raun.
Grænlenska þingið, Inatsisartut, verður að ræða og samþykkja aðild að Parísarsamkomulaginu áður en hún verður fullgilt.
Í fréttatilkynningu frá landstjórninni, Naalakkersuisut, segir að Grænlendingar hafi ekki skuldbundið sig til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda (CO2) um eitthvert ákveðið hlutfall.
KNR minnir hins vegar á að aðild að Parísarsamkomulaginu feli í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar um að viðkomandi þjóð leggi fram og virði ákveðin loftslagsmarkmið.
Með vísan til þessa hafi landstjórnin, Naalakkersuisut, ákveðið að banna frekari olíuleit og rannsóknir á Grænlandi og við landið. Þess í stað verði lögð áhersla á endurnýjanlega orkugjafa.