
Rebecca Pincus, aðstoðar prófessor við Naval War College í Newport, Rhode Island-ríki í Bandaríkjunum, segir að vegna áhrifa loftslagsbreytinga á norðurhöf verði herafli Bandaríkjanna og NATO að breyta áherslum sínum og varnarstefnu.
Hún nefnir sérstaklega nauðsyn þess að Bandaríkjaher styrki viðveru sína og sambönd vegna GIUK-hliðsins, það er varnarlínunnar sem dregin er frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Þetta kemur fram í grein sem birtist nýlega á vefsíðu breska tímaritsins RUSI Journal.
Melody Schreiber segir frá efni greinarinnar á vefsíðunni Arctic Today fimmtudaginn 4. júní og er stuðst við þá frásögn hér.
Pincus segir að ekki eigi lengur að líta á norðurslóðir sem stað undir herstöðvar vegna aðgerða annars staðar í heiminum heldur svæði sem hafi nýtt gildi, strategískt og hernaðarlega.
Í samtali við Arctic Today minnir Pincus á að það sé meðal verkefna bandaríska flotans að gæta viðskiptahagsmuna: „Ein af ástæðunum fyrir því að við höldum úti flota á öllum heimshöfum er að við verðum að tryggja frjálsa flutninga um heim allan.“ Hún segir að mikilvægi Norður-Íshafsins ráðist „einkum af efnahagslegum hagsmunum“.
Þegar ísinn hopar og nýjar siglingaleiðir opnist á sumum árstíma kunni pólsiglingar að vekja meiri áhuga en núna hjá alþjóðlegum skipafélögum. Þar að auki megi finna nýtanlegar náttúruauðlindir í norðurhöfum þegar fram líði stundir.
„Við verðum að huga að flotastefnu í GIUK-hliðinu og almennt á norðurslóðum,“ segir Pincus. „Við eigum ekki alfarið að hverfa frá núverandi hugsun okkar, ekki auka umtalsvert viðveru bandaríska flotans á norðurslóðum. Heldur byrja á að hugsa öðru vísu um málið.“
Áður höfðu bandarískir herforinghar lengdarbauga í huga, segir Pincus, þegar þeir litu til Grænlands og Íslands sem áfangastaða á leið til átakasvæða í Evrópu og lengra í burtu. Nú verði þeir að líta þangað með breiddarbauga að leiðarljósi þar sem hafsvæðin við Grænland og Ísland skipti sífellt meira máli fyrir Bandaríkjamenn og í alþjóðlegu tilliti.
Æfingar á borð við Trident Juncture (2018) séu til þess fallnar að kynna hermönnum aðstæður í kaldri veðráttu. Það þarf einnig nýjar aðferðir til að fylgjast með flutningum í norðri, segir Pincus og bætir við:
„Þetta er hugarfarsbreyting. Aðferð okkar við að hugsa um þetta svæði landfræðilega dugar ekki lengur vegna þess að svæðið sjálft tekur breytingum.“
Rannsóknir sýni afdráttarlaust umhverfisbreytingar á norðurslóðum og þær haldi áfram. Hafísinn minnki hratt og ólíklegt sé að hann stækki að nýju. Þessi þróun gefi Bandaríkjamönnum og NATO-bandamönnum þeirra tilefni og tíma til að velta fyrir sér hvaða áhrif þróunin hafi á stefnu þeirra og viðbúnað.
Ef til vill líði 10 til 12 ár þangað til meiri skipaflutningar verði um Norður-Íshaf og þess vegna telur hún einmitt núna rétta tímann til að undirbúa stefnubreytingu,
Pincus segir að stefnan eigi meðal annars að hafa að markmiði að treysta varanleg og stöðug samskipti við Grænlendinga og Íslendinga. Brottför Bandaríkjahers frá Keflavíkurstöðinni væri til dæmis víti til að varast, nú reyndist aðstaða á Íslandi nauðsynleg að nýju. „Þessi brottför sem gekk þvert á óskir Íslendinga skapaði margvísleg vandræði sem hefðu reynst óþörf með meiri framsýni okkar,“ segir hún.
Á vefsíðunni Arctic Today er einnig rætt við Brian Sittlow kaftein sem er tímabundið við rannsóknarstörf hjá bandarísku hugveitunni Council on Foreign Relations. Hann er sammála því að vilji Bandaríkjamenn láta að sér kveða á norðurslóðum sé lykilatriði fyrir þá að efla tengslin við bandamenn sína í Bretlandi, Noregi, Danmörku, á Grænlandi og Íslandi.
Sittlow sagði nýlega í grein að loftslagsbreytingar, hnattvæðingin og vaxandi stórveldakeppni breytti norðurslóðum hratt í „geópólitískan tengireit“. Hann segist heilshugar styðja tillögur um að auka flotaviðveru Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi. Spurningin snúst þó að lokum um hve unnt sé að dreifa flotanum mikið. „Hvort er mikilvægara Suður-Kínahaf eða Norður-Atlantshaf? Er Norðurleiðin mikilvægari en Rauðahaf?“
Innan flotans verða menn að taka ákvarðanir um hvar eigi að fylgjast með skipaferðum og norðurslóðir eru oft neðarlega á þeim lista.
Sittlow segir að innan flotans geri menn sér grein fyrir breytingunum á norðurslóðum og vaxandi gildi svæðisins í geópólitísku tilliti. Vandinn sé að velja verkefni og heimshluta á þann veg að flotinn komi hvarvetna við sögu. Það sé ekki endilega nauðsynlegt að halda úti flotastöðvum heldur geti dugað að senda skip reglulega til ákveðinna svæða til að sýna áhuga og afl. Líta megi til Trident Juncture-æfingarinnr í því sambandi, allar æfingar ættu þó ekki að vera eins viðamiklar og dýrar og hún. Þess í stað mætti rifa seglin og hafa skip lengur á hverjum stað til að sýna að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að láta að sér kveða á norðurslóðum í nánu samstarfi við bandamenn sína.
„Hér er ekki aðeins um reikningsdæmi vegna stríðstíma að ræða heldur vegna hvaða tíma sem er,“ segir Pincus. „Sé í raun um mjög efnahagslega mikilvægt svæði að ræða er það mikilvægt bæði á tímum stríðs og friðar.“