Bandaríska varnarmálaráðuneytið býr sig undir að senda sérfræðinga til Grænlands í sumar til að kanna kosti þess að setja upp NATO-ratsjár þar meðal annars til að fylgjast með ferðum rússneskra og kínverskra skipa, segir í grein sem Andreas Krogh skrifar á dönsku vefsíðuna altinget.dk miðvikudaginn 27. apríl.
Vitnar hann þar til fundar sem efnt var til í fyrri viku með dönskum og norskum fjölmiðlamönnum í bandaríska varnarmálaráðuneytinu í Washington.
„Við höfum í huga að ratsjár sem miðli upplýsingum inn í eftirlitskerfi NATO á höfunum. Þetta ber að skoða í samhengi við að við teljum að umsvif Rússa aukist og þar með þörfin fyrir að vita hvað þeir hafa fyrir stafni. Við erum einnig með í huga að fylgjast með Kínverjum þegar þeir byrja að sigla á reglubundnari hátt yfir norðurpólinn eftir því sem ísinn hopar,“ sagði upplýsingafulltrúi ráðuneytisins við blaðamennina.
Andreas Krogh minnir á að árið 2018 hafi bandaríska varnarmálaráðuneytið lýst áhuga á að kanna kosti þess að fjármagna endurbætur á flugvöllum í Grænlandi og lagningu nýrra flugvalla.
Nú hefur verið horfið frá þeim áformum. Ekki vegna þess að Bandaríkjamenn hafi ekki lengur þörf fyrir flugvelli á norðurslóðum heldur einkum vegna þess að grænlensk stjórnvöld vildu ekki að flugvallarframkvæmdir yrðu í samvinnu við bandaríska varnarmálaráðuneytið.
Sagði upplýsingafulltrúinn að þess í stað væru nú aðrir kostir til skoðunar. Þeir ættu að nýtast Bandaríkjunum, NATO, Grænlandi og Danmörku.
Áhersla sé nú lögð á að auka eftirlit á höfunum. Það ætti að auðvelda Grænlendingum, verði þeir sjálfstæðir, að vita hvað gerist við strendur lands þeirra. Innan danska konungsríkisins yrði með því einnig auðveldara en ella að fylgjast með ferðum og athöfnum skipa á bestu grænlensku fiskimiðunum. Þá yrði einnig betur unnt að fylgjast með ferðum skemmtiferðaskipa við landið.