
Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Síðustu daga hefur nokkuð verið rætt um að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi lýst yfir því að réttast væri að Bandaríkin keyptu Grænland af Dönum. Fáir virðast velta því fyrir sér að Trump er ólíkindatól sem hleypur úr einu í annað og því er spurning hversu mikið fréttagildi er í þessum vangaveltum. Undirritaður hefur t.d. ekki orðið var við að Trump hafi minnst á hugmyndina á Twitterreikningi sínum sem hann notar iðulega til að koma áætlunum sínum á framfæri.
Það er reyndar svo að umræða um það sem Donald Trump tekur sér fyrir hendur hefur yfirgnæft alla umræðu um stjórnmál í Bandaríkjunum afar lengi. Því þarf ekki að koma á óvart að fjölmiðlar hafa gert mikið úr hugmynd Trumps. Sitt sýnist hverjum um hugmyndina en þó virðast fáir taka hana mjög alvarlega. Þannig sagði fyrrverandi forsætisráðherra Dana, Lars Løkke Rasmunssen, að þetta væri líklega síðbúið aprílgabb.
Breska vikuritið The Economist hefur nú lagt sitt til málanna með grein sem birtist á vef blaðsins föstudaginn 16. ágúst. Greinin hefst á léttu nótunum og nefnir höfundur að við fyrstu sýn virðist Grænland vera prýðileg fasteignakaup. Grænland er stærsta eyja heims og landið er auðugt af verðmætum jarðefnum sem hagnast má á í framtíðinni. Lega landsins er líka heppileg vilji menn fylgjast með eldflaugaskotum Rússa. Nafn eyjunnar er reyndar nokkuð blekkjandi (líkt og við Íslendingar vitum allt um, innskot höfundar). Þannig er nefnilega að hún er ekkert sérstaklega gróskumikil en 81% af yfirborði eyjunnar er hulið ís sem er allt að þriggja kílómetra þykkur. En ef spár um loftlagsbreytingar ganga eftir þarf ekki að hafa áhyggjur af honum mikið lengur. Þá gæfist tækifæri til þess að koma nokkrum golfvöllum fyrir á Grænlandi og er þá líklega verið að vísa í mikinn áhuga Bandaríkjaforseta á íþróttinni.
Að loknum þessum inngangi skiptir greinarhöfundur um gír og fer að ræða hugmyndina um kaup á Grænlandi af meiri alvöru. Bandaríkin hafa áður keypt viðfem landsvæði. Minnst er á Alaska sem þeir keyptu af Rússum árið 1867. Ekki hefði verið úr vegi að nefna líka kaup þeirra á svokölluðu Louisianasvæði, sem nefnt var í höfuðið á Loðvíki XIV, af Napóleon árið 1803. Svæðið náði yfir það sem í dag telst til miðríkja Bandaríkjanna og því tvöfölduðu stjórnvöld í Washington stærð ríkisins, sem þá náði aðeins yfir austurhluta núverandi Bandaríkja, með kaupunum.
Í grein The Economist kemur fram að Bandaríkjamenn hafi áður sýnt Grænlandi áhuga. Hann á rætur sínar að rekja til forsetatíðar Andrews Johnsons (1865-1869) sem lét skrifa skýrslu um málið. Ekkert varð úr kaupunum þá en Harry Truman Bandaríkjaforseti (1945-1953) gerði annað kauptilboð árið 1946.
Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi er ekki óeðlilegur þegar haft er í huga að eyjan er mikilvæg fyrir öryggi landsins. Grænland er vestasti hlekkurinn í svokölluðu GIUK-hliði (e. Greenland, Iceland, United Kingdom Gap) hafsvæðinu sem liggur á milli landanna þriggja. Á hættutímum væri mikilvægt fyrir Bandaríkin, og önnur NATO ríki, að tryggja yfirráð yfir svæðinu því rússneski flotinn þarf að sigla um það vilji hann komast út á Norður – Atlantshafið þar sem hann getur ógnað skipalestum Atlantshafsbandalagsríkjanna.
Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi tengist líka áhyggjum þeirra af fyrirætlunum Kínverja á norðurheimskautssvæðinu. Þeir hafa á undanförnum árum fjárfest mikið á Grænlandi og vöktu áætlanir þeirra um að kaupa gamla bandaríska herstöð í landinu og byggja þrjá flugvelli ugg í Washington.
Þó áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi sé reistur á eðlilegum öryggissjónarmiðum veltir The Economist fyrir sér hvort nauðsynlegt sé fyrir þá að kaupa landið til að tryggja þessa hagsmuni. Í síðari heimsstyrjöld gerðu dönsk stjórnvöld (þ.e. danski sendiherrann í Washington þar sem Danmörk var hernumin, innskot höfundar) samning við Bandaríkin um að þau myndu verja Grænland gegn Þjóðverjum og Thule herstöðin hefur verið rekin af Bandaríkjamönnum þar frá árinu 1952. Þegar fréttist síðan af áhuga Kínverja á herstöðinni og flugvallargerð komu Danir, sem einnig fylgjast með fyrirætlunum Kínverja á Grænlandi, í veg fyrir þau áform með stuðningi Bandaríkjamanna. Öryggi Grænlands virðist því fremur vel tryggt eins og staðan er núna.
Lokaorð greinarinnar eru þau að allar vangaveltur um stöðu Grænlands séu þegar allt kemur til alls tilgangslausar því landið er einfaldlega ekki til sölu. Grænland hefur verið hluti af Danaveldi frá árinu 1814 og nýtur nú töluverðrar sjálfsstjórnar. Draumur eyjaskeggja er að öðlast sjálfstæði í framtíðinni en ekki að verða 51. ríki Bandaríkjanna.