Home / Fréttir / Grænland: Ekki spurning hvort heldur hvernig Bandaríkjaher styrkir stöðu sína

Grænland: Ekki spurning hvort heldur hvernig Bandaríkjaher styrkir stöðu sína

title-mangler
Aaja Chemnitz Larsen, situr á danska þinginu í Kaupmannahöfn fyrir flokkinn Inuit Ataqatigiit, IA.

Umræðurnar um stöðu Grænlands innan danska konungsríkisins eru meiri en áður vegna breytinga á öryggismálum á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Í Jyllands-Posten sunnudaginn 1. nóvember rifjar Jette Elbæk Maressa blaðamaður upp að Bandaríkjamenn hafi bæði verið sýnilegir og ósýnilegir gerendur innan konungsríkisins síðan í síðari heimsstyrjöldinni.

Frægt er að í fyrra sumar var haft eftir Donald Trump Bandaríkjaforseta að hann vildi að Bandaríkjamenn keyptu Grænland. Í blaðinu segir að þetta hafi ekki verið algjörlega úr lausu lofti gripið hjá forsetanum. Um forsöguna megi til dæmis fræðast í bókinni Skilleveje eftir Carsten Staur sendiherra sem kom út í ár og fjallar 250 ára sögu danskra utanríkismála. Þar segi að Bandaríkjamenn hafi að minnsta kosti tvisvar lýst svipuðum áhuga á Grænlandi. Annars vegar þegar Friðrik konungur 9. hitti Dwight D. Eisenhower forseta án þess að konungur áttaði til fulls á því sem fólst í orðum forsetans. Hins vegar árið 1960 þegar inntak boðskaparins var skýrt: Það eru Bandaríkjamenn en ekki Danir sem fara með hervald á Grænlandi.

Aaja Chemnitz Larsen, situr á danska þinginu í Kaupmannahöfn fyrir flokkinn Inuit Ataqatigiit, IA. Hún sat áður á landsþingi Grænlands og var formaður utanríkismálanefndar þess.

Í Jyllands-Posten segir hún að undanfarin fimm ár hafi áhugi á Grænlandi aukist jafnt og þétt. Fulltrúar bandaríska sendiráðsins hafi reglulega samband við hana og nú hefur ræðisskrifstofa Bandaríkjanna verið opnuð í Nuuk, höfuðborg Grænlands. Þar ræði menn ekki lengur hvernig Bandaríkjamenn muni auka hernaðarlega viðveru sína á Grænlandi heldur hvar.

Aaja Chemnitz Larsen hefur velt fyrir sér hvort hugsanlega verði ráðist í að gera úthafshöfn í suðurhluta Grænlands.

„Þaðan mætti fylgjast með GIUK-hliðinu,“ segir hún og vísar til hafsvæðanna frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Þar hefur verið haldið úti eftirliti með ferðum rússneskra kafbáta.

Í blaðinu er minnt á að Rússar hafi stóreflt herafla sinn á norðurslóðum, þeir ráði yfir flugskeytum sem beita megi gegn Thule-herstöðinni, þá sýni Kínverjar norðurslóðum áhuga. Oft sé sagt að í þessu stórpólitíska spili sé „Grænland sterkasta tromp Dana í Washington“. Þetta megi orða á annan veg: Væri Grænland ekki hluti konungsríkisins er alls ekki víst að smáþjóð á borð við Dani nyti svo mikillar athygli Bandaríkjamanna.

„Okkur hefur alla tíð verið þetta ljóst,“ segir Aaja Chemnitz Larsen og bendir á hinn kostinn: Hvernig væri staðan ef Grænlendingar stæðu einir?

„Þá myndu aðrir fara inn í þetta valdatómarúm,“ svarar hún og rökstyður á þann veg að aðild að konungsríkinu stuðli einnig að vernd Grænlands.

Hún segist hafa velt fyrir sér hvernig Grænlendingar hefðu tekið því ef Barack Obama en ekki Donald Trump hefði lýst áhuga á eignast Grænland.

„Ég tel að þá hefðu allar hliðar málsins verið skoðaðar,“ segir hún en bætir við að sjálf sé hún svo fylgjandi norræna velferðarkerfinu að hún sjái Grænland ekki fyrir sér sem hluta af Bandaríkjunum þar sem hver sé sinnar gæfu smiður.

Þetta þýði þó ekki að Bandaríkjamenn eigi að halda sig fjarri Grænlandi. Þvert á móti. Grænlendingar svöruðu Trump á þann veg að Grænland væri ekki til sölu en Grænlendingar væru fúsir til að eiga viðskipti.

Norðurslóðir hafa komist á ratsjá Bandaríkjamanna í tíð Donalds Trumps. Mike Pompeo utanríkisráðherra tók af skarið um það í fyrra að norðurslóðir snerust um fleira en loftslagsbreytingar, samstarf og lágspennu: Þar þurfi að sinna hagsmunagæslu.

Aaja Chemnitz Larsen á ekki von á því að úrslit kosninganna í Bandaríkjunum leiði til nokkurra augljósra breytingu á afstöðu Bandaríkjamanna til Grænlands.

„Trump sækir fastar fram en Biden verður diplómatískari,“ segir hún.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …