Home / Fréttir / Grænland: Danir enduropna herstöð til að halda Kínverjum í burtu

Grænland: Danir enduropna herstöð til að halda Kínverjum í burtu

Loftmynd af herstöðinni í Grønnedal á Grænlandi.
Loftmynd af herstöðinni í Grønnedal á Grænlandi.

Í fréttaskýringu sem Martin Breum skrifar á vefsíðuna The Arctic Journal og birtist föstudaginn 23. desember segir að svo virðist sem Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, hafi haft bein afskipti til að koma í veg fyrir að kínverskt fyrirtæki gæti keypt yfirgefna herstöð Dana í Grønnedal á Grænlandi. Danski flotinn hafði boðið stöðina til sölu.

Breum segir að leyniþjónusta danska hersins hafi lengi haft áhyggjur af að Kínverjar reyndu að ná fótfestu á Grænlandi. Þetta kunni þó að vera í fyrsta skipti sem danska ríkisstjórnin hafi beinlínis komið í veg fyrir að Kínverjar keyptu þar land.

Hér verður vitnað beint í greinina eftir Martin Breum:

„Málinu hefur væntanlega verið haldið leyndu til þessa, líklegast til að komast hjá vandræðum í samskiptum við stjórnvöld í Peking og Nuuk. Grænlenska landstjórnin hefur árum saman unnið að því að laða kínverska fjárfesta til landsins og ráðherrar hafa hvað eftir annað farið þangað í opinberar heimsóknir. Ólíklegt er að þetta verkefni verði þeim auðveldara sé unnt að fá það endanlega staðfest að Rasmussen hafi tekið af skarið til að koma í veg fyrir að stöðin í Grønnedal yrði seld til kínversks fyrirtækis. Þá stendur ráðamönnum í Nuuk ekki á sama um að danska varnarmálaráðuneytið lét hjá líða að upplýsa naalakkersusisut, landstjórnina, um málið.

Í Sermitsiaq, grænlenska fjölmiðlinum sem er í eign sama fyrirtækis og þessi vefsíða [The Arctic Journal] segir að Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, hafi sagt á blaðamannafundi föstudaginn 16. desember að „danska ríkisstjórnin hefði átt að upplýsa naalakkersuisut áður en danskir fjölmiðlar sögðu frá því að danski flotinn ætlaði að nota Grønnedal að nýju“.“

Í grein sinni segir Breum að fréttin um að Rasmussen hefði ef til vill blandað sér í málið hafi birst miðvikudaginn 21. desember á vefsíðunni defencewatch.dk, danskri fréttavefsíðu. Þar hafi verið vitnað í fimm ónafngreinda heimildarmenn sem staðfestu að forsætisráðherrann hefði vorið 2016 haft samband við forystumenn dönsku stjórnmálaflokkanna sem stóðu að samkomulagi um útgjaldaramma fyrir danska herinn.

Á defencewatch.dk segir að forsætisráðherrann hafi leitað eftir stuðningi við að opna Grønnedal að nýju og hætta við sölu á flotastöðinni vegna þess að General Nice Group, fyrirtæki í Hong Kong, hefði bæst í hóp fáeinna aðila sem hefðu lýst áhuga á að kaupa hana. Með því að vísa til varnarhagsmuna væri auðvelt fyrir dönsk stjórnvöld að koma í veg fyrir að General Nice Group keypti stöðina. Sagt er að aðrir flokksleiðtogar hafi samþykkt tillögu Rasmussens.

Þá segir danski blaðamaðurinn Martin Breum:

„Í júní 2016 birti varnarmálaráðuneytið ítarlega skýrslu þar sem farið var í saumana á nauðsynlegum hernaðarlegum viðbúnaði vegna Færeyja og Grænlands á næstu árum. Í skýrslunni sem var meira en þrjú ár í smíðum var ekki minnst einu orði á nauðsyn þess að opna stöðina í Grønnedal að nýju. Henni var lokað árið 2014 og starfsemin flutt í nýja Norðurskautsherstjórn í Nuuk.

Fólk sem býr í nágrenni Grønnedal-stöðvarinnar hefur síðan hirt þar byggingarefni. Menn innan hersins segja að mannvirkin hafi verið úr sér gengin. Í rúm tvö ár hefur verið unnið að undirbúningi þess að rífa stöðina. Peter Christensen sem var varnarmálaráðherra 28. janúar sl. sagði þá í danska þinginu: „Varnarmálaráðuneytið þarf hvorki né ætlar að halda áfram starfsemi i Grønnedal, hvort sem er að hluta eða í heild.“

Íhlutun Rasmussens virðist hafa breytt öllu þessu. Þegar danskir þingmenn samþykktu fyrr í þessum mánuði aukafjárveitingu til umsvifa hersins á norðurslóðum lá fyrir opinbert samkomulag um að nauðsynlegt væri að „hefja að nýju fasta viðveru hersins í Grønnedal með því að reka þar strategíska birgðastöð sem nota má að hluta til að geyma eldsneyti, mengunarvarnabúnað o. fl. og einnig til þjálfunar og fræðslu“.

Þetta orðalag svipar til þess sem birtist í tilkynningu sem embættismenn landstjórnarinnar fengu í tölvubréfi dags. 30. júní sem síðan var birt í grænlenskum fjölmiðlum í fyrri viku. Varnarmálaráðráðuneytið tilkynnti þar yfirvöldum í Nuuk um áhuga General Nice Group á Grønnedal. Áhugi fyrirtækisins var þó ekki gefin sem ástæða fyrir breyttum áformum hersins. Þetta var ekki heldur nefnt sem ástæða þegar háttsettir embættismenn landstjórnarinnar hittu Thomas Ahrenkiel, háttsettan embættismann varnarmálaráðuneytisins, fyrir innan við tveimur vikum, segir í Sermitsiaq.

Grænlenskir embættismenn hafa áður fagnað áhuga General Nice Group á að láta að sér kveða á Grænlandi. Í lok árs 2014 fékk fyrirtækið rétt til vinnslu á járngrýti í Isua fyrir norðan Nuuk. London Mining, breskt fyrirtæki, hafði áætlað að hefja þar mestu námuvinnslu í sögu Grænlands. Ætlað var að um tvö þúsund námumverkamenn, meðal annars frá Kína, ættu að vinna þar járngrýti fyrir kínverskt stáliðjuver. London Mining varð hins vegar gjaldþrota og heimildin til járnvinnslunnar var framseld til General Nice Group. Fyrirtækið hefur sagt að það hafi ekki nein áform um að ráðast í námuvinnslu á Isua í bili vegna lágs verðs á járni um þessar mundir.

Vegna afskipta danskra stjórnvalda hefur nú verið hindrað að General Nice Group geti notað Grønnedal til að auka viðveru sína á Grænlandi. Ákvörðun dönsku yfirvaldanna má ef til vill rekja beint til viðvarana dönsku leyniþjónustunnar. Þar hafa menn áhyggjur af því að kínversk fyrirtæki kunni að fá svo mikil fjárhagsleg ítök á Grænlandi að þau geti hlutast til um ákvarðanir landstjórnarinnar sem er minni og ræður yfir minna fjármagni en mörg fyrirtæki.

Í Nuuk segja menn að allar slíkar vangaveltur séu marklausar. Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, flutti ræðu á ráðstefnu fyrir fjárfesta í námuvinnslu í Danmörku í nóvember. Þar fullvissaði hann kínverska fjárfesta um að þeir væru eins velkomnir á Grænlandi og aðrir fjárfestar. Qujaukitsoq fer oft til Kína og sækir meðal annars ár hvert mikla sýningu námufyrirtækja. Fyrr á þessu ári heimsótti hann Shenghe Resources sem á 12,5% í vinnslu á úraníum og sjaldgæfum jarðefnum í Kvanefjeld á Suður-Grænlandi. Danskir stjórnarerindirekar hafa hvað eftir annað veitt grænlensku landstjórninni aðstoð við að ná samböndum í Kína.

Danskar leyniþjónustustofnanir fylgjast náið með kínverskum fjárfestingum á Grænlandi. Það er þess vegna ekki ólíklegt að Rasmussen hafi farið að ráðum þeirra. Forsætisráðherrann skipti sér almennt ekki að örlögum lítillar, aflagðrar herstöðvar á Grænlandi nema að fyrir liggi nýjar, mikilvægar upplýsingar. Þá má einnig hafa í huga að Ahrenkiel í varnarmálaráðuneytinu er fyrrverandi forstjóri leyniþjónustu hersins sem stundar njósnir erlendis fyrir utan að hafa áður starfað í danska forsætisráðuneytinu.“

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …