Danska ríkisstjórnin hefur samþykkt tilmæli Bandaríkjastjórnar um að fá að halda úti ræðisskrifstofu í Nuuk, höfuðborg Grænlands. Tilmælunum var fyrst hreyft af bandaríska utanríkisráðuneytinu í maí 2019, skömmu eftir að bandaríski utanríkisráðherrann, Mike Pompeo, flutti harða gagnrýnisræðu á Rússa og Kínverja í tengslum við ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi.

Bandaríkjastjórn átti útsendan ræðismann í Nuuk frá 1940 eftir að þýskir nazistar hernámu Danmörku. Ræðisskrifstofunni var lokað árið 1953.
Í nóvember 2019 var sagt frá því í fréttum að bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn hefði tekið til við að ráða heimamenn á Grænlandi til starfa í sjö manna ræðisskrifstofu sinni í Nuuk. Auglýst var eftir sérfræðingi í Grænlandsmálefnum sem talaði grænlensku (Kalaallisut), dönsku og ensku. Hlutverk hans yrði að safna upplýsingum vegna ákvarðana stjórnvalda í Washington.
Þrettán ríki hafa ólaunaða ræðismenn á Grænlandi en aðeins íslensk stjórnvöld halda þar úti launuðum ræðismanni í eigin ræðisskrifstofu.
Skömmu eftir ræðu Pompeos í Rovaniemi tilkynnti Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn, að Sung Choi, fyrsti ritari í sendiráði hennar, mundi verja hluta af tíma sínum í Nuuk.
Óvíst er hvort Sung Choi verður tilnefndur ræðismaður Bandaríkjanna í Nuuk nú þegar samþykki stjórnar Danmerkur hefur verið birt. Þar verða tveir bandarískir diplómatar auk fimm staðarráðinna starfsmanna, alls sjö manns.
Hafna Huawei
Grænlenska símafyrirtækið hefur ákveðið að nýta sér ekki 5G-tækni frá kínverska fyrirtækinu Huawei heldur eiga viðskiptin við Ericsson. Frá þessu var skýrt fimmtudaginn 19. desember.
Bandaríkjastjórn hefur lagt hart að ríkjum að hafna Huawei af öryggisástæðum. Norska fyrirtækið Telenor ákvað á dögunum. Danski sendiherrann í Kaupmannahöfn hefur beitt sér gegn Huawei í Færeyjum.