Home / Fréttir / GPS merki detta út í lofti og á sjó á Norðurlöndum

GPS merki detta út í lofti og á sjó á Norðurlöndum

Sjúkraflugmenn og flugmenn hjá norska flugfélaginu Widerøe áttu í erfiðleikum við flug í Finnmörk, nyrsta héraði Noregs, í nóvember og desember vegna þess að GPS merkin sem þeir styðjast við hurfu.

Hjá Widerøe var sagt að í nóvember hefðu GPS merki dottið út 17 sinnum. Vandræðin jukust í desember en fram til 20 desember höfðu GPS merkin dottið út 27 sinnum.

Þótt ekki sé staðfest að Rússar eigi þarna hlut að máli og trufli GPS merkjasendingar er bent á að þeir hafi gripið til truflana eftir að tekið var til við að ráðast á skotmörk langt innan rússnesku landamæranna með drónum.

Laugardaginn 7. janúar birti danska blaðið Politiken frétt um að 3. október 2022 hefðu að minnsta kosti sex skip á svæði á Stórabelti sem var 50 km breitt og 30 km langt misst aðgang að GPS merkjum. Eitt skipanna var ferja en stjórnendur þeirra urðu að treysta á önnur úrræði til að átta sig að staðsetningu eigin skips og siglingaleið annarra. Var þetta stærsta árás á GPS kerfið í Danmörku.

Blaðamenn Politiken fengu þessar upplýsingar úr gögnum frá Søfartsstyrelsen, dönsku siglingamálastjórninni. Annars er farið með gögnin sem trúnaðarmál með vísan til öryggis ríkisins. Af hálfu danska hersins er þó staðfest að tvo rússnesk skip hafi verið á svæðinu þegar slokknaði á GPS merkjunum.

Í frétt Politiken segir að árásum á GPS kerfið hafi fjölgað eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022. Segir blaðið að í fyrra hafi borist 27 tilkynningar um að GPS kerfið dytti út frá dönskum, finnskum og sænskum skipum.

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …