Home / Fréttir / Glíman við launmorðingja Rússa hættulegri nú en 1978

Glíman við launmorðingja Rússa hættulegri nú en 1978

GRU-mennirnir hikuðu ekki við að standa fyrir framan eftirlitsmyndavélar á brautarstöðinni í Salisbury.
GRU-mennirnir hikuðu ekki við að standa fyrir framan eftirlitsmyndavélar á brautarstöðinni í Salisbury.

Leyniþjónusta Búlgaríu sendi ítalskan launmorðingja sem hlaut dulnefnið Piccadilly til London í september 1978 og 7. september fann hann útlægan andófsmann, Georgi Markov, á biðstöð strætisvagna skammt frá Waterloo brú, stakk hann í hægri mjöðm með tóli sem spýtti lítilli kúlu með eitrinu ricin í holdið.

Við 37°hita bráðnaði efnið sem hélt eitrinu í kúlunni og Markov dó sárkvalinn fjórum dögum síðar. Tíu dögum áður slapp annar búlgarskur útlagi undan svipaðri árás í París.

Michael Burleigh, sagnfræðingur í Bretlandi, rifjar þetta upp í The Telegraph sunnudaginn 9. september 2018 vegna eiturefnaárásar Rússa á Skripal-feðginin í Salisbury 4. mars 2018.

Markov var kunnur rithöfundur í Búlgaríu og vinur einræðisherrans Todors Zhikovs og einkadóttur hans. Glæpur hans fólst í að segja frá of miklu um einkalíf Zhikovs.

Búlgarska leyniþjónustan var of frumstæð til að ráða ein við slíka árás og studdist þess vegna við tæknilega kunnáttu sovéskra starfsbræðra sinna í KGB. Þegar vakið var máls á þessum tengslum brugðust KGB-menn við stórhneykslaðir. Að snillingar á borð við þá mundu leggjast svo lágt að aðstoða aðra við launmorð…

Breski sagnfræðingurinn segir forvitnilegt að bera þessi viðbrögð saman við háðið sem Vladimír Pútin og starfsmenn hans grípi til eftir að breska lögreglan upplýsir að tveir starfsmenn GRU, leyniþjónustu rússneska hersins, hafi staðið að morðtilrauninni í Salisbury. Kremlverjar sökuðu bresk yfirvöld um að falsa myndir sem sýndu hina grunuðu koma til Bretlands.

Michael Burleigh veltir fyrir sér hvað hafi breyst á þessum 40 árum og hvers vegna Rússar sýni þá ótrúlegu ósvífni að ráðast á Breta á þennan hátt.

Hann segir útsendara Pútíns áhættufíkla sem ímyndi sér að á þeim upplausnartímum sem nú eru geti þeir beitt blekkingum í fjölmiðlum til að grafa undan öllu sem er satt og rétt með því einu að sá nógu miklu af efasemdum.

Minnt er á að Pútín var KGB-foringi og sama eigi við um marga ráðamenn Rússlands. Þeir líti á sig sem félaga í heilagri reglu. Að brjóta gegn henni jafngildi villutrú. Sergei Skripal gerðist sekur um þetta.

Kjörorð KGB var á sínum tíma: Sverð og skjöldur flokksins. Nú verja þeir sem áður sóru flokknum hollustueið ríkisstjórn sem reist er á glæpsamlegri auðsöfnun og styðst við hugsjónir sem eru blanda af íhaldssömum boðskap rétttrúnaðarkirkjunnar og rugli um að Rússar gegni forystuhluverki fyrir Evru-Asíu. Þetta höfðar til öfgahópa utan Rússlands og það kitlar Kremlverja.

GRU hefur breyst úr stofnun þar sem safnað er upplýsingum á leynilegan hátt og lagt mat á þær í leynihernaðardeild, eða sérsveit með 25.000 mönnum Hlutverk hennar er að stofna til ástands sem er stig milli friðar og styrjaldar. Þannig er staðið að málum að næstum ómögulegt er að draga varnarlínu og svara atlögunni.

Þetta geta verið net- eða tölvuárásir eins og GRU beitti fyrir frönsku forsetakosningar árið 2017 og þær bandarísku árið 2016. Pútín kann einnig að beita liðinu til að sölsa undir sig hluta af nágrannaríkjum Rússlands.

Bresk yfirvöld hafa heimilað alls kyns varasömum Rússum að setjast að í Bretlandi, þar á meðal málglöðum liðhlaupum og bófum. Samhliða þessu eru breskar njósnastofnanir í fremstu röð við að grafa undan njósnastarfsemi Rússa og þær hleypa síðan bandamönnum sínum að vitneskjunni eins og MI6 gerði með Oleg Gordievskíj og Alexander Litvinenko sem var drepinn af rússneskum launmorðingjum í London.

Menn óttast Rússa ekki lengur vegna hugsjóna þeirra. Litið er á þá sem aðeins meiri illmenni en aðra Evrópumenn. Pútín á þó marga vestræna aðdáendur.

Einmitt þess vegna hafa útsendarar Pútíns varla fyrir því að fela morðin á götum Bretlands, þeir skildu eftir sig pólóníum þegar þeir drápu Litvinenko og novitsjok í Salisbury. Þeir huldu ekki andlit sín fyrir framan eftirlitsmyndavélarnar. Bresk yfirvöld hafa fingraför Salibury-mannanna í áritanaumsóknum þeirra.

Michael Burleigh segir að ekkert dugi gegn GRU-mönnum annað hörðustu viðbrögð, þeir séu gegnsýrðir af hortugheitunum sem einkenni Kremlverja. Engu sé nú að treysta í samskiptum við Rússa, þar geti allt gerst og það sé megnimunurinn á Rússlandi Pútíns og Sovétríkjunum. Menn gátu getið sér til um hvernig Sovétmenn höguðu sér þegar Markov var drepinn með eitri árið 1978. Nú sé hins vegar glímt við menn í Moskvu sem ekki verði líkt við annan en Al Capone.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …