Home / Fréttir / Glæpaalda, þjóðarmein Mexíkó

Glæpaalda, þjóðarmein Mexíkó

Logandi bílhré eftir átök við glæpagengi sem björguðu syni El Chapos úr höndum lögreglu.
Logandi bílhré eftir átök við glæpagengi sem björguðu syni El Chapos úr höndum lögreglu.

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

 

Fimmtudaginn 17. október bárust fréttir af því að lögreglan í Mexíkó hefði haft hendur í hári Ovidios Guzmáns López sem sakaður er um eiturlyfjaviðskipti.  Augljóst er hvaðan áhugi hans á glæpastarfsem kemur, hann er sonur Joaquíns “El Chapos” Guzmáns sem var foringi  illræmdu Sinaloa glæpasamtakanna.

EL Chapo var nokkuð í fréttum fyrir nokkrum árum og í tvígang höfðu löggæsluyfirvöld hendur í hári hans en í bæði skiptin slapp hann aftur.  Árið 2016 var hann gripinn í þriðja sinn.  Stuttu síðar var hann sendur til Bandaríkjanna, þar sem hann var ákærður fyrir eiturlyfjaviðskipti og dæmdur í lífstíðar í fangelsi.

Sagan virðist að einhverju leyti endurtaka sig hjá syni El Chapos því það fylgdi fréttinni um handtöku Ovidios að stuttu eftir að hann var kominn í járn tók málið ógnvænlega stefnu.  Þungvopnaðir glæpamenn umkringdu lögregluna og neyddu hana til þess að afhenda þeim fangann.

Almenningi bregður við að heyra þessa frétt enda eiga svona atvik sér sjaldan stað í nútímasamfélögum.  Þeim sem þekkja til sögu Mexíkó kemur þetta þó líklega ekki á óvart því þar hefur lengi ríkt mikil vargöld.  Fjallað er um hana í bandaríska tímaritinu City Journal.  Sagan er á þessa leið:  Í Mexíkó hefur ætíð ríkt mikið ofbeldi.  Byltingarflokkur Mexíkó (e. Institutional Revolutionary Party) sem réð ríkjum í landinu í um sjötíu ár hélt óöldinni að nokkru leyti í skefjum.  Því jókst það þegar flokkurinn missti tökin árið 2000.

Forseti Mexíkó Felipe Calderon lýsti yfir stríði á hendur glæpagengjum árið 2006 og náðist talsverður árangur í þeirri baráttu.  Stefnan leiddi hins vegar líka til þess að sum glæpagengin liðuðust í sundur og hófu að berjast sín á milli og þar með jókst ofbeldið.  Gengin dreifðust líka meira um landið, fram til þessa höfðu þau aðallega verið umsvifamikil við landamæri Bandaríkjanna.

Um aldamótin stunduðu glæpahópar einkum eiturlyfjaviðskipti en hlutur þeirra í þeim hefur minnkað.  Nýjar tekjulindir eru m.a. þjófnaður á olíu frá ríkisolíufélaginu Pemex, bílarán eru einnig vinsæl og svo er öllu steini léttara stolið frá hinu opinbera.  Þannig stálu þjófar í fyrra tæplega 40 kílómetrum af ljósaköplum við hraðbrautir í Guadalajara borg.  Vinstrisinninn Andrés López Obrador vann forsetakosningarnar árið 2018 með loforði um að ná tökum á ofbeldinu í landinu.

Það hefur síður en svo gengið eftir, í raun er ástandið verra núna en fyrir kjör hans.  Tölur yfir morð í Mexíkó eru hræðilegar.  Frá árinu 2012 hafa um 135 þúsund manns verið myrt þar.  Til að setja þetta í samhengi er þetta tæplega þriðjungur Íslendinga.  Árið 2018 voru rúmlega 33,500 manns drepin í landinu og á fyrsta fjórðungi þessa árs féllu 8,493 fyrir morðingjahendi.

Ástæður óaldarinnar

Bandaríska tímaritið Time segir fjórar meginástæður fyrir ofbeldisöldunni sem skekur Mexíkó.  Sú fyrsta er að of fáir lögreglumennn eru í landinu.  Opinberir aðilar telja að tvöfalt fleiri lögreglumenn þyrftu að starfa þar.  Meginástæðan fyrir því að fáir vilja sinna starfinu eru lág laun.  Hví ættu menn að vilja vinna áhættusamt starf ef þeir fá ekki vel borgað fyrir það?  Skortur á lögreglumönnum hefur leitt til þess að herinn sinnir sums staðar löggæslustörfum sem hefur verið gagnrýnt af mannréttindasamtökum.

Önnur ástæðan sem Time minnist á hefur þegar verið nefnd en hún er sú að glæpaklíkum hefur fjölgað og þær berjast oft innbyrðis.  Enn ein ástæðan er að mikil spilling er í Mexíkó.  Því hefur glæpagengjum tekist að ná áhrifum á stjórnmálasviðinu sérstaklega á sveitarstjórnarstiginu.  Fjórða og síðasta ástæðan er nátengd þeirri þriðju en hún er sú að stjórnvöld í landinu eru veikburða.  Ekki síst vegna þeaa að mikinn hluta 20. aldarinnar ríkti í raun einræði í landinu.

Margir hlutar Mexíkó

Í stuttri grein er nauðsynlegt að einfalda hlutina.  Þannig hefur hér verið vísað til ríkisins Mexíkó.  Af því mætti ætla að glæpaaldan í landinu sé jafnslæm alls staðar.  Svo er hins vegar alls ekki.  Í sumum fylkjum er ástand mála mjög slæmt en í öðrum er það miklu skrárra. Sameiginlegt vandamál allra er að lögleysan grefur undan veikburða lýðræði í Mexíkó.  Tíminn einn leiðir í ljós hvort landsmenn beri gæfu til þess að draga úr glæpum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …