
Sjúkraflugvél þýska hersins var notuð föstudaginn 26. nóvember til að flytja gjörgæslusjúklinga á milli landshluta til að dreifa byrðum á heilbrigðiskerfi ólíkra sambandslanda innan Þýskalands. Fjórða bylgja COVID-19-faraldursins reynir mjög á mörg sjúkrahús.
Um er að ræða sérbúna Airbus 310 þotu til flutninga á sjúklingum. Var henni flogið frá Memmingen í Bæjaralandi til Münster/Osnabrück í veturhluta Þýskalands að sögn talsmanns flughersins.
Vegna faraldursins er í gildi neyðaráætlun í Þýskalandi um flutning á gjörgæslusjúklingum skorti aðstöðu fyrir þá á heimaslóðum. Þeir eru fluttir til sjúkrahúsa þar sem gjörgæslurými eru laus.
Fjórða COVID-19-bylgjan hefur skollið af miklum þunga á suður og suð-austur hluta Þýskalands.
„Ástandið er grafalvarlegt – alvarlegra en nokkru sinni fyrr í faraldrinum,“ sagði Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, við blaðamenn föstudaginn 26. nóvember. Hvatti hann stjórnir einstakra sambandslanda sambandsríkisins til að grípa til hertra og nauðsynlegra varúðarráðstafana.
Um borð í flutningavél hersins eru sex gjörgæslurúm sem öll voru notuð í fyrstu flugferðinni. Fleiri flugvélar voru til taks hjá flughernum.
Nú í vikunni fór tala látinna í Þýskalandi vegna faraldursins yfir 100.000 og daglegum smitum fjölgar stöðugt umfram öll fyrri mörk.
Robert Kockh-smitsjúkdómastofnunin sagði föstudaginn 26. nóvember að sólarhringinn þar á undan hefðu 76.414 ný smit greinst og sjö daga tíðnu miðað við 100.000 manns væri 438.2 – báðar tölur ný met.
Ómríkon í Bæjaralandi
Laugardaginn 27. nóvember bárust fréttir um að nýtt afbrigði COVID-19, ómríkon, hefði verið greint í tveimur einstaklingum í München, höfuðborg Bæjaralands. Afbrigðið var fyrst greint í suðurhluta Afríku fyrr í vikunni og þykir bráðsmitandi án þess að rannsakað hafi verið til hlítar hvort bóluefni veiri vörn gegn því.
Klaus Holetschek, heilbrigðisráðherra Bæjaralands, sagði að smituðu einstaklingarnir hefðu komið til flugvallarins í München miðvikudaginn 24. nóvember. Þeir eru nú í einangrun.
Fyrr laugardaginn 27. nóvember sagði Kai Klose, félagsmálaráðherra sambandslandsins Hesse, að afbrigðið hefði „mjög líklega þegar stungið sér niður“ í Þýskalandi. Fréttin frá Bæjaralandi staðfestir það.