
Í stríði eru öll brögð leyfileg. Þannig hefur það ætíð verið: frá trójuhestinum fyrir utan Tróju og til þess að bandamenn reyndu að blekkja Hitler og leyna hvar gengið yrði á land í Normandie.
Með þessum orðum hefst grein í Jyllands Posten á nýársdag eftir Jørn Mikkelsen sem skrifar um öryggismál í blaðið en greinin ber fyrirsögnina: Gjörbreytt hernaðarstaða gegn Vestrinu.
Blaðamaðurinn segir að nú sé svo komið að sá sem verður fyrir árás átti sig í raun ekki á því að stríð sé hafið. „Fjölþátta hernaður“ (d. „hybrid krigsførelse”) sé nýtt dæmi um átök sem snúist ekki aðeins um bryndreka, hermenn og skotflaugar heldur einnig og jafnmikið um upplýsingaóreiðu, falsfréttur, netárásir og efnahagsleg skemmdarverk.
Vintað er í nýdoktorinn André Ken Jakobsson hjá Center for War Studies í Syddansk Universitet sem segir að undir fjölþátta hernað falli allt sem nýta megi til að grafa undan stöðugleika og veikja samfélag andstæðingsins án þess að beita beint hervaldi.
Minnt er á að einræðisherrann í Hvíta-Rússlandi, Aleksander Lukasjenko, sótti í nóvember 2021 flóttafólk til Mið-Austurlanda og sendi það til að gera áhlaup á pólsku landamærin. Þetta sé nú talið nýjasta dæmið um fjölþátta hernað. Í flestum höfuðborgum Evrópu telji menn að Rússar hafi lagt á ráðin um þessa nýju árás á ESB.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var ekki í neinum vafa: „Þetta er ný útgáfa af fjölþátta hernaði sem við verðum að líta til af miklu meiri þunga.“
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, efaðist ekki heldur: „Við skulum tala um hlutina eins og þeir eru. Um er að ræða fjölþátta árás til að skapa óstöðugleika í Evrópu.“
Jørn Mikkelsen segir að eitt frægasta dæmið um fjölþátta árás þar sem beitt hafi verið ógnvekjandi blöndu falsfrétta og flóttamanna sé frá 2016. Þá héldu rússneskir ríkisfjölmiðlar því fram að rússnesk-þýskri stúlku „Lisu“ hefði verið nauðgað í Berlín þegar hópur flóttamanna frá Mið-Austurlöndum réðist á hana. Fréttin olli miklu uppnámi en hún var uppspuni frá rótum.
Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hikaði þó ekki við að nýta sér lygina til árása á þýsk stjórnvöld, þau hefðu brugðist og ekki veitt stúlkunni vernd. Tilfinningaheit gagnrýni fékk byr undir báða vængi í Þýskalandi og harðar deilur urðu um málið, ekki síst á samfélagsmiðlum.
Þarna kom í ljós að frjálslynd útlendingastefna í Evrópu er miskunnarlaust beitt til að stuðla að sundrung og átökum í Evrópulöndum, segir í greininni. Það séu ekki aðeins Rússar sem beiti sér á þennan hátt heldur einnig hryðjuverkasamtökin IS (Ríki íslams). Þar til þeir gerðu stóru árásina í París árið 2015 nýttu hryðjuverkamennirnir sér af kostgæfni allar evrópskar reglur um skráningu hælisleitenda og frelsi þeirra til að ferðast um Evrópu. Þeim tókst að fela sig og hefðu getað verið áfram í felum en þeir vildu einfaldlega verða sýnilegir af hryðjuverkum sínum.
Í ESB-skýrslu um hryðjuverkin í París segir að með þeim hafi markvisst átt að sanna fyrir almenningi að erlendir hryðjuverkamenn og öfgasinnaðir íslamistar nýttu sér straum farand- og flóttamanna til Evrópu í þeim tilgangi að ýta undir óvild milli Vestursins og Íslam.
Pólska hugveitan OSW í Varsjá segir að flóttamenn séu ofarlega á lista ráðamanna í Kreml um vopn gegn Vestrinu. Pólsk yfirvöld snerust af hörku gegn þeim sendir voru til að brjótast yfir pólsku landamærin frá Hvíta-Rússlandi og sárafáir farendur komust þar inn í Pólland.
Jørn Mikkelsen nefnir innlimun Krímskaga í Rússland árið 2014 sem klassískt dæmi um fjölþátta hernað. Hann minnir einnig á magnaða netárás á Eistland árið 2007. Grunur er um að Rússar hafi staðið að baki henni.
Vitnað er á ný í André Ken Jakobsson sem segir að Rússar og Kínverjar geri sér grein fyrir að þeir geti ekki sigrað Bandaríkjamenn í átökum á vígvellinum. Þess vegna verði að finna nýjan vettvang. Rússar hafi brotið hluta af Úkraínu og slegið eign sinni á hann auk þess sem þeir hindri allar umræður um aðild Úkraínu að NATO.
Jørn Mikkelsen segir fjölþátta áras ekki síst ekki hættulega vegna þess hve erfitt geti verið að greina hana áður en hún veldur verulegu tjóni. Viti maður ekki af árásinni sé ekki heldur unnt að verjast henni. Í skilgreiningu NATO á fjölþátta árás sé einmitt talað um „samræmda notkun margra valdbeitingartækja sem eru sérsniðin gegn sérgreindum veikleikum í allri samfélagsgerðinni“.
Með öðrum orðum má lýsa fjölþátta árás á þann veg að undir hana falli allt sem fellur ekki undir klassíska beitingu hervalds en veldur engu að síður tjóni í samfélaginu.
Bent er á ýmis dæmi um hvernig Rússar hafa beitt fjölþátta vopnum: með netárásum, afskiptum af kosningum, falsfréttum, og morðtilræðum við rússneska andófsmenn í útlöndum, til dæmis á Sergej Skripal á Englandi.
André Ken Jakobsson nefnir nokkur dæmi um rússneskan fjölþátta hernað sem snertir Dani: NotPetya-netárásina árið 2017 sem kostaði A.P. Møller-Mærsk allt að 1,9 milljarði d.kr., falsfréttir um dönsk dýra-vændishús, pólitískar hótanir frá Rússlandi um að beita kjarnorkuvopnum gegn dönskum skotmörkum og æfingar á skotflaugaárás úr flugvélum gegn sumarmóti danskra stjórnmálaflokka á Borgundarhólmi árið 2014.
Hann telur að rekja megi stefnu Rússa að baki þessum aðgerðum til ræðu sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti á árlegu öryggisráðstefnunni í München árið 2007. Þar tók hann allt í einu til við að lýsa Bandaríkjunum sem helstu undirrót óstöðugleika í heiminum og varaði við nýjum árekstrum. Við svo búið hafi komið til sögunnar rússnesk stefna sem miðaði að því að vinna gegn Vestrinu. Því marki megi ná á margan annan hátt en að valda andstæðingi skaða með hefðbundnum vígtólum.
Rússar nýti sér Facebook, Kínverjar nýti sér ungmennamiðilinn TikTok. Kínverjar hafi fjárfest mikið í Evrópu, til dæmis höfninni í Piræus í Grikklandi, til að tryggja sér aðstöðu eftir öðrum leiðum en hernaðarlegum.
„Hnattvæðingin gerir þannig kleift að snúast gegn Vestrinu á nýjan hátt. Í Evrópu þurfa menn ekki að óttast að fá sprengjur í höfuðið. Þeir þurfa hins vegar að hræðast aðrar ógnir sem grafa undan samfélagsgerðinni,“ segir André Ken Jakobsson.
Grein sinni í Jyllands-Posten á nýársdag lýkur Jørn Mikkelsen með þeim orðum að menn líti þjölþátta hernað alvarlegum augum í NATO, ESB og einstökum vestrænum löndum. Varnir gegn þessum hernaði séu einnig hluti öryggismálastefnu Dana og danskir ráðherrar minnist oft á fjölþátta ógnir.