
Rudy Giuliani, einka-lögfræðingur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, ákvað skyndilega föstudaginn 27. september að hætta við þátttöku í ráðstefnu í Armeníu sem nýtur stuðnings rússneska forsetaembættisins.
Frá því var skýrt í Washington Post föstudaginn 27. sepember nokkrum klukkustundum áður en Giuliani afboðaði sig að hann stefndi að því að sitja í pallborði á ráðstefnunni. Giuliani tengist mjög deilunni sem sprottið hefur af símtali Trumps við Volodimír Zelenskíj, forseta Úkraínu.
Nokkrum klukkustundum eftir að sagt var þátttöku Pútíns í ráðstefnunni afboðaði Giuliani sig. Hann sagði við The Washington Post: „Ég vissi ekki að Pútin yrði þarna.“ Hann sagðist aldrei hafa séð vefsíðu ráðstefnunnar með upplýsingum um dagskrá hennar og þátttakendur: „Ég hélt ég væri að fara á armenska öryggisráðstefnu,“ sagði hann.
Á vefsíðunni segir að Giuliani taki þátt í ráðstefnunni 30. september til 1. október í Jerevan, höfuðborg Armeníu. Hann sitji þar í pallborði sem Sergei Glazjev, aðstoðarmaður Pútíns til margra ára, stjórni. Glazjev sætir persónulega refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2014.
Á vefsíðunni eru þessir sagðir skipuleggja hana: Ríkisstjórn Armeníu, Efnahagssamband Evruasíu í Moskvu, sem Pútin stofnaði árið 2014 til mótvægis við ESB, Heimsþing Armena, rússneska viðskiptaráðuneytið og framkvæmdastjórn Efnahagssambands Evruasíu.
Aðstandendur ráðstefnunnar segja að auk Vladimírs Pútíns taki Hassan Rohani, forseti Írans, einnig þátt í henni.
The Washington Post segir að það hafi vakið „undrun sérfræðinga í þjóðaröryggismálum“ að Giuliani hafi þegið boð um að sitja ráðstefnuna.
Hann er nú undir smásjá fjölmiðla vegna aðildar sinnar að atburðarásinni sem hefur orðið til þess að stofnað hefur verið til kæru á hendur Trump á Bandaríkjaþingi vegna samskipta hans við stjórnvöld í Úkraínu.
Giuliani hefur staðfest samband sitt við stjórnvöld Úkraínu og að hafa kannað hvort þau gætu rannsakað viðskipti Joes Bidens, fyrrv. varaforseta Bandaríkjanna, og Hunters, sonar hans í Úkraínu.
Trump ræddi einnig slíka rannsókn við forseta Úkraínu. Bæði Trump og Giuliani segjast hafa farið að lögum. Demókratar saka Trump um að beita þjóðhöfðingja erlends ríkis þrýstingi til að safna upplýsingum um hugsanlegan keppinaut sinn í forsetakosningunum í nóvember 2020.
Giuliani var á sínum tíma lögreglustjóri og borgarstjóri í New York. Hann hefur árangurslaust tekið þátt í forsetaprófkjörum repúblikana. Hann vildi ekki svara spurningum um hve mikið hann átti að fá greitt fyrir að sitja ráðstefnuna í Jerevan eða hver ætlaði að borga honum. Hann segist vinna fyrir Trump en þiggi hvorki laun frá bandaríska ríkinu né forsetanum.