Home / Fréttir / Gildishlaðin dönsk utanríkisstefna kynnt

Gildishlaðin dönsk utanríkisstefna kynnt

Jeppe Kofod utanríkisréðaherra, Mette Frederiksen forsætisáðherra og Trine Bramsen varnarmálaráðherra kynna nýja utanríkisstefnu Dana.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna í Danmörku kynnti mánudaginn 31. janúar nýja stefnu í utanríkismálum sem mótuð er af þeim gildum sem móta almenna stefnu stjórnarinnar.

„Breytingarnar sem við vinnum að í Danmörku knýja á um að við berjumst fyrir dönskum hagsmunum og gildum í heiminum öllum,“ segir Jeppe Kofod utanríkisráðherra í inngangsorðum stefnuskjalsins.

Lögð er áhersla á að að styrkja dönsk tengsl við ESB, SÞ og NATO með því að velja sérstök verkefni í þeim tilgangi.

„Varðstöðu um danskt öryggi, velferð og samheldnisvilja lýkur ekki við landamærin. Hún krefst hnattrænnar þátttöku. Og breytingarnar sem við gerum hér heima eiga erindi hvarvetna í heiminum,“ segir utanríkisráðherrann einnig.

Í stefnunni eru fimm diplómatísk áherslusvið nefnd til sögunnar þau snúa að (1) gildum, (2) öryggi, (3) loftslagi, (4) flótta- og farandfólki og (5) efnahagsmálum.

  1. Gildin.

Ríkisstjórnin vill að innan ESB verði lögð meiri áhersla á verkefni sem gagnast almenningi. Viðbúnaður NATO taki mið af framtíðarverkefnum. Rödd Dana heyrist betur í SÞ. Þá er tekið af skarið um að Bandaríkjamenn séu enn sem fyrr mikilvægasta samstarfsþjóð Dana.

Innan ESB verði stuðlað að því að styrkja stöðu réttarríkisins, lýðræðis, jafnréttis og virðingar fyrir mannréttindum sem grunnþáttum í ESB-samstarfinu. Jafnframt verði unnið að því að móta skýra refsiaðgerðastefnu ESB svo að beita megi þeim til að sporna gegn mannréttindabrotum, niðurlægingu lýðræðis og brotum á alþjóðlegum leikreglum.

NATO eflist, ríkisstjórnin ætlar að efla NATO bæði pólitískt og hernaðarlega fram til 2030. Laga ber danska herinn að framtíðarkröfu og gæta þess almennt að Danir verði áfram kjarnaþjóð í NATO.

Sameinuðu þjóðirnar, Danir auki þátttöku sína í SÞ. Stefnt verði að því að danskur fulltrúi sitji í öryggisráðinu 2025-26. Danir verði „trúnaðarmaður“ alls heimsins í ráðinu.

Bandaríkjamenn – lykilsamstarfsmenn. Lögð er áhersla á „mikinn samhljóm í gildum“ Bandaríkjamanna og Dana og að danska stjórnin telji hnattræna forystu Bandaríkjamanna nauðsynlega. Danir eigi með Bandaríkjamönnum, ESB og öðrum samstarfsþjóðum að sjá til þess að alþjóðastofnanir sinni skyldum sínum. Danir og Bandaríkjamenn standi sameiginlega vörð um frið, öryggi og frelsi. Danir eigi að fylgja stefnu sem tryggi að samstarfið við Bandaríkjamenn taki mið af stöðu mála hverju sinni svo að þjóðirnar geti átt samleið við úrlausn þeirra mála sem hæst ber víða um heim. Þá er áréttað að Bandaríkjamenn gegni mikilvægu hlutverki í loftslagsbaráttunni og það séu forsendur fyrir samstarfi á því sviði með Dani í fararbroddi.

  1. Öryggið

Ríkisstjórnin mun meðal annars beita sér í baráttunni fyrir afvopnun og auknu vígbúnaðareftirliti. Þá verður snúist gegn óstöðugleika og herskáum íslamisma með því að beita hörku gegn hryðjuverkahópum, koma í veg fyrir átök og átaki til að stuðla að sjálfbærni og lýðræðislegri þróun í nágrannalöndum fyrir sunnan álfu okkar.

Danska konungsríkið. Ríkisstjórnin vill stöðugt þéttara samstarf og sameiningu milli þriggja hluta ríkisins. Samstarf sem reist sé á jafnræði, virðingu, tillitssemi og samhygð.

Spornað gegn njósnum. Ríkisstjórnin mun efla baráttuna gegn ólögmætri starfsemi erlendra ríkja og tryggja markviss viðbrögð þegar flett er ofan af henni.

Eftirlit með erlendum fjárfestingum. Eflt verður eftirlit með erlendum efnahagsumsvifum með nýrri löggjöf um skimun á ákveðnum erlendum fjárfestingum. Umsvifum sem kunna að ógna þjóðaröryggi og allsherjarreglu.

Öruggar bjargir. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að ESB sé ekki háð þriðju ríkjum á sviðum eða varðandi tækni sem skipta samfélagsöryggi miklu. Danir eiga ekki að vera háðir einstökum löndum heldur eiga að geta treyst á stóran hóp trúverðugra samstarfsaðila – bæði innan ESB og utan.

  1. Loftslagsmál

Ríkisstjórnin lýsir yfir „stríði“ gegn kolum og hvetur til grænna orkuskipta. Þetta verði gert með því að breyta loftslagsáformum í raunhæfar aðgerðir.

Boðað er grænt samstarf við Suður-Afríku og Víetnam og að núverandi grænt samstarf verði aukið við Kína, Indland, Indónesíu, Japan, Mexíkó og Suður-Kóreu.

Beitt verði þrýstingi innan ESB til að sett markmið í loftslagsmálum náist. Stuðlað verði að því að ESB myndi bandalög með öðrum ríkjum til að vinna gegn hlýnun jarðar.

  1. Flótta- og farandfólk

Lögð verður áhersla á þróunaraðstoð við nálæg ríki, einkum í Afríku. Spornað verði við straum farandfólks til Danmerkur með því að gera ráðstafanir á vegum danska ríkisins og ESB við helstu farandleiðir til Evrópu.

Tengslin við Norður-Afríku verða stóraukin, bæði tvíhliða og í gegnum ESB. Samstarf við ríki á þessum slóðum skiptir miklu fyrir danska hagsmuni, ekki síst í baráttunni gegn hryðjuverkum og við meðferð mála sem snerta flótta- og farandfólk.

Með aðstoð verði reynt að skapa betri aðstæður fyrir fólk í löndum í Norður-Afríku, á Afríkuhorni, í Sahel, Mið-Austurlöndum og Afganistan og draga þannig úr straumi fólks til ESB.

Ríkisstjórnin mun herða á heimsendingum erlendra borgara sem dveljast ólöglega í Danmörku.

  1. Efnahagsmál

Ríkisstjórnin mun stuðla að auknum dönskum útflutningi á innri markað Evrópu og utan hans. Sérstök áhersla verður lögð á útflutning á grænum tæknilausnum og verkefnaráðgjöf. Þróunaraðstoð sem tekur mið af því að ýta undir verkefni á vegum danskra fyrirtækja og stuðlar að sjálfbærum lausnum verður aukin.

Staðið verður gegn félagslegum undirboðum og staðinn vörður um danska vinnumarkaðsmódelið til að tryggja öllum viðunandi kjör.

Stafræni innri markaðurinn verður efldur bæði innan Danmerkur og í ESB.

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …