
Það vakti undrun í Þýskalandi og annars staðar hve Gerhard Schröder skipaði virðulegan sess þegar Vladimir Pútín var settur í embætti forseta Rússlands í fjórða sinn mánudaginn 7. maí. Schröder er stjórnarformaður rússneska olíufélagsins Rosnefnt og hefur beitt sér gegn refsiaðgerðum gegn rússneskum stjórnvöldum.
Allt voru um 5.000 manns í hátíðarsal Kremlar við innsetningu Pútins. Gerhard Schröder sem var á sínum tíma kanslari Þýskalands í umboði jafnaðarmanna stóð þar í fremstu röð á milli Kirills, patríarka rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, og Dmitríjs Medvedevs, forsætisráðherra Rússlands.
Þegar gestir gengu fyrir Pútin og árnuðu honum heilla var Schröder annar í röðinni – á undan Medvedev.

Schröder var ekki eini áberandi Þjóðverjinn við athöfnina í Kreml. Skammt frá honum stóð Matthias Waring, fyrrverandi foringi í austur-þýsku öryggislögreglunni Stasi. Waring er forstjóri Nord Sream AG, fyrirtækisins sem er að leggja gasleiðslu um Eystrasalt frá Rússlandi til Þýskalandi. Slík leiðsla er þegar fyrir hendi en unnið er að því að fá heimild til að leggja Nord Stream 2. Áformin valda ágreiningi innan ESB.
Þarna var einnig Steven Seagal, hasar-kvikmyndaleikari frá Bandaríkjunum sem hefur fengið rússneskan ríkisborgararétt. Hann var fjær ræðustól Pútins en Schröder, skammt frá Sergeij Lavov, utanríkisráðherra Rússa, sem var í þriðju eða fjórðu röð.
Þegar mynd birtist af Schröder árna Pútín heilla fór hún hraðferð um samfélagsmiðla og vakti hneykslun margra. Vassili Golod, fréttaritari þýsku sjónvarpsstöðvarinnar WDR, sagði á Twitter að héðan í frá væri réttmætt að „kalla hann hagsmunamiðlara Rússa“.
Maria Weimer, þingmaður í Svíþjóð, fædd í Þýskalandi sagði „skammarlegt“ að Schröder hefði verið við innsetninguna. Hún sagði: „Þýskir jafnaðarmenn hljóta að skammast sín.“
Annalena Baerbock, annar formanna þýskra græningja, gagnrýndi Schröder harðlega og sagði að hann ætti að ræða undanbragðalaust og á áberandi hátt um skort á lýðræði í Rússlandi „í stað þess að sitja eins og klappliði í fremstu röð“. Í þessu tilviki er talað um klappliða sem launaðan aðdáanda.
Christian Lindner, formaður frjálsra demókrata (FDP), tók þann pól í hæðina að reyna ætti nýjar leiðir gagnvart rússneskum ráðamönnum. Þjóðverjar og Evrópumenn ættu að móta nýja samtalsstefnu.
Skömmu eftir embættistöku Pútíns var skýrt frá því að brátt yrði Angela Merkel Þýskalandskanslari gestur forsetans í Moskvu.