Home / Fréttir / Georgía: Umdeilt stjórnarfrumvarp fellt – Rússar segja óvini sína að verki

Georgía: Umdeilt stjórnarfrumvarp fellt – Rússar segja óvini sína að verki

Fagnað var á götum Tiblisi föstudaginn 10. mars.

Stjórnmálasviptingar og mótmæli í Georgíu leiddu til þess föstudaginn 10. mars að þingmenn samþykktu að hafna alfarið frumvarpi ríkisstjórnarinnar um „erlenda erindreka“ sem mótmælt hefur verið harðlega á götum úti frá því þriðjudaginn 7. mars.

Fimmtudaginn 9. mars tilkynnti stjórnarflokkurinn, Draumaflokkur Georgíu, að hann afturkallaði frumvarpið til nánari skoðunar eftir að fyrstu umræðu um það lauk.

Gengið var til atkvæðagreiðslu um málið á þingi föstudaginn 10. mars og þá var ákveðið að fella það og taka af dagskrá þingsins með 35 atkvæðum gegn 1. Það má ekki endurflytja frumvarpið óbreytt en með breytingum er heimilt að flytja það að nýju innan 30 daga.

Tugir þúsunda manna mótmæltu frumvarpinu á götum úti, sögðu það sniðið að rússneskri fyrirmynd og skref til valdboðsstjórnar í landinu.

Lögregla beitti táragasi og vatnsdælum gegn mótmælendum fyrir utan að handataka 133 þeirra. Innanríkisráðuneytið sagði 10. mars að þeim yrði sleppt úr haldi. Ráðuneytið sagði tæplega 60 lögreglumenn hafa særst í átökunum.

Andúð á Rússum er mikil í Georgíu. Rússar hafa um 20% af landi Georgíu enn á sínu valdi, þeir lögðu héruðin Abkhaziu og Suður-Ossetíu undir sig með leifturstríði árið 2008.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði föstudaginn 10. mars í Moskvu að lagafrumvarpið um „erlenda erindreka“ hefði verið notað sem yfirvarp til að reyna að koma ríkisstjórn Georgíu „frá með valdi“.

Mótmælunum væri „að sjálfsögðu stjórnað frá útlöndum“ í því skyni að skapa „óróa á landamærum Rússlands“.

Við þinghúsið í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, breyttust fyrirhuguð mótmæli í fagnaðarstund föstudaginn 10. mars eftir að lagafrumvarpið var fellt í þingsalnum.

„Þetta er sigur. Við unnum vegna samstöðu okkar,“ sagði Irina Shurgaia, 21 árs námsmaður, við AFP-fréttastofuna fyrir utan þinghúsið. „Allur heimurinn varð vitni að einhug Georgíumanna um að verða hluti af evrópsku fjölskyldunni.“

Stjórn Georgíu sótti um ESB-aðild með stjórnum Úkraínu og Moldóvu eftir að Rússar réðust inn í nágrannaríkið Úkraínu 24. febrúar 2022.

ESB viðurkenndi Úkraínu og Moldóvu formlega sem umsóknarríki í júní 2022 en sagði við Georgíumenn að þeir yrðu að endurbæta stjórnarhætti sína áður en þeir fengju slíka viðurkenningu.

Salome Zurabishvili, forseti Georgíu, var í New York fimmtudaginn 9. mars þegar hún ávarpi mótmælendur og óskaði þeim til hamingju með „fyrsta sigurinn“ eftir að stjórnarflokkurinn hafði dregið frumvarp sitt til baka til nánari skoðunar. Hún sagði að fólk vantreysti ríkisstjórninni þegar þjóðin vildi feta leiðina til Evrópu.

Stjórnarflokkurinn segist styðja umsóknir Georgíu um aðild að ESB og NATO sem staðfestar eru með ákvæðum í stjórnarskrá landsins og studdar af 80% þjóðarinnar í skoðanakönnunum.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …