Home / Fréttir / Georgía: Forsetinn hafnar „rússnesku lögunum“ – átök á götum úti

Georgía: Forsetinn hafnar „rússnesku lögunum“ – átök á götum úti

Salome Zourabichvili, forseti Georgíu.

Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, neitaði laugardaginn 18. maí að staðfesta „rússnesku lögin“ svonefndu sem beinast gegn fjölmiðlum og frjálsum félagasamtökum og hafa leitt til margra vikna mótmælaaðgerða í landinu.

Samkvæmt lögunum verður starfsemi fjölmiðla og frjálsra félagasamtaka skráð sem „þjónusta við hagsmuni erlends valds“ njóti hún stuðnings frá útlöndum sem nemur meira en 20% af fjármögnun hennar. Gagnrýnendur laganna segja að þau líkist mjög lögum sem valdhafar í Moskvu hafa notað til að þagga niður í andstæðingum sínum og þau muni koma í veg fyrir aðild Georgíu að ESB.

Salome Zourabichvili forseti er andvíg stefnu stjórnarflokksins í Georgíu og sagði 18. maí að lögin væru í andstöðu við stjórnarskrá Georgíu og alla „evrópska staðla“ og þau yrði að „fjarlægja“.

Stjórnarflokkurinn, Daumur Georgíu, hefur nægilegan þingstyrk til að hafna ákvörðun forsetans og hrinda lögunum í framkvæmd. Er almennt talið að þingið samþykki það einhvern næstu daga.

Ríkisstjórn Georgíu heldur fast í þau rök að nýju lögin stuðli að gagnsæi og setji skorður við skaðlegum  erlendum áhrifum meðal 3,7 milljóna íbúa landsins. Tugir þúsunda manna hafa gripið til mótmæla á götum úti gegn lögunum. Blaðamenn og forráðamenn frjálsra félagasamtaka segja lögin óþörf, starfsemi þeirra lúti nú þegar margvíslegu eftirliti, þar á meðal fjárhagslegu. Þeir segja að með lögunum vilji stjórnarflokkurinn setja þeim skorður og þagga niður í gagnrýnisröddum fyrir þingkosningar í október 2024.

ESB bauð Georgíu stöðu umsóknarríkis í desember 2023. Í boðinu fólst að stjórn landsins hæfi aðlögun að aðild með breytingum á ýmsum mikilvægum sviðum. Þar er meðal annars um að ræða að kosningar séu frjálsar, spornað sé við upplýsingafölsunum „gegn ESB og gildum sambandsins“, tryggt sé sjálfstæði opinberra stofnana eins og seðlabankans og eftirlitsaðila gegn spillingu.

Sameinaða þjóðarhreyfingin og mótmælendur sem berjast gegn Draumi Georgíu saka stjórnarflokkinn um að setja ESB-ferlið til hliðar og vilja frekar draga Georgíu undir áhrif Rússa. Stjórnarflokkurinn segir þetta alrangt.

Bidzina Ivanishvili, fyrrverandi forsætisráðherra, stofnaði Draum Georgíu. Hann er auðugasti maður Georgíu, milljarðamæringur sem lagði grunn að auðsöfnun sinni í Rússlandi. Við smíði umdeildu laganna var leitað að fordæmi til Moskvu og í fyrra þegar stjórnarflokkurinn lagði frumvarp að þeim fram á þingi neyddist hann til að draga það til baka vegna mótmæla á götum úti. Lögregla hefur nú snúist af hörku gegn mótmælendum með táragasi og háþrýstivatnsdælum. Á dögunum flutti stjórnarandstæðingur ræðu á þingi þótt hann væri með sárabindi um höfuð vegna þess hvernig lögregla tók á honum.

Stjórnmálamenn utan Georgíu hafa hvatt stjórn landsins til að virða lýðræðisleg gildi og mannréttindi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var miðvikudaginn 15. maí í Georgíu ásamt utanríkisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litáens.  Ráðherrarnir áttu fundi með forseta Georgíu, fulltrúum stjórnvalda, stjórnarandstöðu og frjálsra félagasamtaka. Vildu ráðherrarnir sýna stuðning við Georgíu og íbúa landsins á vegferð þeirra í átt að frekari aðild að vestrænu samstarfi, bæði Evrópusamstarfi sem og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Í fréttatilkynningu 15. maí sagði utanríkisráðherra: „Við óttumst að nýsamþykkt lög um meint gagnsæi erlendra áhrifa muni hafa neikvæð áhrif á stöðu Georgíu í hinum frjálsa heimi og þá er hún í andstöðu við greinilegan meirihlutavilja georgísku þjóðarinnar líkt og viðbrögð almennings bera með sér. Við þessu vildum við bregðast, en valið er að lokum alltaf í höndum Georgíu.“

Sama dag, 15. maí, sendi Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, frá sér tilkynningu til stuðnings mótmælendum í Tiblisi, höfuðborg Georgíu. Hann andmælti jafnframt ofbeldisaðgerðum gegn stjórnarandstæðingum, stjórnmálamönnum, aðgerðarsinnum, blaðamönnum og fjölskyldum þeirra.

Salome Zourabichvili forseti sagði við AP-fréttastofuna fimmtudaginn 16. maí að það væri erfitt að segja hvort frumvarpið að ófrelsislögunum hefði verið samið að frumkvæði Draums Georgíu eða hvort ráðamenn í Moskvu hefðu haft þar hönd í bagga. Hún lagði hins vegar áherslu á að í Kreml væru menn óánægðir með vinsamlegt viðhorf Georgíumanna í garð Vesturlanda.

Í stuttu máli má segja að spenna hafi verið í samskiptum Rússa og Georgíumanna frá því að Svovétríkin hurfu árið 1991 og Georgía hætti að vera eitt sovésku lýðveldanna. Rússar réðust inn í Georgíu 2008 þegar ríkisstjórn landsins reyndi að treysta stöðu sína í aðskilnaðarhéraðinu Suður-Ossetíu. Rússneska stjórnin viðurkenndi þá Suður-Ossetíu og annað aðskilnaðarhérað, Abkhazíu, sem sjálfstæð ríki og fjölgaði í herliði sínu þar. Flest ríki heims líta á héruðin sem hluta Georgíu. Stjórnin í Georgíu sleit stjórnmálasambandi við Rússland og staða héraðanna skapar enn þann dag í dag erfiðleika í samskiptum ríkjanna þótt stjórnir þeirra hafi færst nær hvor annarri.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …