Home / Fréttir / Georgia: Ásakanir um brot á mannréttindum

Georgia: Ásakanir um brot á mannréttindum

Mikheil Saakashvili.

Stjórnarflokkur Georgíu, Draumur Georgiu, stefnir að því að í þessari viku að brjóta upp sjálfstæða ríkisstofnun sem hefur það hlutverk að gæta stafrænnar persónuverndar og sporna gegn misbeitingu opinbers valds. Flokkurinn situr undir þungri gagnrýni vegna þessa og er uppbrot stofnunarinnar sögð gerð i flokkslegri þágu.

Stjórnarandstaðan í Georgíu, almenn félagasamtök í landinu, Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkjastjórn sameinast í gagnrýni á lagafrumvarpið sem hraðað er í gegnum þingið til að loka Ríkiseftirlitsstofunni og reka alla starfsmenn hennar,

Tillagan um lokun eftirlitsstofunnar er lögð fram þegar starfsmenn hennar rannsaka réttmæti ásakana um að Mikheil Saakashvili, fyrrverandi forseti Georgíu, hafi verið pyntaður og sætt öðru harðræði eftir að hann var tekinn fastur snemma í október 2021 þegar hann sneri heim úr sjálfskipaðri útlegð í Úkraínu.

Kelly Degnan, sendiherra Bandaríkjanna í Georgíu, fór mánudaginn 27. desember til fundar við starfsmenn Ríkiseftirlitsstofunnar. Að fundinum loknum lýsti hún áhyggjum yfir lagafrumvarpinu gegn stofunni og hve mikið óðagot væri á forystumönnum Draums Georgiu við að knýja fram afgreiðslu þess.

Degnan hvatti þingmenn til að íhuga málið og ekki hraða sér svo mjög við afgreiðslu máls sem þyldi vel minni hraða. Þingmenn ættu að efna til opinna umræðna með öllum sem málið varðaði.

Draumur Georgíu kynnti frumvarpið opinberlega 26. desember en í því felst að Ríkiseftirlitsstofunni verður skipt í tvær aðskildar einingar sem sinni persónuvernd annars vegar og misbeitingu opinbers valds hins vegar. Verði frumvarpið samþykkt verða störf allra núverandi starfsmanna stofunnar lögð niður í mars 2022. Ætlunin er að ljúka afreiðslu málsins 29. eða 30. desember.

Áður en bandaríski sendiherrann hreyfði andmælum sínum hafði mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna lýst „þungum áhyggjum“ vegna lokunar stofunnar sem gegndi miklu hlutverki til að sporna gegn pyntingum og í þágu persónuverndar.

Nino Lomjaria, forstjóri stofunnar, sagði 27. desember að frumvarp stjórnarflokksins bryti í bága við stjórnarskrána og skuldbindingar ríkisins í mannréttindamálum. Með því væri stefnt að „íhlutun í starfsemi sjálfstæðrar stofnunar“. Hraðinn á afgreiðslu málsins og skortur á hæfilegu samráði við hagaðila vektu „sérstakan ugg“.

„Markmiðið með lagabreytingunni er að hafa áhrif á starf sjálfstæðrar stofnunar,“ sagði hún.

Saakashvili fór í 50 daga hungurverkfall eftir að hann var handtekinn. Hann segist hafa sætt hótunum um líflát, búið við svefnleysi og mátt þola líkamsmeiðingar á meðan hann sat inni. Handtaka hans og málaferlin sem fara fram vegna hennar hafa leitt til mótmæla gegn ríkisstjórn Georgíu. Allt frá þingkosningum í landinu árið 2020 hafa stjórnmál landsins verið í uppnámi.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …