Home / Fréttir / Geislavarnir Noregs útiloka ekki hættuna af kjarnorkuárás

Geislavarnir Noregs útiloka ekki hættuna af kjarnorkuárás

Rússneskur kjarnorkukafbátur í norðurhöfum.
Rússneskur kjarnorkukafbátur í norðurhöfum.

 

Geislavarnir Noregs hafa birt nýtt kjarnorkuógnarmat fyrir Noreg. Matið hefur breyst mikið undanfarin ár. Í hættumatinu segja geislavarnirnar að auknar líkur séu á að kjarnorku og geislavirkni verði beitt í illum tilgangi.

Nefnd eru dæmi um hættur af þessu tagi sem kynnu að steðja að Norðmönnum: hryðjuverk gegn kjarnorkustöðvum, fjölgun kjarnorkuknúinna skipa á norðurslóðum, flutningur á kjarnorkuvarningi með strönd Noregs, rekstur fljótandi kjarnorkuvera Rússa á norðurslóðum, meðferð á kjarnorkuúrgangi og aukin hætta af kjarnorkuverum um heim allan vegna aldurs þeirra.

Norskir sérfræðingar benda á að í skýrslunni hefði einnig mátt benda á nýjar kjarnorkuknúnar stýriflaugar Rússa og neðansjávar dróna sem fyrst verða reynd í tilraunaskyni í og á Barentshafi.

Á vefsíðunni Barents Observer segir að í um það bil 140 km fyrir austan landamæri Noregs og Rússlands séu um 30 kjarnorkuknúnir rússneskir kafbátar, floti borgaralegra kjarnorkuknúinna ísbrjóta, kjarnorkuknúið orrustu-beitiskip, kjarnorkuver og nokkrir geymslustaðir fyrir geislavirkan úrgang. Þá séu meira en 1.000 kjarnaoddar í eldflaugum á þessum slóðum í skotstöðu eða vopnabúrum.

Í nýju hættumatsskýrslu norsku geislavarnanna er athygli sérstaklega beint að hættunni af kjarnaoddunum. Þar segir:

„Norsk yfirvöld eru á ný þeirrar skoðunar að ekki sé óhugsandi að kjarnorkuvopnum verði beitt gegn Noregi eða í nágrenni Noregs.“

Bærinn Kirkenes er 10.000 manna byggð í 15 mínútna ökufjarlægð frá rússnesku landamærunum.

„Fyrir hendi er áætlun um hvernig eigi að senda viðvaranir til íbúanna á innan við fimm mínútum með sms og útvarpstilkynningum. Joð-töflur eru geymdar í öllum barnaheimilum og skólum,“ segir Magnus Mæland sem annast almannavarnamál á vegum sveitarfélagsins. Hann segir stjórn bæjarfélagsins fylgjast náið með hættumatsskýrslum af þessu tagi og grípa til þeirra ráða sem á hennar valdi séu.

Í hættumatsskýrslunni segir að kjarnorkuknúnum skipum bandamanna Norðmanna hafi fjölgað á norsku hafsvæði undanfarið. Fyrir fáeinum árum hafi skipin komið 10 til 15 sinnum til hafnar ár hvert en nú komi kjarnorkuknúnir kafbátar frá Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum 30 til 40 sinnum á ári í norskar hafnir.

Áður fóru bátarnir einkum til Haakonsvern flotastöðvarinnar skammt frá Bergen nú sigli þeir norðar og haldi sig við Norður-Noreg, einkum utan við Tromsø.

Í Norður-Noregi er ekki að finna hæfilegar hafnir fyrir kafbátana. Nokkrum árum áður en spenna jókst aftur á þessum slóðum seldi norska ríkisstjórnin kafbátalægi sitt í Olavsvern skammt frá Tromsø. Nú er það í einkaeign og notað í borgaralegum tilgangi,

Athygli beinist nú að því hvort unnt sé að nýta höfnina í Tønsnes rétt fyrir norðan Tromsø til áhafnaskipta og þjónustu við kafbáta bandamanna Norðmanna.

Í hættumatsskýrslunni segir að með fjölgun heimsókna kjarnorkuknúinna kafbáta aukist hættan á smáum eð stórum slysum í Noregi. Strand, árekstur, leki, eldsvoði eða bilun í kjarnakljúfi kalli á viðbrögð norskra yfirvalda. Norski herinn ákveður hvaða hafnir eru notaðar fyrir þessa kafbáta og þar eru gerðar strangar öryggisráðstafanir í samvinnu við norsku geislavarnirnar.

 

Heimild: Barents Observer.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …