Home / Fréttir / Geðheilsa Assange leyfir ekki framsal hans

Geðheilsa Assange leyfir ekki framsal hans

Julian Assange í réttarsalnum mánudaginn 4. janúar 2021.
Julian Assange í réttarsalnum mánudaginn 4. janúar 2021.

Hugsanlega verður Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, vefsíðu sem birti tölvubréf og skjöl sem leynt áttu að fara, verður hugsanlega frjáls maður miðvikudaginn 6. janúar 2021 eftir að breskur dómari úrskurðaði í London mánudaginn að hann yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna. Hann kynni að fremja sjálfsmorð í bandarísku fangelsi eins og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein.

Bandaríkjastjórn vill að Assange (49 ára) sé framseldur vegna þess að á árunum 2010 og 2011 birti hann þúsundir trúnaðarskjala sem tengdust styrjöldunum í Afganistan og Írak. Eftir að hafa barist gegn framsalskröfunni í 11 ár fékk hann stuðning bresks héraðsdómara, Vanessu Baraitser, mánudaginn 4. janúar 2021. Dómarinn sagði að vegna „geðheilsu“ hans væri ekki unnt að framselja Assange.

Dómarinn sagði að hvorki „miklir almannahagsmunir“ né samningsbundnar gagnkvæmar skuldbindingar milli Bandaríkjanna og Bretlands réttlættu að taka þá „umtalsverðu“ áhættu á sjálfsmorði yrði Assange afhentur bandarískum yfirvöldum.

Dómurinn er 132 bls. og þar er vitnað til álits fimm sálfræðinga sem greindu Assange með þunglyndi, merki um einhverfu og sjálfsmorðshugleiðingar.

Dómarinn sagði að samþykkti hún framsalskröfuna væri „raunveruleg hætta“ á að Assange yrði lokaður inni í há-öryggisfangelsi í Bandaríkjunum við hliðina á örgustu glæpamönnum. Við svo erfiðara aðstæður mundi geðheilsu Assange hraka og leiða hann til sjálfsmorðs. „Ég tel andlegt ástand Assange þannig að það yrði þrúgandi að framselja hann til Bandaríkjanna.“

Það létti yfir Assange þegar dómurinn var lesin en unnusta hans, Stella Morris, sem hefur alið honum tvo unga syni, grét í réttarsalnum. Sigurglaðir stuðningsmenn Assange fyrir utan Old Bailey dómshúsið sungu: Frelsið Assange.

Bandaríkjastjórn sagðist ætla að áfrýja dómnum. Assange verður að minnsta kosti í haldi fram til miðvikudags 6. janúar þegar dómari ákveður hvort honum verði sleppt úr haldi gegn tryggingu.

Í forsendum dómsins um að hafna framsali vísar dómarinn til þess að barnaníðingurinn Jeffrey Epstein tók eigið líf í fangelsinu Metropolitan Correctional Center í New York. Það sýndi að lífi Assange væri ógnað færi hann til Bandaríkjanna. Það væri ekki unnt að „koma í veg fyrir sjálfsmorð hefði fangi einbeittan ásetning um að fremja það“ auk þess mætti nefna fleiri dæmi um að mönnum hefði á undanförnum árum tekist að enda líf sitt á þennan hátt í bandarískum há-öryggisfangelsum.

Þegar dómurinn lá fyrir hvatti Stella Morris fráfarandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump, og verðandi forseta, Joe Biden, til að fella niður kærur á hendur Assange í Bandaríkjunum en þær eru samtals 18.

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, bauð Julian Assange pólitíst hæli í Mexíkó. „Assange er blaðamaður og á skilið að fá tækifæri. Ég styð að fallið sé frá kærum á hendur honum. Við munum vernda hann,“ sagði forseti Mexíkó.

Julian Assange var sjö ár í sjálfskipuðu stofufangelsi í sendiráði Ekvador í London til að komast hjá framsali til Svíþjóðar vegna ásakana um nauðganir. Frá þeim var fallið árið 2017 en breska lögreglan handtók hann árið 2019 þegar yfirvöld í Ekvador vildu ekki lengur veita honum skjólshús.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …