Home / Fréttir / Gasútflutningur hafinn frá Jamal-skaga – siglingar á Norðurleiðinni aukast

Gasútflutningur hafinn frá Jamal-skaga – siglingar á Norðurleiðinni aukast

 

Hér má sjá hvernig menn telja að ferðum gasskipa frá Jamal verði háttað.
Hér má sjá hvernig menn telja að ferðum gasskipa frá Jamal verði háttað.

Fyrsti farmurinn af kældu, fljótandi jarðgasi (LNG) var lestaður um borð í skipið Christophe de Margerie í höfninni Sabetta á Jamal-skaga við íshafsströnd Rússlands föstudaginn 8. desember. Vladimir Pútín Rússlandsforseti og orkumálaráðherra Sádí-Arabíu tóku þátt í hátíðlegri athöfn af þessu tilefni.

Þarna er ein mesta jarðgasvinnsla í heimi og talið að Jamal LNG geti framleitt gas sem jafngildi 4,6 milljarða tunnum af olíu. Þegar flutningsgetan verður fullnýtt er talið að flytja megin 16,5 milljónir lesta af LNG til Asíu og Evrópu ár hvert. Gasið er flutt með járnbrautarlestum og skipum.

Þegar mest var voru um 30.000 manns við mannvirkjagerð á svæðinu. Miðað er við að unnt verði að flytja 5,5 lesta á ári með járnbrautalestum. Alls verða smíðum 15 gasflutningaskip sem eru sjálfbær í ís og verða þau send bæði í austur og vestur frá höfninni í Sabetta á Jamal-skaga.

Það er kuldalegt við gasdælurnar við íshafið.
Það er kuldalegt við gasdælurnar við íshafið.

Jamal LNG fyrirtækið er 50,1% í eigu Novatek, sjálfstæðs rússnesks fyrirtækis, 20% í eigu franska fyrirtækisins Total, kínverska fyrirtækið CNPC á 20% og Silkileiðarsjóðurinn kínverski 9,9%.

Kínversk skipafélög hafa sent 12 skip eftir Norðurleiðinni (siglingaleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland) á árinu 2017. Skipin voru fimm á árinu 2016. Aldrei hafa fleiri skip sem ekki sigla undir rússneskum fána siglt þessa leið á einu ári segir Malte Humpert, blaðamaður High North News, á vefsíðunni miðvikudaginn 6. desember. Auk þessara kínversku var ísbrjótur Kínverja, Snjódrekinn, Xue Long, næstum þrjá mánuði í Norður-Íshafi og fór meðal annars Norðvesturleiðina fyrir norðan Kanada.

Kínverska risaskipafélagið China’s Ocean Shipping Company (COSCO) sendi skip fimm sinnum alla Norðurleiðina – þrjú í vestur frá Asíu til Evrópu og tvö í austur frá Evrópu til Asíu. Þá voru þrjú skip send með tækjabúnað til Sabetta á Jamal-skaga þar sem hafin er stórvinnsla á jarðgasi. Þá stunduðu olíufélögin China’s National Offshore Oil Corporation og China’s Oilfield Services Limited olíuleit í Kara-hafi.

Ekaterina Klimenko, sérfræðingur við SIPRI (Stockholm International Peace Research Institute), segir að Norðurleiðin sé opinberlega orðin hluti af stefnu Kínastjórnar undir heitinu Belti og braut.

Þrjú skip COSCO Tian Jian, Lian Hua Song, og Tian Fu fluttu varning í tengslum við vindmyllur til og frá Danmörku. Hvert þeirra var níu daga á siglingu á Norðurleiðinni. Þá sigldu kínversk skip einnig milli Kína og Þýskalands og var eitt þeirra átta daga á Norðurleiðinni til Cuxhavcn. Eitt skipið var aðeins sjö daga að sigla Norðurleiðina. Öll skipin styttu ferð sína um 10 daga með því að fara Norðurleiðina í stað þess að fara um Súez-skurð.

Rússar og Kínverjar vinna nú saman að því að nýta gas og olíu á norðurskautssvæðinu. Eftir að gasútflutningur er hafinn frá Jamal-skaga eykst enn umferð um Norðurleiðina.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …