Home / Fréttir / Gaslekinn liður í fjölþátta-stríði Rússa til að veikja stuðning Evrópu við Úkraínu

Gaslekinn liður í fjölþátta-stríði Rússa til að veikja stuðning Evrópu við Úkraínu

Gasflekkur á Eystrasalti 27. september 2022.

Með hraði er nú unnið að rannsókn á því hvort skemmdarverk séu að baki skyndilegum og óútskýrðum leka á tveimur rússneskum gasleiðslum á botni Eystrasalts, Nord Stream 1 og Nord Stream 2 sem sagt var frá þriðjudaginn 27. september Leiðslurnar skipta höfuðmáli þegar litið er til orkukreppunnar í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Anders Puck Nielsen, herfræðingur við danska Forsvarsakademiet, segir við DR, danska ríkisútvarpið að allt bendi til skemmdarverks.  Það sé hins vegar höfuðvandinn þegar tekist sé í fjölþáttastríði (d. hybridkrig) að erfitt sé að benda á ótvíræð sönnunargögn um hvað í raun hafi gerst.

Í fjölþáttastríði hverfa mörkin milli stríðs og ekki-stríðs segi herfræðingurinn og reynt er með blekkingum eða leynilegum aðgerðum að ná hernaðarlegum markmiðum.

Með því að valda gaslekanum vilji Rússar ýta undir ótta Evrópumanna um þann kulda sem bíði þeirra geti þeir ekki keypt rússneskt gas.

„Rússar nota gasið sér i Úkraínustríðinu sem tæki til að þrýsta á Evrópu í því skyni að grafa undan vilja Evrópubúa til að leggja Úkraínumönnum lið,“ segir danski herfræðingurinn.

Hann bendir á að lekinn verður einmitt sama dag og Mette Fregderiksen, forsætisráðherra Dana, tekur þátt í því að opnað er fyrir gas frá Noregi til Póllands um gasleiðsluna Baltic Pipe.

„Við stöndum í dag frammi fyrir skemmdarverki, við þekkjum ekki öll smáatriði í atburðarásinni en við sjáum greinilega að unnið hefur verið skemmdarverk sem tengist næsta skrefi í stigmögnun stríðsins í Úkraínu,“ sagði pólski forsætisráðherrann við athöfnina sem efnt var til þegar nýja leiðslan á milli Noregs og Póllands var opnuð.

Danski herinn segir að orrustuþotur hans af F-16 gerð hafi komið auga á gasflekki á yfirborði sjávar skammt frá Borgundarhólmi. Siglingamálastjórnir Danmerkur og Svíþjóðar hafa sett bann við siglingum og flugi á ákveðnum svæðum.

Hætta er meðal annars talin á að skip kunni að missa flotmagn sinn vegna gass í hafinu og sökkva sigli þau inn í gasflekki.

Í tilkynningu frá sendiráði Rússa í Danmörku segir að ekki sé „þörf á að vera með vangaveltur um ástæður lekans áðu en opinberar niðurstöður birtast“.

Anders Puck Nielsen frá Forsvarsakademiet segist ástæðulaust að óttast að Eystrasaltið breytist í átakasvæði.

„Ástandið er ekki á nokkurn hátt þannig að til stríðs dragi milli Danmerkur og Rússlands vegna þess á Eystrasalti. Hitt er annað mál að óvissa um aðgang að orku hefur aukist,“ segir hann og efast um að orkuverð ráði úrslitum um hvort Evrópubúar standi áfram með Úkraínumönnum. Þá sé einnig til hins að líta að Bandaríkjamenn styðji Úkraínustjórn áfram hvað sem orkuverði í Evrópu líði.

Nord Stream 1 og Nord Stream 2 liggja nærri Borgundarhólmi. Svörtu punktarnir sýna hvar leiðslurnar leka.

Um báðar leiðslurnar, Nord Stream 1 og Nord Stream 2, hefir verið rætt í tenglsum við orkustríð ráðamanna í Evrópu og Moskvumanna sem magnast stig af stigi. Orkuverð hefur hækkað upp úr öllu valdi til skaða fyrir hagkerfi og orkubúskap Vesturlanda.

Þegar lekarnir fundust fluttu leiðslurnar ekkert gas til Evrópu. Vegna stríðsins í Úkraínu höfðu Rússar skrúfað fyrir gasið. Gas var þó í báðum leiðslum þótt það rynni ekki til neytenda.

Lekinn er talinn binda enda á allar vonir um að gas fáist um Nord Stream 1 leiðsluna til Evrópu fyrir byrjun vetrar.

Talsmaður rekstrarfyrirtækis Nord Stream sagði að aldrei fyrr hefði orðið tjón á þremur stöðum á leiðslunum samtímis.

Rússar skrúfuðu fyrir gasstreymi um Nord Stream 1 að hluta áður en þeir lokuðu alveg fyrir það nú í ágúst 2022. Fallið var frá áformum um að opna Nord Stream 2 þegar Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar.

Gasverð í Evrópu hækkaði strax um allt að 10% þegar fréttir af gaslekanum bárust þriðjudaginn 27. september. Verðið er ekki orðið eins rosalega hátt og það varð fyrr á árinu en er stöðugt um 200% hærra en í byrjun september 2021.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …