Home / Fréttir / Gasleiðslan frá Rússlandi til Þýskalands veldur vanda innan ESB – Danir bíða átekta

Gasleiðslan frá Rússlandi til Þýskalands veldur vanda innan ESB – Danir bíða átekta

onlnynorthstream-gasledning-02

Leiðslunni frá Narvaflóanum skammt frá St. Pétursborg í Rússlandi um Eystrasalt og danskt landgrunn við Borgundarhólm til Þýskalands er ætlað að auka gassölu Rússa til Evrópumanna. Danska orkustofnunin hefur ekki tekið afstöðu til þess hluta leiðslunnar sem fellur undir eftirlitssvið hennar.

Mary Warlick, sérlegur sendimaður frá orkudeild bandaríska utanríkisráðuneytisins, hefur varað Dani við afleiðingum þess að Rússar auki yfirráð sín á evrópska orkumarkaðnum.

Með nýju leiðslunni um Eystrasalt, Nordstream 2, og leiðslu frá suðurhluta Rússlands um Svartahaf til Tyrklands geta Rússar selt gas til Evrópu án þess að það fari um leiðslur í Úkraínu

Við þetta tapa Úkraínumenn um 2 milljörðum dollara árlega vegna tekjumissis þegar leiðslum um land þeirra verður lokað að sögn Mary Warlick sem ræddi við blaðamann Jyllands-Posten í síma frá Washington. Hún segir jafnframt að með Nordstream 2 fari 80% af gassölu Rússa um eina leið sem dragi úr öryggi Evrópuríkja því að unnt sé að loka leiðslunni á einum stað.

Mary Warlick var nýlega í Osló, Ríga, Bratislava og Vín þar sem hún hitti utanríkisráðherra, orkumálaráðherra og fulltrúa orkufyrirtækja. Samstarfsmenn hennar hafa verið í Berlín, Brussel og Kaupmannahöfn.

Með þessu vill Bandaríkjastjórn leggja sitt af mörkum til að jarða hugmyndina um Nordstream 2. Danir geta stöðvað lagningu leiðslunnar um Eystrasalt. Umhverfissjónarmið ráða mestu þegar opinber leyfi eru gefin til slíkra framkvæmda. Að sögn JyllandsöPosten er vandi Dana  í þessu tilviki er að árið 2009 leyfðu þeir Nordstream 1 og nýja leiðsla á að fara sömu leið og hún. Þess vegna sé erfitt nú að finna umhverfisrök gegn nýju leiðslunni.

Rússneska ríkisorkufyrirtækið Gazprom hefur skipulagt verkefnið en 50% af fjármögnuninni kemur frá orkufyrirtækjum í Austurríki, Tyrklandi. Hollandi og Frakklandi.

Innan ESB eru skiptar skoðanir um verkefnið og þess vegna er talið að innan skamms leggi framkvæmdastjórn ESB til að það verði í hennar höndum að semja um verkefnið fyrir hönd allra ESB-ríkja við rússnesk stjórnvöld.

Framganga Gazprom bendir til að fyrirtækið telji fullvíst að leyfi fáist fyrir leiðslunni og Nordstream 2 flytji gas árið 2019 eins og til hefur staðið. Bandaríkjamenn telja á hinn bóginn líklegt að viðræður fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB við rússnesk stjórnvöld tefji fyrir verkefninu enda sé margt við það að athuga. Þar á meðal samrýmist það ekki orkustefnu ESB því að það stuðlar ekki að aðgangi að nýjum orkugjöfum og leiðir til of mikilla ítaka eins orkuseljanda.

Mary Warlick bendir á að árið 2015 var 35% af innfluttri orku í Evrópu frá Rússlandi. Í 13 löndum er allt að 75% af orkuþörfinni fullnægt með gasi frá Rússlandi.

Hún segir að þetta tak á orkumarkaðnum gefi Rússum færi á að okra á viðskiptavinum sínum eða beita þá pólitískum þrýstingi. Nefnir Warlick þar til dæmis Litháen. Árið 2014 var opnuð hafnaraðstaða í Litháen til að taka á móti jarðgas-skipum (LNG-skipum). Þar með naut Gazprom ekki lengur einokunar og ákvað að lækka gasverðið um 20%.

Sjónarmið Warlick eiga hljómgrunn hjá mörgum meðal annars Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB í Brussel. Hann sendi nýlega að bréf til Jean-Claudes Junckers, forseta framkvæmdastjórnar ESB, þar sem hann segir að lagning gasleiðslunnar „þjóni ekki hagsmunum Evrópu“ og muni gera Úkraínu „háða Rússum“. Fyrir einu ári vöruðu stjórnvöld níu ESB-landa – Króatíu, Tékklands, Ungverjalands, Lettland, Eistlands, Litháens, Póllands. Slóvakíu og Rúmeníu – einnig við verkefninu í sameiginlegu bréfi.

Fram til þessa hafa Þjóðverjar stutt lagningu gasleiðslunnar með þeim rökum að hér sé ekki um annað en venjuleg viðskipti að ræða meðal annar með aðild fimm evrópskra orkufyrirtækja. Beiti Þýskaland þrýstingu kann að verða erfitt fyrir framkvæmdastjórnina að fá aukinn meirihluta ESB-ríkja að styðja tillögu sína. Þýsk yfirvöld hafna því einnig að Nordstream 2 falli undir reglunum í þriðja „orkupakka“ ESB af því að gasleiðslan sé á landgrunni einstakra ríkja en ekki á landi. Þessi ágreiningur innan ESB hefur þegar tafið fyrir verkefninu.

Mary Warlick er bjartsýn um að sjónarmið hennar njóti stuðnings. Þetta hefur hún orðið vör við á ferð sinni um Evrópu þar sem stjórnvöld ýmissa landa lýsa áhyggjum yfir áhrifum Nordstream 2 á þjóðaröryggi sitt. Svíar og Lettar hafa hafnað því að framkvæmdaaðilar Nordstream 2 fái aðgang að mikilvægum innviðum vegna lagningar leiðslunnar. Hún fullyrðir einnig að dönsk stjórnvöld vinni að nýrri löggjöf sem gefi þeim aukið svigrúm til að láta öryggissjónarmið njóta sín við mat á slíkum framkvæmdum.

Verði gasleiðslan lögð ætla Bandaríkjamenn að halda áfram stuðningi sínum við aðrar lausnir í orkumálum fyrir Evrópu. Hafa Bandaríkjamenn meðal annars í huga að senda LNG-tankskip til Evrópu. Þau geti stuðlað að stöðugleika á markaðnum. Nú þegar sé verið að skipuleggja LNG-hafnaraðstöðu í Póllandi, Úkraínu, Króatiu og Grikklandi.

Sömu ástæður eru fyrir stuðningi Bandaríkjamanna við suðlægu gasleiðsluna sem ef til vill má nota frá árinu 2019 til að flytja frá Kaspíahafi til Evrópu auk Eystrasaltsleiðslu sem fer um Danmörku og flytur í fyrsta sinn norskt gas beint til Póllands. Þá er einnig lögð áhersla á að bæta flutningslínur á milli ESB-landanna.

Þessi stefna Bandaríkjastjórnar var mótuð af Barack Obama-stjórninni og hefur ekki breyst í tíð Donalds Trumps.

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …