Home / Fréttir / Gagnsókn Úkraínuhers síður en svo misheppnuð að mati bandaríska herráðsformannsins

Gagnsókn Úkraínuhers síður en svo misheppnuð að mati bandaríska herráðsformannsins

Mark Milley herráðsformaður, Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Oleksíj Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu.

Gagnsókn Úkraínuhers gegn Rússum er síður en svo misheppnuð en við blasa átök sem verða langvinn og blóðug sagði háttsettur bandarískur hershöfðingi þriðjudaginn 18. júlí.

Herráðsformaður Bandaríkjanna, Mark Milley hershöfðingi, sagði þegar hann var spurður hvort gagnsóknin hefði misheppnast í Úkraínu til þessa. Hann svaraði: „Hún er langt frá því að hafa misheppnast. Ég tel að enn sé alltof snemmt að halda því fram.“ Hann sagði að Úkraínuher myndi fara sér hægt.,

„Ég tel að enn verði mikið barist og ég stend við það sem við höfum áður sagt: Þetta tekur langan tíma. Þetta verður erfitt. Þetta verður blóðugt,“ sagði Milley við blaðamenn.

Frá því að sókn Úkraínuhers hófst í júní hefur hann náð nokkrum þorpum undir sig í suðri og landsvæði umhverfis rústabæinn Bakhmut í austri. Hann hefur þó ekki enn gert atlögu í því skyni að brjótast í gegnum öflugar varnarlínur Rússa.

Úkraínustjórn segir að hún vilji að her sinn fari sér hægt til að forðast mannfall við rússnesku varnarlínurnar sem eru að baki stórum jarðsprengjusvæðum.  Á þessari stundu séu skotmörkin mannvirki Rússa, flutningaleiðir og stjórnstöðvar. Rússar segja að gagnsóknin frá Úkraínu hafi mistekist.

Þegar sex vikur eru liðnar frá því að Úkraínuher hóf gagnsóknina í austri og suðri hafa Rússar hafið sókn með landher sínum í norðaustri.

Í nokkra mánuði hafa Rússar einbeitt sér að því að styrkja varnarlínur sínar og búa um herafla sinn í niðurgröfnum byrgjum og styrktum varnarmannvirkjum að baki þéttriðnu jarðsprengjubelti. Í gegnum þetta verða Úkraínumenn að brjótast til að hrekja Rússa á brott.

Milley sagði að margskonar stríðsátök hefðu verið sviðsett til að sjá fyrir hvernig Úkraínuher mundi sækja fram, pappírsátök væru hins vegar annað en raunveruleikinn sjálfur þegar við blöstu jarðsprengjusvæði, gaddavír og rússneskar skotgrafir. Enginn sæi fyrir hvað gerðist í raunverulegu stríði. Þar ríkti ótti, þoka og viðnám.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að herafli þess hefði sótt 2 km fram í nágrenni Kupianks, járnbrautarmiðstöð sem Úkraínuher náði í sókn sinni í fyrra. Úkraínustjórn viðurkenndi að staðan á svæðinu þar væri „flókin“.

Milley ræddi við blaðamenn eftir fund sinn með Oleksíj Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu. Fyrir utan stöðuna í stríðinu hefði einnig verið rætt um nauðsyn þess að auka framleiðslu skotfæra og þjálfun Úkraínumanna á F-orrustuþotum og afhendingu flugvélanna til Úkraínu.

Úkraínski varnarmálaráðherrann sagði eftir fundinn 18. júlí að mikil þörf væri fyrir tafarlausa aðstoð vegna skorts á skotfærum og vígtólum. „Áherslan er á loftvarnir, skotfæri og brynvarnir,“ sagði Teznikov á Twitter.

 

Heimild: Reuters.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …