
Stjórnarformaður annars stærsta olíuframleiðanda Rússlands er sagður hafa dáið þegar hann féll út um glugga á sjúkrahúsi. Nýlega gagnrýndi hann innrás Rússa í Úkraínu.
Ravil Maganov, stjórnarformaður Lukoil, dó fimmtudaginn 1. september eftir að hafa hrapað til jarðar ofan af sjöttu hæð Klíníska miðsjúkrahússins í Moskvu segir rússneska Interfax-fréttastofan.
Sjúkrahúsið þjónar rússnesku stjórnmála- og viðskiptaelítunni. Þaðan fengu engar frekari upplýsingar um atvikið.
Á vefsíðu Lukoil birtist tilkynning þar sem sagði: „Með miklum trega skal skýrt frá því að Ravil Maganov, stjórnarformaður PSJC LUKoil, andaðist eftir alvarleg veikindi. Ravil Maganov lagði ekki aðeins gífurlega mikið af mörkum til þróunar fyrirtækisins heldur allrar olíu- og gasvinnslu í Rússlandi.“
Fréttamiðillin Euronews segir að Maganov sé annar forráðamanna Lukoils sem deyi við dularfullar aðstæður á undanförnum mánuðum. Andlát Alexanders Subbotins úr framkvæmdastjórn Lukoils er til rannsóknar hjá lögreglu.
Í mars gagnrýndi Maganov opinberlega innrás Rússa í Úkraínu. Þá sagði í bréfi til hlutafa í Lukoil:
„Við viljum tafarlaust hlé á vopnuðum átökum og styðjum af einlægni að deilum ljúki með viðræðum og eftir diplómatískum leiðum,“ sagði í bréfi frá Lukoil á þeim tíma til hluthafa sinna.
Maganov starfaði hjá Lukoil frá 1993, skömmu eftir að fyrirtækið hóf starfsemi sína. Hann var yfir olíuhreinsun, framleiðslu og þróun olíuvara. Hann varð stjórnarformaður árið 2020
Í heiminum eru fáir olíu- og gasframleiðendur stærri en Lukoil. Rúmlega 2% af hráolíu i heiminum kemur frá fyritækinu megi marka vefsíðu þess. Árstekjur þess voru 131 milljón evra árið 2021.
Nail bróðir Ravils Maganovs stjórnar miðlungsstóra rússneska olíuframleiðslufyrirtækinu Tatneft.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið fékk miðvikudaginn 31. ágúst til að gera upptæka flugvél Lukoils sem metin er á 45 milljón evrur.