Home / Fréttir / Gagnrýnandi Rauða-Kína sigrar á Tævan

Gagnrýnandi Rauða-Kína sigrar á Tævan

William Lai fagnar sigri í forsetakosningunum.

William Lai, gagnrýnandi kommúnistastjórnarinnar í Kína, sigraði í forsetakosningunum á Tævan laugardaginn 13. janúar. Því er spáð að sigur hans verði enn til að auka spennu milli stjórnvalda í Peking og Washington á Suður-Kínahafi.

Á vefsíðunni Politico segir að líta megi á kosningarnar og úrslitin sem fyrstu geopólitísku vatnaskilin á árinu 2024 í átökum milli Bandaríkjamanna og Kínverja um svæðisbundin áhrif. Kínverskir ráðamenn lýstu kosningunum sem vali á milli stríðs og friðar og lögðu áherslu á að óhjákvæmilega yrði eyjan felld undir vald þeirra sem ráða á meginlandi Kína.

William Lai (64 ára) var varaforseti Tævan þegar hann gaf kost á sér sem forseti. Í kosningunum sigraði Lýðræðissinnaði framsóknarflokkurinn (DPP) í þriðja sinn í röð sem ekki hefur gerst áður í sögu Tævans. Kínastjórn lítur á flokkinn sem höfuðandstæðing sinn vegna kröfu hans um fullveldi fyrir Tævan og náin tengsl hans við Bandaríkin, Evrópu og aðra sem styðja lýðræðislega stjórnarhætti. Hætta er talin á því að kínverska hernum verði nú gefin fyrirmæli um að beita stjórn Tævans þrýstingi í lofti og á sjó eins og gert var þegar Nancy Pelosi, þáv. forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, heimsótti Tævan árið 2022.

William Lai sagði í sigurávarpi sínu á kjördag að hann vildi eiga samskipti við Xi Jinping forseta og stjórn hans í Kína enda yrðu þau reist á gagnkvæmri virðingu og jafnrétti. Hann hét því að samtal kæmi í stað árekstra. Sem forseti bæri hann ábyrgð á að viðhalda friði og stöðugleika á Tævansundi. Hann mundi virða ákvæði stjórnarskrár lands síns og ekki raska samskiptunum á sundinu.  Hann mundi einnig vernda íbúa lands síns gegn stöðugri ásælni og hótunum Kínverja.

Í Peking var lítið gert úr gildi kosninganna og þeim lýst sem héraðskosningum innan Kína. Hvað sem úrslitunum liði breyttist ekki sú staðreynd að Tævan væri hluti Kína og í heiminum væri aðeins „eitt Kína“, sagði upplýsingafulltrúi kínverska sendiráðsins í London.

William Lai fékk rúmlega 40% atkvæða, Hou Yu-ih, frambjóðandi Kuomintang (KMT) flokksins sem hallast að Kína fékk 33,5%.

Í Peking geta ráðamenn huggað sig við að DPP missti meirihluta sinn í þingi Tævans. Lai þarf því að semja við andstæðinga sína til að fá mál samþykkt á þinginu.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …