Home / Fréttir / Gagnkvæmar ásakanir vegna Úkraínu

Gagnkvæmar ásakanir vegna Úkraínu

Valdimir Pútin og Dmitríj Peskov.

Talsmaður Kremlverja sakar ráðamenn á Vesturlöndum um „sýndarmennsku“ til að auka á spennu þegar þeir gefi til kynna að rússneskur her kunni að ráðast á nágrannaríkið Úkraínu.

Rætt var við talsmanninn, Dmitríj Peskov, í rússneskri ríkissjónvarpsstöð sunnudaginn 21. nóvember. Hann sagði rússneska ráðamenn ekki geta útilokað „ögranir“ á svæðinu.

Sama sunnudag birtist viðtal við Kjírjilo Budanov, forstjóra leyniþjónustu her Úkraínu, í blaðinu Military Times. Hann fullyrti að Rússar hefðu safnað saman 92.000 manna herliði við landamæri Úkraínu og þeir byggju sig undir að ráðast á Úkraínu snemma í febrúar 2021.

Budanov sagði að Rússar hefðu fjölgað hermönnum og hergögnum á Krímskaga sem þeiir innlimuðu á ólögmætan hátt frá Úkraínu árið 2014. Þá hefðu þeir flutt skammdrægar skotflaugar og önnur vopn á svæði nærri landamærum Úkraínu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði laugardaginn 20. nóvember að ráðamenn í Bandaríkjunum og Evrópu hefðu áhyggjur af þessum hernaðarumsvifum Rússa.

„Kynt er undir þessa móðursýki af sýndarmennsku,“ sagði Peskov. „Við erum sakaðir um beita herafla okkar á einhvern óeðlilegan hátt á eigin landi okkar af þeim sem hafa flutt herafla sinn langar leiðir yfir landið. Það er Bandaríkjamönnum.“

Hann sakaði NATO um að safna kröftum í „hernaðarlegan hnefa“ skammt frá rússnesku landamærunum og hvatti NATO-ríkin til að hætta að leggja Úkraínumönnum til vopn.

Skip með tvo endurgerða eftirlitsbáta frá bandarísku strandgæslunni sigldi inn á Svartahaf í áttina að Úkraínu 20. nóvember. Fyrr á árinu fengu Úkraínumenn skotfæri og Javelin-gagnskriðdrekaflaugar frá Bandaríkjamönnum.

Fyrir fáeinum dögum birti The New York Times grein um að sérfræðingar í leyniþjónustum Bandaríkjanna og Evrópuríkja teldu líklegt að Vladimir Pútin hefði áform um að beita hervaldi gegn Úkraínu annaðhvort til að leggja undir sig stærri hluta landsins eða til að fella stjórn landsins í Kíev og koma þar leppum Rússa til valda.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …