Home / Fréttir / G20 ríkjahópurinn klofnar vegna Úkraínu – Indverjum mistókst málamiðlun

G20 ríkjahópurinn klofnar vegna Úkraínu – Indverjum mistókst málamiðlun

Frá utanríkisráðherrafundi G20 ríkjanna í Delí.

Utanríkisráðherrar G20 hópsins luku fundi sínum í Delí, höfuðborg Indlands, fimmtudaginn 2. mars. Spenna vegna stríðsins í Úkraínu setti mikinn svip á umræður þótt forsætisráðherra Indlands hafi hvatt fundarmenn til að leggja þær til hliðar að þessu sinni.

Vegna ágreinings um Úkraínu komust ráðherrarnir ekki að sameiginlegri niðurstöðu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að „tilefnislaust og óréttlætanlegt“ stríð Rússa hvíldi eins og mara á fundarmönnum.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sakaði Vesturlönd um „fjárkúgun og hótanir“.

„Við reyndum en bilið milli landanna var of stórt,“ sagði S Jaishankar, utanríkisráðherra Indlands.

Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands, hafði áður haldið fram málstað þróunarríkjanna og sagt að fundarmenn bæru ábyrgð gagnvart þeim.

Í G20 hópnum eru 19 auðugustu ríki heims auk Evrópusambandsins. Um 85% af heimsbúskapnum má rekja til ríkjanna og þar búa tveir þriðju hlutar heildarfjölda jarðarbúa.

Auk utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands er Qin Gang, utanríkisráðherra Kína, einnig meðal fundarmanna.

„Við komum saman þegar djúpur klofningur ríkir í heimsmálum,“ sagði Modi. „Eftir margra ára framfaraskeið er nú hætta á að við verðum að draga í land þegar til markmiða um sjálbærni er litið. Mörg þróunarríki glíma við ósjálfbærar skuldir á sama tíma og þau reyna að tryggja sér fæðu- og orkuöryggi. Þau eiga einnig undir högg að sækja vegna hlýnunar jarðar sem rekja má til ríkari landanna. Það er vegna þessa sem Indverjar hafa á forsetastóli í G20 reynt að tala röddu vanþróaðra landa (e. Global South).“

BBC segir að aldrei þessu vant hafi Modi talað á ensku sem sýni best hve mikla áherslu hann hafi lagt á að allir tækju orð sín alvarlega. Hann nefndi stríðið í Úkraínu ekki beint en viðurkenndi hins vegar að geópólitísk spenna myndi setja svip á umræðurnar.

Undir forystu sinni völdu Indverjar G20 hópnum slagorðið: Ein jörð, ein fjölskylda, ein framtíð.

Í fyrri viku mistókst fjármálaráðherrum G20 ríkjanna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um lokayfirlýsingu á fundi sem þeir héldu í Bangalore á Indlandi.

Indverjar fengu það hlutverk að lýsa skoðun fundarstjóra á því sem gerðist og þeir sögðu að „mismunandi mat“ hefði verið lagt á stöðuna í Úkraínu. Utanríkisráðherrafundinum lauk einnig án sameiginlegrar yfirlýsingar.

Indverjar hafa lagt sig fram um að sigla á milli skers og báru vegna ástandsins og spennunnar sem leiðir af stríðinu í Úkraínu. Þeir hafa ekki látið undan þrýstingi Rússa án þess þó að gagnrýna þá beint. Rússar eru stærstu seljendur vopna til Indlands.

Innan Sameinuðu þjóðanna hafa Indverjar hvað eftir annað setið hjá við atkvæðagreiðslur um tillögur gegn stríðinu í Úkraínu.

Þeir halda einnig uppi vörnum fyrir aukinn innflutning á olíu frá Rússlandi. Af hálfu Bandaríkjamanna eru þeir ekki gagnrýndir fyrir hann enda greiði þeir ekki hærra verð en svo að það falli undir verðþakið sem ákveðið var að frumkvæði Vesturlanda.

Í yfirlýsingum varðandi Úkraínu hafa Indverjar á hinn bóginn tekið undir að mikilvægt sé að virða sáttmála Sameinuðu þjóðanna, alþjóðalög og virða fullveldi og landsyfirráðarétt ríkja.

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …