
Donald Trump notaði fyrsta dag sinn sem forseti Bandaríkjanna, laugardaginn 21. janúar, til að ráðast harkalega á fjölmiðlamenn og bera lof á starfsmenn CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, og heita þeim 1.000% stuðningi.
Trump ákvað að höfuðstöðvar CIA yrðu fyrsta opinbera stofnunin sem hann heimsækti eftir embættistöku sína. Í ræðu sem hann flutti þar sagði hann blaðamenn „meðal óheiðarlegustu manna í jarðríki“. Um 1,5 milljón manna hefði verið við embættistöku sína föstudaginn 20. janúar þótt fjölmiðlar nefndu töluna 250.000.
Í frétt The New York Times (NYT) um heimsókn Trumps til CIA segir að hann hafi farið með rangt mál í ræðu sinni þegar hann hafi lýst aðdáun sinni á leyniþjónustunni því að hann hefði fyrir rúmri viku líkt starfsháttum hennar við það sem gerðist í Þýskalandi á tímum nazista. NYT segir myndir afsanna fullyrðingu Trumps um mannfjöldann við embættistökuna.
Eftir heimsókn Trumps til CIA efndi Sean Spicer, blaðafulltrúi forsetans, til fundar með fjölmiðlamönnum í Hvíta húsinu þar sem Spicer tók blaðamenn á beinið að gaf ýmsar „falskar yfirlýsingar“ segir NYT. Spicer sagði fjölmiðla vísvitandi fara með rangar tölur um fjölda fólks við innsetningarathöfnina, þeir hefðu á þann hátt reynt að ýta undir sundrung á sama tíma og Trump reyndi að sameina þjóðina, nýja stjórnin mundi gera þá ábyrga.
Í frétt NYT segir:
„Yfirlýsingar nýja forsetans og talsmanns hans voru gefnar þegar hundruð þúsunda manna mótmæltu Trump, mannhaf sem virtist drekkja fjöldanum sem kom saman daginn áður þegar hann var settur í embætti. Þetta var skýrt dæmi um fúkyrðaflaum og gremju við upphaf nýs stjórnartímabils forseta, á degi sem starfsmenn í Hvíta húsinu nota venjulega til að gefa tón til þjóðarsamstöðu og trausts í garð nýs leiðtoga.
Þess í stað birtust forsetinn og liðsmenn hans gráir fyrir járnum og í vörn þegar þeir gáfu til kynna að herskár þrætutónn Trumps í kosningabaráttunni mundi enn ráða eftir að hann hefði náð að komast í æðsta embætti þjóðarinnar.“
Donald Trump flutti 15 mínútna ræðu yfir rúmlega 300 starfsmönnum CIA. Hann bar mikið lof á starfsmennina en varði miklum tíma ræðunnar til að skamma fjölmiðlamenn fyrir að reyna að koma illu af stað milli sín og CIA.
„Ég vil aðeins láta ykkur vita að ég stend svo að baki ykkur,“ sagði Trump. Efaðist einhver um það væri það blaðamönnum að kenna. Trump sagði:
„Ég á í stöðugu stríði við fjölmiðla. Þeir eru meðal óheiðarlegustu manna í jarðríki og þeir létu eins og ég ætti í útistöðum við leyniþjónustustofnanirnar. Ástæðan fyrir að ég kem til ykkar fyrst allra er einmitt hið gagnstæða. Ég elska ykkur. Ég ber virðingu fyrir ykkur, ég ber meiri virðingu fyrir ykkur en öllum öðrum.“
Þegar hann ræddi fjölda fólks á götum úti í Washington við embættistökuna sagði hann fjölmiðla hafa birt myndir af „auðu svæði“ til að sýna fámenni. „Við stóðum þá að verki, þeir fá að gjalda þess dýru verði,“ sagði forsetinn.
Spicer sagði að fleiri hefðu komið til að fylgjast með innsetningu Trumps en nokkurri annarri í sögunni. NYT segir myndir sýna að þetta sé rangt. Spicer sagði hins vegar að myndir sem teknar hefðu verið af mannfjöldanum við athöfnina hefðu af ásetningi verið birtar á þann veg að gera sem minnst úr mannfjöldanum fyrir framan þinghúsið í Washington. NYT segir hann ekki hafa birt neina sönnun fyrir máli sínu.
„Þessar tilraunir til að draga úr hrifningunni af innsetningunni eru til skammar og rangar,“ sagði Spicer. Hann ávítaði einnig blaðamann fyrir að hafa ranglega sagt föstudaginn 20. janúar að Trump hefði fjarlægt brjóstmynd af dr. Martin Luther King jr. úr forsetaskrifstofunni og sagði hann mistök blaðamannsins, sem voru leiðrétt í flýti, „svívirðileg“.
NYT segir að laugardaginn 21. janúar hafi Trump sagt ráðgjöfum sínum að hann vildi að „óheiðarlegur fréttaflutningur“ yrði tekinn föstum tökum. Honum hafi verið efst í huga það sem fréttamaður NYT hafi sagt á Twitter þegar hann birti hlið við hlið myndir af fjöldanum sem hyllti Trump og þeim sem hylltu Obama árið 2009. Flestir ráðgjafa Trumps hafi hins vegar ráðlagt honum að einbeita sér að embættisskyldum sínum fyrsta dag sinn sem forseti.
Hvað sem þessu leið hafi hann stundum farið um víðan völl í ræðu sinni hjá CIA. Hann hafi meðal annars sagt að honum liði eins og hann væri ekki eldri en 39 ára (hann er 70 ára); og fullvissaði þá sem efuðust um gáfur hans með því að segja: „Ég er klár maður.“ Hann stærði sig einnig af því hve margir leyniþjónustumenn hefðu stutt sig:
„Ef til vill hafa allir sem eru hér í þessu herbergi kosið mig, ég bið þó ekki um að þeir sem gerðu það rétti upp höndina. Við erum öll á sömu bylgjulengd, góðir hálsar.“