Home / Fréttir / Fyrsta kornskipið heldur úr höfn frá Odessa

Fyrsta kornskipið heldur úr höfn frá Odessa

Kornflutningaskipið Razoni siglir undir fána Sierra Leone.

Úkraínumenn, Rússar og fulltrúar ESB fagna því mánudaginn 1. ágúst að fyrsta skipið með korn frá Úkraínu lagði þann daginn úr höfn frá Odessa. Er það í fyrsta skipti síðan innrás Rússa hófst 24. febrúar sem korn er flutt sjóleiðis um Svartahaf frá höfn í Úkraínu. Um borð í skipinu Razoni eru 26.000 tonn af korni. Skipið siglir fyrir til Istanbúl í Tyrklandi og síðan þaðan til Líbanons.

Ferð skipsins með kornfarminn má rekja til þess að Tyrkir og fulltrúar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) beittu sér fyrir því 22. júlí að Úkraínumenn og Rússar gengu frá samkomulagi um útflutning á korni og tilbúnum áburði.

Dmjitro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði að um heim allan væri „mönnum létt“ vegna útflutningsins á korninu, einkum þó þar sem fólk óttaðist hungursneyð vegna siglinga- og útflutningsbannsins.

Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, sagði fréttamönnum að rússnesk stjórnvöld fögnuðu brottför skipsins frá Odessa hún „væri mjög jákvæð, veitti gott tækifæri til að láta reyna á ágæti Istanbúl-samkomulagsins“. „Við skulum vona að allir aðila standi að framkvæmd samkomulagsins og ákvæði þess virki vel,“ sagði Peskov.

Framkvæmdastjórn ESB sagði um gott fyrsta skref að ræða til að styrkja fæðuöryggi í heiminum sem grafið hefði verið undan með „ólögmætri árás Rússa“.

Tyrkneska varnarmálaráðuneytið staðfesti brottför skipsins með orðsendingu um að flutningaskipið Razoni, undir fána Sierra Leone hefði haldið úr Odessa-höfn 1. ágúst kl. 08.20 að staðartíma (05.30 að ísl. tíma) á leið til Líbanons. Brottfarir annarra skipa yrðu síðan í samræmi við samkomulagið frá 22. júlí. Skipið yrði þriðjudaginn 2. ágúst í Istanbúl þar sem það yrði rannsakað áður en siglt yrði áfram til Líbanons.

Með korn- og áburðarsamkomulaginu náðu Rússar og Úkraínumenn í fyrsta sinn frá því að innrásin hófst 24. febrúar saman um meiriháttar samkomulag. Vegna innrásarinnar hefur heimsmarkaðsverð á landbúnaðarafurðum hækkað og hungur sækir að íbúum fátækustu landa heims.

Fulltrúar stjórnanna í Kyív og Moskvu skrifuðu hvor um sig undir aðskilin skjöl með texta samkomulagsins. Úkraínumenn kröfðust þessarar lausnar þar sem þeir vildu ekki að undirritun neins fulltrúa síns yrði á skjali með rússneskri undirritun.

Í samkomulaginu er mælt fyrir um „öruggar leiðir“ fyrir flutningaskip á Svartahafi og muni hvorugur aðili ráðast á skip á þeim leiðum.

Horfið var frá hugmyndum að hreinsa tundurdufl úr Svartahafi. Þau eru flest lögð af Úkraínumönnum til að verja strendur lands þeirra. Talið var að það tæki of langan tíma að hreinsa tundurduflin. Í stað þess var ákveðið að úkraínskir lóðsar sæju til þess að skipin kæmust örugg ferða sinn á hafsvæðum Úkraínu.

Skoða einnig

Öflugri varnir á norðurslóðum ræddar í St. John´s

Forráðamenn varna sex Norðurskautsríkja hittust í St. John‘s á Nýfundalandi mánudaginn 8. ágúst til að …