
Fyrrverandi settur forstjóri CIA segir að Donald Trump sé „grandalaus útsendari“ Rússa. Michael Morell sem var settur forstjóri og varaforstjóri CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, 2010 til 2013 segir að Vladimir Pútín hafi „nýtt sér“ Trump.
Morell segir í grein í The New York Times föstudaginn 5. ágúst að Pútín búi að kunnáttu sinni sem þjálfaður foringi í sovésku leyniþjónustunni KGB og spili með forsetaframbjóðanda repúblíkana úr fjarlægð og fái hann þannig til að flytja boðskap sem sé hagstæður Rússum.
Morell segir jafnframt að Trump yrði „hættulegur“ sem æðsti yfirmaður bandaríska heraflans og hann mundi einnig kalla hættu yfir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Um grein Morells er fjallað á vefsíðunni Telegraph.co.uk laugardaginn 6. ágúst. Þar segir að þetta sé alvarlegasta viðvörunin gegn Trump frá forráðamanni innan leyniþjónustu Bandaríkjanna. Hún birtist þegar kannanir sýni að Trump sé 15 stigum á eftir Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, sé spurt hvort þeirra kjósendur ætli að styðja í kosningunum í nóvember.
Morell sem starfaði í 33 ár hjá CIA hjó til Trumps með þessum orðum:
„Pútín nýtti sér veikleika Trumps með því að hrósa honum. Trump svaraði einmitt á þann veg sem Pútín vænti.“
Í desember notaði Pútín þau orð um Trump að hann væri „hæfileikaríkur og ótvíræður leiðtogi“. Frá því að þessi orð féllu hefur Trump lagt ýmsum stefnumálum Rússa lið, þar á meðal varðandi Krím, og verið hálfvolgur í afstöðu sinni til NATO.
Morell segist aldrei fyrr hafa tekið opinbera afstöðu til forsetaframbjóðenda en nú geti hann ekki lengur orða bundist. Hann ætli að kjósa Hillary Clinton 8. nóvember 2016 og muni gera allt sem í sínu valdi sé til að tryggja að hún verði 45. forseti Bandaríkjanna. Hann segir:
„Tvær fastmótaðar skoðanir hafa leitt til þessarar ákvörðunar minnar. Í fyrsta lagi er Clinton mjög hæf til að verða æðsti yfirmaður heraflans. Ég treysti henni til að gegna höfuðskyldu forsetans – að gæta öryggis þjóðar okkar. Í öðru lagi er Donald J. Trump ekki aðeins óhæfur til starfans, hann kann einnig að ógna þjóðaröryggi okkar.“
Morell segir að framkoma Trumps í forkosningunum gefi til kynna að hann verði „lélegur, jafnvel hættulegur æðsti yfirmaður heraflans“.
Trump hafi þörf fyrir að upphefja sjálfan sig, hann bregðist við af of miklum ofsa þegar hann telji að sér vegið, hann láti tilfinningar ráða gjörðum sínum, hann neiti að skipta um skoðun þótt honum séu kynntar nýjar upplýsingar, hann sýni staðreyndum kæruleysi, hann vilji ekki hlusta á aðra og skorti virðingu fyrir lögum og rétti.
Um afstöðu Trumps til Pútíns segir Morell:
„Pútin er mikill leiðtogi, segir Trump, og lætur sig engu skipta þótt hann hafi drepið og fangelsað blaðamenn og stjórnmálaandstæðinga, hafi ráðist inn í tvö nágrannaríki og rústi efnahag eigin ríkis. Trump hefur einnig tekið pólitíska afstöðu í samræmi við hagsmuni Rússa en ekki Bandaríkjamanna – hann leggur blessun sína yfir njósnir Rússa gegn Bandaríkjunum, styður innlimun Krímskaga og hefur gefið Rússum grænt ljós hugsi þeir til innrásar í Eystrasaltsríkin.
Innan leyniþjónustunnar mundum við orða þetta svo að Pútín hefði virkjað Trump sem grandalausan útsendara Rússlands.“
Grein sinni lýkur Michael J. Morrel á þessum orðum:
„Þjálfun mín sem leyniþjónustumaður kenndi mér að lýsa hlutunum eins og þeir eru. Það gerði ég störfum mínum fyrir CIA. Það geri ég núna. Þjóð okkar verður miklu öruggari með Hillary Clinton sem forseta.“