Home / Fréttir / Fyrrverandi yfirmaður breska heraflans dregur dökka mynd af vanmætti hans til varnar Bretlandi

Fyrrverandi yfirmaður breska heraflans dregur dökka mynd af vanmætti hans til varnar Bretlandi

Sir Richard Barrons
Sir Richard Barrons

Breski herinn hefur ekki burði til að verja Bretland gegn allsherjarárás Rússa eða annars öflugs herveldis segir Sir Richard Barrons, hershöfðingi, fyrrverandi yfirmaður sameinaðs herafla Bretlands. Hann komst á eftirlaun í apríl en þetta gagnrýna mat hans á breska hernum má sjá í 10 blaðsíðna einka-minnisblaði sem hann sendi Sir Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands.

Það breytir engu um mat hershöfðingjans þótt breska ríkisstjórnin hafi ákveðið að auka útgjöld til varnarmála um tæpa fimm milljarða punda fram til ársins 2020/21 til að fullnægja samþykktum á vettvangi NATO um að útgjöld til varnarmála skuli nema minnst 2% af vergri þjóðarframleiðslu.

Frá minnisblaði hershöfðingjans er sagt í The Daily Telegraph laugardaginn 17. september og þar er vitnað í blaðamann The Financial Times  sem hefur séð minnisblaðið. Hershöfðinginn segir að grafið hafi verið utan getu hersins og þar með vegið að sjálfri undirstöðu hans. „Yfir vötnum svífur að nútímátök geti ekki verið meiri eða staðið lengur en falli að því sem við getum – og það er fráleitt.“

Sir Richard segir:

„Það kann að vera í lagi að við áttum okkur ekki á þessu verði framvinda heimsmála okkur í vil en kann hins vegar að valda miklum vanda þótt ekki nema fáein þeirra hættumerkja sem nú sjást snúist gegn Bretlandi.“

Í skjalinu kemur fram sláandi neikvæð spá um getu Breta til að verjast alhliða árás og er þar sérstaklega getið um Rússa sem hugsanlegan stríðsaðila enda séu þeir hættulegri og ólíkindalegri eftir innlimun sína á Kreml og yfirgangssemina í garð Úkraínumanna.

Sir Richard segir að allar fullbúnar aðgerðir til varnar loft- og landhelgi eða bresku landsvæði miðist við hryðjuverkaárás á hinn bóginn liggi ekki fyrir nein fullmótuð stjórn- og eftirlitsáætlun, undirbúningur eða þjálfun fyrir viðbrögð breska hersins til að verja Bretland sjálft gegn árás svo að ekki sé minnst á áætlanir um hvernig það yrði gert í samvinnu á vettvangi NATO.

Þegar hann ræðir um loftvarnir segir að þar sé treyst á tundurspilla, loftvarnasveitir á landi sem dugi líklega aðeins til að verja Whitehall, bresku stjórnarráðsbyggingarnar, og orrustuþotur flughersins. Það yrði hvorki unnt að verja Bretland sjálft né herafla sem sendur yrði á vettvang gegn markvissri loftárás Rússa.

Sir Richard segir að eins og málum sé nú háttað hafi yfirstjórn og liðsmenn hersins vanist á að stunda hernað frá öruggum stjórnstöðvum innan aðgerðasvæða gegn andstæðingum sem hreyfi sig innan þröngra marka án þess að ráða yfir brynvörðum farartækjum, séu án loftvarna, eigi veikburða stórskotavopn, geti ekki stundað rafeindahernað fyrir utan að skorta það sem mestu skiptir: flugher eða aðgang að langdrægum flugskeytum eða stýriflaugum.

Hann lýsir einnig áhyggjum yfir að starf innan breska hersins snúist um of um fá dýr tæki eins og flugmóðurskip sem „við höfum ekki efni á að nýta til fulls, skemma eða tapa“. Hann kvartar einnig undan skorti á mannafla í öllum greinum heraflans.

Sir Micahel Fallon varnarmálaráðherra sagði í grein í The Telegraph í fyrra að breski herinn hefði fulla burði og meira en það til að tryggja öryggi Breta og Bretlands. Sagði hann að þeir sem gerðu lítið úr heraflanum og getu hans viðurkenndu ekki að með því að takast á við undirrót óstöðugleika væri stuðlað að þjóðaröryggi, það ætti ekki aðeins að glíma við einkenni sjúkdómsins.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …