Home / Fréttir / Fyrrverandi Þýskalandskanslari stjórnarformaður í rússneska olíurisanum Rosneft

Fyrrverandi Þýskalandskanslari stjórnarformaður í rússneska olíurisanum Rosneft

Vinirnir Gerhard Schröder og Vladimir Pútín.
Vinirnir Gerhard Schröder og Vladimir Pútín.

Gerhard Schröder, fyrrv. kanslari Þýskalands, var kjörinn formaður stjórnar rússneska risaolíufélagsins Rosneft föstudaginn 29. september. Ríkisstjórn Rússlands tilnefndi hann til stjórnarsetunnar, hún mælist misjafnlega fyrir í Þýskalandi.

Igor Setsjín, forstjóri Rosnefts, mælti með kjöri Schröders og sagði að með því að velja hann í stjórnina styrktist staða olíufélagsins:

„Kjör Schröders í stjórnina sem sjálfstæðs fulltrúa auðveldar að sjálfsögðu alþjóðlega þróun félagsins, útþenslu þess í Evrópu og myndun virkra tengsla við vestræna samstarfsaðila,“ sagði Setsjín á hluthafafundinum að sögn TASS, rússnesku ríkisfréttastofunnar.

Allir helstu stjórnmálaflokkar Þýskalands hafa lýst vanþóknun sinni á að Schröder hafi tekið tilnefningu rússnesku ríkisstjórnarinnar um stjórnarsetu. Hafa flokksbræður Schröders í Jafnaðarmannaflokknum (SPD) tekið undir gagnrýni á hann.

Rosneft er á lista Evrópusambandsins um fyrirtæki sem refsað er vegna innlimunar  Krímskaga í Rússland vorið 2014.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) sagði föstudaginn 29. september að Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar neðri deildar þýska þingsins, Bundestag, hefði lát þau orð falla í samtali við útvarpsstöðina ZDF að það væri „öldungis ótrúlegt“ að Schröder ætlaði að nota stöðu sína sem fyrrverandi kanslari til að „hala inn fé“ hjá rússnesku fyrirtæki.

Það yrði að líta til þess að Rosneft væri „meginstoð“ í valdakerfi Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta, sagði Röttgen. Hann sakaði Schröder auk þess um að vilja gera Þjóðverja enn háðari Rússum í orkumálum.

Fyrir þýsku þingkosningarnar sunnudaginn 24. september hafnaði Schröder því að seta sín í stjórn Rosneft mundi draga úr sigurlíkum SPD. Martin Schulz, kanslaraefni flokksins, sem fékk slæma útreið í kosningunum, sagðist hafa sagt Schröder að hann hefði áhyggjur af afstöðu hans en sagði hana einnig „einkamál“ kanslarans fyrrverandi. DW segir að innan SPD, sem ekki hefur staðið verr að loknum kosningum frá stríðslokum, séu menn hneykslaðir á hlutverkinu sem fyrrverandi leiðtogi þeirra hefur ákveðið að taka að sér.

Schröder hefur lengi notið vináttu við Pútín.  Hann hefur meira að segja gengið svo langt að kalla rússneska forsetann „gallalausan lýðræðissinna“. Skömmu eftir að Schröder hvarf úr embætti kanslara varð hann formaður í stjórn félags sem var stofnað um rússnesk-þýsku gasleiðsluna Nord Stream.

 

Annað risa-ríkisorkufyrirtæki Rússa, Gazprom, á meirihluta í Nord Stream leiðslunni og Schröder hefur unnið náið með fyrirtækinu allar götur síðan. Hann varð stjórnarformaður í dótturfyrirtæki þar sem Gazprom var meirihlutaeigandi. Í fyrra varð hann stjórnarformaður í Nord Stream 2, dótturfyrirtæki Gazprom.

DW segir ekki nákvæmlega vitað hvað stjórnarmenn í Rosneft fá greidd há laun en líklegt er talið að þau nemi 6 milljónum evra (770 m. ISK) á ári. Schröder hefur sagt að hann ætli að þiggja innan við 10% af þeim um 600 þús. evrur (77 m. ISK).

Þýska kanslaraskrifstofan skýrði frá því föstudaginn 29. september að í ár mundi Schröder fá rúmlega 560 þús. evrur (71 m. ISK) til að halda úti skrifstofu í Berlín eins og er réttur fyrrverandi kanslara.

Þá fær Schröder um 6.500 evrur (830 þús. ISK) á mánuði í eftirlaun eftir að hafa verið kanslari í sjö ár, það er um 35% af launum Angelu Merkel eins og lögbundið er. Að auki fær hann eftirlaun sem fyrrverandi þingmaður á þingi Neðra-Saxlands og á þinginu í Berlín, Bundestag.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …