
Petr Pavel (61 árs) fyrrv. hershöfðingi, var laugardaginn 28. janúar kjörinn forseti Tékklands með 57,6% atkvæða í annarri umferð gegn Andrej Babiš, forsætisráðherra Tékka frá 2017 til 2021. Pavel tekur við embættinu í mars af Milos Zeman.
Í frétt BBC um kosningarnar segir að litið hafi verið á síðari umferð kosninganna sem einvígi milli popúlísks auðmanns, Babiš, og Pavels, frjálslynds lýðræðissinna.
Beitt var öllum brögðum í kosningabaráttunni, til dæmis varð Pavel að grípa til þess ráðs að nota Twitter til að bera á bak aftur orðróm um að hann væri dauður. Þessum ósannindum var dreift á vefsíðu með falsfréttum og í tölvubréfum frá Jandez netþjóninum í Rússlandi.
Babiš lýsti andúð á þessum upplýsingafölsunum. Sjálfur ákvað hann fyrir nokkrum dögum að hætta að koma fram opinberlega af ótta um líf sitt eftir að honum höfðu borist nafnlausar líflátshótanir.
Í ávarpi sem Pavel flutti laugardainn 28. janúar þegar úrslitin lágu fyrir sagði hann að sannleikur, reisn, virðing og auðmýkt hefðu sigrað.
„Langflestir Tékkar aðhyllast þessi gildi og það er tími kominn til þess að þau setji að nýju svip sinn á forsetakastalann og stjórnmálin,“ sagði hann.
Mannfjöldi hrópaði hástöfum Pavel na Hrad – Pavel í kastalann – og bergmálaði þar gamla slagorðið Havel na Hrad sem hljómaði um torg og stræti hvarvetna í Tékkóslóvakíu í nóvember 1989.
Pavel var á sínum tíma formaður hermálanefndar NATO og er eindreginn talsmaður bandalagsins eins og Íslendingar kynntust 21. nóvember 2016 þegar hann flutti fyrirlestur á vegum Varðbergs í Norræna húsinu. Vaclav Havel, fyrsti forseti Tékkóslóvakíu, eftir hrun Sovétríkjanna, var eindreginn talsmaður aðildar lands síns að NATO og ESB.
Litið er á sigur Pavels sem staðfestingu á vilja Tékka til að taka virkan þátt í starfi NATO og ESB og leggja jafnframt baráttu Úkraínumanna fyrir sjálfstæði og frelsi lands síns lið.
Á einu stigi kosningabaráttunnar gekk Babiš svo langt að segja að hann mundi sem forseti ekki virða skuldbindinguna í NATO-sáttmálanum um að árás á eitt ríki sé árás á þau öll. Þegar kjördagur nálgaðist dró hann þessi ummæli sín hins vegar til baka.
Á sínum tíma var Pavel félagi í Kommúnistaflokki Tékkóslóvakíu og hefur sætt gagnrýni fyrir það. Hann svarar henni með þeim orðum að aðild að flokknum hafi verið „eðlileg“ í fjölskyldu hans á þessum árum og lýsir henni sem „mistökum“.
Þegar sat í herskóla lagði hann stund á nám sem tengdist leyniþjónustustörfum. Hann kastaði flokksskírteini sínu 1989 þegar kommúnistar voru hraktir frá völdum en hélt þjálfun sinni til leyniþjónustustarfa áfram.
Í hernum hlaut Pavel einnig þjálfun sérsveitarmanns í fallhlífahernum og þegar barist var í Júgóslavíu við upplausn kommúnistastjórnarinnar þar vann hann sér til frægðar og viðurkenningar í Frakklandi að eiga ríkan þátt í að bjarga frönskum hermönnum sem voru í sjálfheldu milli Króata og Serba í Króatíu.
Pavel var síðar við nám í herfræðum í Bretlandi og lauk meistaraprófi frá King’s College í London.
Tékkland gekk í NATO 1999 og eftir það hófst framabraut Pavels þar og varð hann formaður hermálanefndar bandalagsins árið 2015.
Hann bauð sig fram utan flokka í embætti forseta Tékklands en naut stuðnings frjálslyndu íhaldshreyfingarinnar (SPOLU) sem staðið hefur að baki Miloš Zemans, fráfarandi forseta.
Pavel styður Úkraínumenn eindregið og pólitískir keppinautar hans hafa látið eins og hann muni senda Tékka í stríð við Rússa.
„Ég veit hvað stríð er og svo sannarlega vil ég ekki að nokkur þurfi að taka þátt í því,“ sagði Pavel. „Í lengstu lög mun ég reyna að halda landinu eins fjarri stríði og unnt er.“
Völd forseta Tékklands eru að mestu formleg en hann tilnefnir forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra og stjórnlagadómara. Forsetinn hefur auk þess rétt til íhlutunar í utanríkismál.