Home / Fréttir / Fyrrverandi NATO-hershöfðingi spáir innrás Rússa og stríði á árinu 2017

Fyrrverandi NATO-hershöfðingi spáir innrás Rússa og stríði á árinu 2017

 

Sir Alexander Richard Shirreff
Sir Alexander Richard Shirreff

, fyrrverandi breskur hershöfðingi, sem á sínum tíma var annar æðsti yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, segir í nýrri bók, 2017 War With Russia, sem kom út miðvikudaginn 18. maí að allt bendi til þess að til styrjaldar komi milli herja Rússa og Vesturlanda. Hann segir að það sem gerðist á Krímskaga á árinu 2014 hafi eyðilagt samskiptamynstrið sem mótaðist eftir lok kalda stríðsins og lagt grunn að átökum sem hefjist á næsta ári.

Í breska blaðinu The Guardian segir að lýsing Shirreffs sé „hrollvekjandi“. Hann spáir því að Rússar muni leggja undir sig hluta af Austur-Úkraínu til að skapa sér landleið til Krím og auk þess ráðast inn í Eystrasaltslöndin. Þeir séu ofurseldir óttanum við að vera umkringdir.

Shirreff var annar æðsti yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO frá 2011 til 2014. Áður var hann á Norður-Írlandi og í Balkanríkjunum. Í The Guardian segir að hann stefni heiðri sínum í hættu með svo djarfri spá. Hershöfðinginn fyrrverandi segir hins vegar að lýsingar hans styðjist náið við það sem hann kynntist hjá NATO þegar menn settu á svið framtíðarátök.

Sviðsmyndin sem hann kynnir er nákvæm. Hann segir að Rússar ráðist fyrst inn í Lettland í maí 2017.

Við kynningu bókarinnar í Royal United Services Institute í London mildaði hann spádóminn með því að segja að hann mundi ekki rætast ef NATO gripi til nauðsynlegra gagnaðgerða, til dæmis með því að flytja herafla til Eystrasaltríkjanna og hann hefði þar fasta viðveru. Líklegt er að þetta verði gert eftir leiðtogafund NATO í Varsjá í júlí 2016.

Þegar Shirreff kynnti bókina á fundi með blaðamönnum sagði hann að Vladimír Pútín Rússlandsforseti kynni að gefa fyrirmæli um innrás í Eystrasaltsríkin og síðan hóta með kjarnorluvopnum ef NATO gripi til gagnaðgerða. Sagan geymdi mörg dæmi um óskynsamlegar ákvarðanir og þær kynnu að verða teknar nú á tímum eins og áður.

Bandaríkjamaðurinn James Stavridis, aðmíráll og fyrrverandi yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, segir í formála bókarinnar: „Undir stjórn Pútíns forseta hafa Rússar mótað sér hættulega stefnu sem kann óhjákvæmilega að leiða til áreksturs við NATO verði henni ekki breytt. Þetta hefði í för með stríð sem kynni auðveldlega að verða háð með kjarnorkuvopnum.“

Shirreff segir öllu skipta fyrir Breta að halda í kjarnorkuvopn sín og fælingarmáltt þeirra. Menn verði að gera sér grein fyrir því að beiting kjarnorkuvopna sé snar þáttur í hernaðarstefnu Rússa.

Hann segir Rússa nú hættulegustu andstæðinga Vesturlanda og því aðeins verði unnt að stöðva Pútín átti menn á Vesturlöndum sig á að raunveruleg hætta sé á stríði og bregðist við í skyndi. Hann segir NATO í vaxandi mæli skorta þekkingu, getu og vígbúnað til að takast á við það sem hann kallar sífellt betri venjulegan herbúnað Rússa.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …