Home / Fréttir / Fyrrverandi forseti Georgíu helsti stjórnarandstæðingurinn í Úkraínu

Fyrrverandi forseti Georgíu helsti stjórnarandstæðingurinn í Úkraínu

Mikheil Saakashvili, fyrrv. forseti Georgíu.
Mikheil Saakashvili, fyrrv. forseti Georgíu.

Mikheil Saakashvili, fyrrv. forseti Georgíu og stofnandi stjórnarandstöðuflokksins Sameinuðu þjóðarhreyfingarinnar í Úkraínu segist vilja bjarga Úkraínu. Tim Sebastian ræddi nýlega við Saakashvili fyrir þýsku fréttastofuna DW. Hér verður vitnað í samtalið sem birtist miðvikudaginn 24. janúar. 

„Þjóðin glímir við mikinn vanda. Úkraína kann að splundrast og ég hef miklar áhyggjur af því. Hér er þörf á breytingum. Það verður að bjarga Úkraínu. Úkraína er stærsta landið í Evrópu og landið er nú á niðurleið,“ sagði Mikheil Saakashvili. 

Tim Sebastian veltir fyrir sér hvort Saakashvili sé rétti maðurinn til að taka að sér þetta verkefni. Könnun var gerð í september 2017 á vegum International Republican Institute og sýndi hún að 70% Úkraínumanna voru annaðhvort frekar eða mjög neikvæðir í garð hans. 

Þegar þessi tala er rædd við Saakashvili segir hann: „Ég vek athygli á að um þessar mundir hata Úkraínumenn allra stjórnmálamenn.“ 

Saakashvili á nú í illdeilum við gamlan vin sinn, Petro Porosjenkó, forseta Úkraínu, en þeir kynntust á sínum tíma í háskólanum í Kænugarði. Saakashvili sakar forsetann um spillingu og vill að hann verði sviptur embætti. Hann er sannfærður um að þess vegna vilji ríkisstjórn Úkraínu losna við sig. 

„Segja má að ríkisstjórnin hafi gripið til ýmislegra einkennilegra ráða af því að í eitt ár hefur hún gert alls konar tilraunir til að neyða mig til að yfirgefa Úkraínu. Þessir menn vilja mig ekki hérna. Punktur.“ 

Saakashvili var forseti Georgíu í níu ár og leiddi „Rósabyltinguna“ þar árið 2003. Eftir að Porosjenkó varð forseti Úkraínu bauð hann Saakashvili að verða héraðsstjóri í Odessa-héraði í Úkraínu. Héraðið liggur að Svarta hafi og sagt er að þar sé meiri spilling en annars staðar í Úkraínu. Eftir að Saakashvili tók boðinu fékk hann ríkisborgararétt í Úkraínu. 

Saakashvili var i 18 mánuði héraðsstjóri í Odessa en sagði þá af sér. Sakaði hann Porosjenkó um að bregða fæti fyrir sig í baráttunni gegn spillingu á æðstu stöðum. Hann hefur ekki enn lagt fram neinar óhrekjanlegar sannanir um hlutdeild Porosjenkós eða annarra auðmanna Úkraínu í spillingu. 

„Öll klíkan – þetta er þjófaklíka,“ sagði hann við Tim Sebastian. 

Skömmu eftir afsögn sína í Odessa stofnaði Saakashvili nýjan stjórnarandstöðuflokk í Úkraínu, Sameinuðu þjóðarhreyfinguna. Hann vildi innleiða nýja stjórnmálamenningu í Úkraínu og breyta leikreglunum. 

Saakashvili var tekinn fastur í desember 2017 sakaður um samsæri með kaupsýslumönnum með tengsl við Moskvu í því að skyni að svipta Petro Porosjenkó forseta völdum. Saakashvili segir þetta fráleitar ásakanir. 

Tugir þúsunda stuðningsmanna Saakashvilis efndu til mótmæla á götum Kænugarðs. höfuðborgar Úkraínu, og kröfðust þess að hann yrði látinn laus og hafin yrði málssókn til að velta Porosjenkó af stóli.  

Saakashvili sagði mannfjöldann til marks um vinsældir sínar og hann mundi sækjast eftir að verða forsætisráðherra Úkraínu. Hann varð að falla frá þeim áformum eftir að Porosjenkó svipti hann úkraínskum ríkisborgararétti. Saakashvili er því án ríkisfangs og vegabréfs af því að hann glataði ríkisborgararétti sínum í Georgía árið 2015 þegar hann settist að sem valdamaður í Úkraínu. 

Saakashvili dvelst enn í Úkraínu en hvenær sem er kann hann að verða rekinn þaðan til Georgíu. Gerist það verður hann líklega tekinn fastur og settur í fangelsi þar sem hann hlaut nýlega þriggja ára fangelsisdóm í Georgíu fyrir valdníðslu sem forseti. 

Í forsetatíð sinni náðaði Saakashvili fjóra lögreglumenn sem voru sakaðir um að hafa myrt bankastjórann Sandro Girgvliani. Dómarinn segir að náðanirnar hafi verið liður í samkomulagi um að skjóta undan sönnunargögnum vegna morðsins. 

Saakashvili segir þetta hreinan pólitískan málatilbúnað. Réttarvörslukerfi Georgíu hafi verið veikbyggt á þessum tíma og sé jafnvel enn verra núna. 

Hann sagðist ekki óttast að verða settur í fangelsi, hann gæti farið hvert sem hann vildi. Hann yrði þó að halda áfram baráttunni gegn auðmönnunum (olgörkunum) sem reyndu að ná undirtökunum í Georgíu, Moldóvu, Úkraínu og hvarvetna í veröldinni. Það mætti ekki gefast upp fyrir þeim. 

„Þessir menn niðurlægja aðra. Þeir eru spilltir. Þeir gera út af við framtíðarhorfur þessa lands. Að lokum munu þeir sprengja þetta land því að landið er að splundrast. Ég get ekki setið einhvers staðar í Hollandi [kona Saakashvilis er hollensk] og fylgst þegjandi með þessu. Ég get það einfaldlega ekki.“ 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …