Home / Fréttir / Fyrrverandi forseti Georgíu eftirlýstur og ríkisfangslaus í Úkraínu

Fyrrverandi forseti Georgíu eftirlýstur og ríkisfangslaus í Úkraínu

 

Mikheil Saakashvili var vel fagnað af stuðningsmönnum við komuna til Úkraínu.
Mikheil Saakashvili var vel fagnað af stuðningsmönnum við komuna til Úkraínu.

Arsen Avakov, innanríkisráðherra Úkraínu, segir að Mikheil Saakashvili, fyrrverandi forseti Georgíu og fyrrverandi héraðsstjóri í Odessa-héraði í Úkraínu, sé eftirlýstur vegna ásakana um „alvarleg“ afbrot eftir að hann fór á ólögmætan hátt inn í Úkraínu sunnudaginn 10. september og stofnaði til handalögmála á landamærunum við Pólland. Hann hafi við landamærin „ráðist á grunnstofnanir ríkisins“.

Lögreglurannsókn hófst gegn Saakashvili eftir að hann hafði að engu bann yfirvalda í Úkraínu um landvist. Hann var sviptur ríkisborgararétti í Úkraínu í júlí 2017. Þegar hann varð ríkisborgari í Úkraínu missti Saakashvili sjálfkrafa ríkisborgararétt sinn í Georgíu. Hann er því ríkisfangslaus.

Mánudaginn 11. september var Saakashvili í borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu, skammt frá landamærum Póllands. Hann sagði að hann hefði ekki lengur úkraínskt vegabréf undir höndum, lögregla hefði „stolið því“ úr langferðabíl sem ók honum inn í Úkraínu.

„Í morgun lagði lögfræðingur minn inn umsókn í útlendingastofnun Úkraínu um vernd fyrir mig gegn yfirvöldum Úkraínu,“ sagði Saakashvili. „Það sýnir að ég er löglega í Úkraínu.“

Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, fann að því mánudaginn 11. september að Saakashvili hefði farið yfir landamærin inn í Úkraínu án nauðsynlegra skilríkja. Hann sagði að Saakashvili hefði átt að leita til dómstóla til að fá ákvörðuninni um að svipta hann ríkisborgararétti hnekkt sætti hann sig ekki við hana.

Mörg hundruð stuðningsmenn Saakashvilis gengu við hlið hans sunnudaginn 10. september þegar hann hélt frá Póllandi inn í Úkraínu og hafði fyrirmæli úkraínskra landamæravarða að engu.

Lögreglan í Lviv, þar sem Saakashvili hélt sig næturlangt, sagði 11. september að héraðslögreglan rannsakaði atvik sem varð á landamærum Póllands og Úkraínu. Þeir sem fundnir yrðu sekir um að fara ólöglega yfir landamærin ættu allt að fimm ára fangelsi yfir höfði sér.

Volodíjmíjr Hrojsman, forsætisráðherra Úkraínu, sagði á Facebook mánudaginn 11. september að um hefði verið að ræða „árás“ gegn ríkisvaldi Úkraínu. „Nú er tímabært að berjast fyrir hönd ríkisins en ekki í þágu valda,“ sagði hann.

Saakashvili segir að hann njóti viðurkenningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem „ríkisfangslaus“ og hann ætli að láta á það reyna hvort rétt hafi verið staðið að sviptingu á ríkisfangi hans í Úkraínu.

Fyrir utan að eiga á hættu að sæta handtöku fyrir að fara ólöglega inn í Úkraínu kann einnig að koma til þess að Saakashvili verði framseldur til Georgíu. Þar vilja yfirvöld ná til hans vegna ásakana um að hann hafi misfarið með eignir og beitt valdníðslu árin sem hann var forseti landsins. Saakashvili segir að hér sé um pólitískar ásakanir að ræða.

Hann missti ríkisborgararétt sinn í Georgíu árið 2015 þegar honum var veittur ríkisborgararéttur í Úkraínu til að geta orðið við boði frá Porosjenkó, forseta landsins, um að verða héraðsstjóri í Odessa-héraði við Svartahaf. Stjórnarskrá Georgíu leyfir ekki tvöfaldan ríkisborgararétt.

Saakashvili sagði af sér embætti héraðsstjórans í Odessa í nóvember 2016, sér hefði verið bannað að vinna að umbótum.

Það slitnaði upp úr vinskap Porosjenkos og Saakasvhilis og hann var sviptur úkraínska ríkisborgararéttinum í júlí 2017.

Meðal þeirra sem fögnuðu Saakashvili við komuna til Úkraínu sunnudaginn 10. september var Júlía Tymosjenko, fyrrv. forsætisráðherra Úkraínu, og aðrir kunnir andstæðingar Porosjenkos. Þeir voru meðal þúsunda almennra Úkraínumanna sem stóðu við landamærin um 80 km fyrir vestan Lviv.

Áður en Saakashvili hélt frá Varsjá að landamærum Úkraínu ræddi hann við blaðamenn föstudaginn 8. september. Hann sagði að í Úkraínu ríkti nú uppgjöf meðal stjórnvalda gagnvart umbótum og aðgerðum til að draga úr spillingu. Hann vildi hefja stjórnmálaþátttöku að nýju til að taka til hendi á þessum sviðum.

Í stjórnartíð Saakashvilis sem forseti Georgíu á árunum 2004 til 2013 var honum þakkað að hafa komið í framkvæmd að vestrænni fyrirmynd átaki gegn spillingu.

Stuðningsmenn hans sögðu við landamærin sunnudaginn 10. september að Saakashvili hefði alla burði til að takast á við spillingaröflin í Úkraínu, koma böndum á olígarkana og binda enda á þriggja ára landamæraátök við Rússa í austurhluta Úkraínu.

Heimild: RFE/RL og dw.de.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …