
Fréttir eru um að Micahel Cohen, fyrrverandi einkalögfræðingur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og „reddari“ um margra ára skeið, hafi samið við alríkis-saksóknara þriðjudaginn 21. ágúst um sakarefni sem tengjast brotum á lögum um fjármögnun kosningabaráttu og banka- og skattasvik.
Að kvöldi þriðjudagsins var ekki vitað hvort í samkomulaginu felist að Cohen muni vinna með alríkis-saksóknurunum í New York og Robert Mueller, sérstökum saksóknara á afskiptum Rússa af forsetakosningabaráttunni árið 2016. Cohen hefur í mörg ár unnið að því að leysa vandamál fyrir Trump, nú velta álitsgjafar fyrir sér hvort hann verði allra mesta vandamál Trumps.
Stormy Daniels, leikkona í klámyndum, hélt því fram að hún hefði átt í sambandi við Donald Trump á árinu 2006 og fengið 130.000 dollara greiðslu frá Cohen fyrir að þegja um atvikið.
Eftir að Daniels skýrði frá samskiptum sínum við Cohen gerðu alríkislögreglumenn húsleit heima hjá honum og í skrifstofu hans í apríl 2018. Þá sagði fyrrverandi bandarískur saksóknari við vefsíðuna Axios:„Þetta hlýtur að hafa gerst: Mueller datt niður á sönnunargögn um brotlegt athæfi sem var utan umboðs hans svo að hann vísaði því til Rods.“ Þar er átt við Rod J. Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Með dómi að húsleitinni lokið var komið í veg fyrir að lögmenn Trumps fengju strax að vita hvaða gögn fundust í henni og leyndarmál „eina mannsins í heimi sem hafði vitneskju um allt sem tengdist Trump vegna starfa hans, stjórnmála, einkamála, lögfræðilegra mála og fjölskyldulífs“ lágu opin fyrir alríkislögreglunni.
Rannsókn stjórnvalda varð víðtækari í maí eftir að rannsakendur höfðu hlerað síma Cohens.
Cohen rauf þögn sína í júlí í samtali við George Stephanopoulos á ABC-fréttastöðinni. Þar gaf hann til kynna að hann væri fús til að eiga samstarf við alríkislögregluna. „Ég verð ekki stuðpúði í málsvörn einhvers, ég er ekki skúrkurinn í málinu og ég mun ekki leyfa öðrum að reyna að draga upp þá mynd af mér,“ sagði hann.
Lanny Davis, lögfræðingur Cohens, sendi síðar í júlí frá sér upptöku til CNN þar sem er að heyra samtal Cohens við Trump um að borga Karen McDougal, Playboy-stúlku, sem sagðist hafa átt í sambandi við forsetann. Davis gaf fyrirheit um að „meira kæmi“.
Skömmu síðar sagði Cohen við CNN að Trump vissi fyrirfram um fund í Trump Tower í New York árið 2016 þegar nokkrir helstu menn í kosningastjórn hans hittu rússneskan lögfræðing sem lofaði þeim óhróðri um Hillary Clinton.
Leigubílaþjónusta fjölskyldu Cohens var brátt tekin til skoðunar sem leiddi til Twitter-færslna Trumps undir lok júlí.
Nú um helgina bárust fréttir um að alríkislögreglan rannasakaði banka- og skattsvik og hefur það að líkindum leitt til samkomulagsins nú þriðjudaginn 21. ágúst.
Heimild: Axios