Home / Fréttir / Fyrrverandi CIA-starfsmaður sakaður um njósnir fyrir Kínverja

Fyrrverandi CIA-starfsmaður sakaður um njósnir fyrir Kínverja

2803

Jerry Chun Shing Lee, fyrrv. starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hefur verið handtekinn og sakaður um að hafa undir höndum trúnaðarupplýsingar um njósnara í Kína.

Talið er að fyrrverandi CIA-starfsmaðurinn standi að baki uppljóstrunum um njósnahring í Kína, þar á meðal um minnst 12 njósnara sem kínversk yfirvöld hafa drepið eða handtekið.

Jerry Chun Shing Lee býr í Hong Kong en var tekinn fastur á JFK-flugvelli í New York mánudaginn 15. janúar sex árum eftir að starfsmenn bandarísku alríkislögreglunnar FBI komust á snoðir um að hann hafði með sér á ferðalögum minnisbækur með upplýsingum um bandaríska leyniþjónustumenn.

Lee sem hefur bandarískan ríkisborgararétt gengur einnig undir nafninu

Zhen Cheng Li. Þriðjudaginn 16. janúar var fyrsta réttarhald yfir honum undir stjórn alríkisdómara í New York. Þar var hann formlega sakaður um ólöglega meðferð á skjölum sem snerta varnarhagsmuni Bandaríkjanna. Honum verður stefnt fyrir annan rétt í norðurhluta Virginíu þar sem er aðsetur CIA.

Lee liggur undir grun um að hafa miðlað nöfnum bandarískra leyniþjónustumanna til kínverskra stjórnvalda og þannig valdið mannskæðasta áfalli CIA frá lokum kalda stríðsins. Í fyrra birti The New York Times frétt um að frá 2010 til 2012 hefðu Kínverjar drepið eða fangeslað minnst 12 bandaríska heimildarmenn í Kína.

Blaðið sagði að FBI-menn teldu Lee höfuðpaurinn þótt viðbrögð innan CIA hefðu fyrst verið á þann veg að ekki væri neina „moldvörpu“ að finna þar.

Óljóst er hvers vegna Lee var ekki handtekinn strax og minnisbækur hans fundust við rannsókn FBI-manna í farangri hans á ferðalögum til Hawaii og Virginíu á árinu 2012.

Lee er 53 ára og segir bandaríska utanríkisráðuneytið að hann hafi alist upp í Bandaríkjunum og þjónað í bandaríska hernum áður en réðst til starfa hjá CIA árið 1994.

Hann starfaði á ýmsum stöðum sem ekki hafa verið nafngreindir þar til að hann hvarf úr þjónustu CIA árið 2007. Síðast er vitað um hann sem starfsmann uppboðshaldara í Hong Kong.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …