Home / Fréttir / Fyrirflug á vegum NATO jókst mjög á árinu 2016

Fyrirflug á vegum NATO jókst mjög á árinu 2016

Rússnesk Sukhoi Su-25 hervél.
Rússnesk Sukhoi Su-25 hervél.

Frá lokum kalda stríðsins hafa orrustuþotur undir merkjum NATO aldrei flogið í veg fyrir fleiri ókunnar flugvélar en árið 2016. Alls var flogið í veg fyrir 780 rússneskar flugvélar á árinu sagði talsmaður herstjórnar NATO í Ramstein í Þýskalandi við þýsku fréttastofuna DPA í vikunni. Árið 2015 voru fyrirflugin alls 410 eða um helmingi færri.

Sé kallað út í fyrirflug hafa flugmennirnir aðeins fáeinar mínútur til að hefja orrustuþotur sínar á loft. Markmiðið er að þeir geti séð ókunnu flugvélina með eigin augum. Í neyðartilvikum geta þeir beitt valdi til að snúa ókunnu vélinni af braut.

Sjaldgæft er að kallað sé út í fyrirflug yfir Evrópu vegna annarra véla en rússneskra. Af alls 870 fyrirflugum í fyrra vor um 90 vegna hervéla annarra ríkja en Rússlands eða vegna farþega- og flutningavéla sem ekki höfðu sent frá sér nægilega skýr boð.

Þegar litið er á tölurnar frá 2016 ber að hafa í huga að fyrirflug Tyrkja fellur einnig undir tölfræði NATO. Þar hefur hætta í lofti aukist vegna átakanna í Sýrlandi og íhlutun Rússa í átökin þar.

Vegna þátttöku rússneska flughersins í Sýrlandi hefur fyrirflugum fækkað æi austurhluta Evrópu. Varnarmálaráðuneyti Litháens segir að á árinu 2015 hafi 160 sinnum verið flogið í veg fyrir rússneskar flugvélar á Eystrasalti en 110 sinnum árið 2016.

Tölurnar nú eru um tvöfalt hærri en áður en Rússar innlimuðu Krímskaga og hófu valdbeitingu gegn Úkraínumönnum á árinu 2014.

Innan NATO segja menn að aukin loftrýmisgæsla undir merkjum bandalagsins sé til þess fallin að auka öryggiskennd aðildarþjóðanna í austri gagnvart hættu á árás Rússa. Þá er bent á að fljúgi vélar án þess að kveikt sé á ratsjársvörum þeirra skapi þær hættu fyrir borgaralegt flug.

Sérfræðingar í flugöryggismálum árétta að að ferðir rússnesku flugvélanna séu almennt í samræmi við alþjóðareglur. Þá benda þeir á að sé vestrænum hervélum flogið utan merkja NATO sé ekki alltaf kveikt á ratsjársvörum þeirra. Á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (IACO) er unnið að því að setja strangari alþjóðareglur um flugöryggi.

Heimild: Der Spiegel.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …