Home / Fréttir / Fyrir rétti í París vegna tengsla við lyfjahneyksli Rússa

Fyrir rétti í París vegna tengsla við lyfjahneyksli Rússa

Lamine Diack.
Lamine Diack.

Fyrrverandi formaður Alþjóðasamtaka frjálsíþróttafólks situr fyrir rétti í París sakaður um spillingu og peningaþvætti í tengslum við lyfjamisferli rússneskra íþróttamanna.

Í ákæru á hendur Lamine Diack segir að hann hafi fengið rúmlega 3.3 milljónir dollara frá rússneskum íþróttamönnum fyrir að hylma yfir ásakanir um ólöglega lyfjanotkun og heimila mönnunum að keppa áfram.

Hann er sakaður um að hafa greitt og þegið mútur, brotið trúnað og um að hafa skipulagt peningaþvætti. Hljóti hann dóm getur hann orðið að sitja allt að 10 árum í fangelsi.

Lyfjahneykslið leiddi til þess að Rússar fengu hvorki að keppa á sumar-ólympíuleikunum árið 2016 né vetrarleikunum árið 2018.

Diack varð 87 ára sunnudaginn 7. júní. Hann segist saklaus og lögfræðingar hans segja að ákæran eigi ekki við nein rök að styðjast. Réttarhöldin í París verða til 18. júní.

Lamine Diack er frá Senegal. Hann var forseti Alþjóðasamtaka frjálsíþróttafólks (IAAF) í 16 ár til 2015.

Ætlunin var að réttarhöldin hæfust í janúar 2020 en var frestað vegna þess að ný skjöl voru lögð fram með vitnisburði Papa Massata Diacks, sonar Lamines, sem einnig sætir ákæru í málinu. Sonurinn starfaði sem markaðsráðgjafi fyrir IAAF.

Yfirvöld í Senegal hafa neitað að framselja Papa Massata Diack og hann neitar allri samvinnu við frönsk stjórnvöld. Hann er einnig ákærður fyrir peningaþvætti, spillingu og trúnaðarbrot. Verður felldur útivistardómur í máli hans og einnig tveggja Rússa sem ákærðir eru, annar þeirra er Valentin Balakhnistjev, fyrrverandi forystumaður rússnesks frjálsíþróttafólks og gjaldkeri IAAF.

Habib Cisse sem var lögfræðilegur ráðgjafi Diacks hjá IAAF sætir einnig ákæru fyrir að hafa haft milligöngu milli IAAF og Rússa og þegið hundruð þúsunda dollara í þóknun.

Málið er rekið í Frakklandi vegna þess að talið er að peningaþvættið hafi farið fram í Frakklandi þar sem Lamine Diack hefur setið í stofufangelsi síðan rannóknin hófst.

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …